Kallaði til lögreglu komin sex mánuði á leið

Birna Hólm viðmælandi Sterkari saman er fyrir miðju. Hér er …
Birna Hólm viðmælandi Sterkari saman er fyrir miðju. Hér er hún ásamt stjórnendum þáttarins, Tinnu Guðrúnu og Elínu. Ljósmynd/Aðsend

Birna Hólm er 33 ára, einstæð tveggja stráka móðir, hún er fyrsti viðmælandi hlaðvarpsins Sterkari saman. Birna á stóra og magnaða sögu en sem barn flutti hún oft og mikið á milli staða með móður sinni og systur. Þær festu hvergi rætur fyrr en í Breiðholtinu um 11 ára aldur. „Fyrst þá fór ég að mynda vinasambönd,“ segir Birna og bætir við að hún tali alltaf um sig sem Breiðhylting.

Birna varð móðir ung en hún eignaðist eldri son sinn aðeins 17 ára gömul. „Ég var mjög ung og við tók að vera einstæð mamma en það gekk bara ágætlega þó það hafi slitnað upp úr mörgum vinasamböndum, það voru allir á öðrum stað bara.“

Hún hefur þurft að upplifa ansi margt en vill þó ekki gera mikið úr hlutunum. Birna er róleg og yfirveguð þegar hún segir frá því að hafa upplifað fjölda áfalla og misst marga sér nákomna.

Árið 2012 kynntist Birna góðum manni sem síðar varð til þess að hún leitaði sér aðstoðar við meðvirkni. „Ég var að klára endurhæfingu þegar ég kynnist manni, við eignumst saman son fimm árum síðar. Þá hafði hann breyst í skelina af þeim manni sem hann var þegar við kynntumst. Hann átti við mikinn og þungan vímuefnavanda að stríða.“

Fíknin var búin að snúa honum upp í andhverfu sína. Þegar Birna var gengin sex mánuði á leið þurfti hún í fyrsta skipti að kalla eftir aðstoð lögreglu og móður sinnar vegna ofbeldis á heimilinu, fram að því hélt hún öllu fyrir sig.

Birna talar af mikilli virðingu um barnsföður sinn sem fallinn er frá af völdum fíknar. „Hann hafði alla burði til að vera ofurhetjan sem sonur okkar talar um að pabbi sé en fíknin tók það frá honum,“ segir Birna.

Birna er mögnuð fyrirmynd sem talar opinskátt um þær tilfinningar sem fylgja því að vera aðstandandi einstaklings í virkri neyslu, þolandi ofbeldis og hvernig það er hægt að halda áfram þrátt fyrir allt.mbl.is