„Ég hafði ekkert val“

Erna Rós Bergþórsdóttir tók til í mataræðinu fyrir nokkrum árum.
Erna Rós Bergþórsdóttir tók til í mataræðinu fyrir nokkrum árum. mbl.is/Árni Sæberg

Erna Rós Bergþórsdóttir, snyrtifræðingur hjá Húðfegrun og nemi í næringarfræði í Háskóla Íslands, ákvað að taka til í mataræðinu árið 2013. Hún byrjaði að taka sykur út en hún stóð frammi fyrir því að geta mögulega ekki unnið við það sem hún var að mennta sig í vegna verkja.

„Ég gat varla unnið. Ég er menntaður snyrtifræðingur og var að fara að útskrifast úr snyrtifræðinni. Ég áttaði mig á því að ég þyrfti að breyta einhverju eða ég gæti ekki unnið við þetta starf. Það var annaðhvort eða. Mér var illt í liðunum og illt í bakinu,“ segir Erna um ástandið á sér. 

Erna ákvað að breyta aðeins til og tók þátt í meistaramánuði þar sem hún setti sér það markmið að hætta að borða sykur og skyndibita.

„Ég þurfti að breyta einhverju á þessum tímapunkti eða ég var ekki að fara vinna við þetta, ég hafði ekkert val. Ég tók meistaramánuð og sleppti öllum sykri og skyndibita,“ segir Erna, sem þarna var 23 ára. Í meistaramánuðinum tók hún eftir því hvað henni leið vel og þar með fór boltinn að rúlla. Erna komst seinna að því að hún glímdi við mjólkuróþol og í dag reynir hún að borða mjög hreint.

Erna nýtti meistaramánuð til þess að gera breytingar.
Erna nýtti meistaramánuð til þess að gera breytingar. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta gerðist hægt og rólega og ég tók ekki mikið eftir þessu. Ég ólst upp við fjallgöngur og hef gengið á fjöll síðan ég var lítil. Ég tók aðallega eftir þessu þar. Þegar ég var í mínu versta ástandi og svo í dag,“ segir Erna um breytinguna. 

Úr lakkríspokanum í grænmeti

Hreyfing er helsta áhugamál Ernu í dag og hún lyftir mikið. Hún hefur meðal annars keppt nokkrum sinnum í bikinífitness. „Með því að fara og hreyfa mig kynntist ég fleira og fleira fólki og það endaði með því að ég fékk mér þjálfara sem ég er enn hjá. Ég keppti á mínu fyrsta móti 2016,“ segir Erna. Hún hefur mestallan tímann verið hjá þjálfaranum Konráði Gíslasyni hjá Iceland Fitness. Hún keppti síðast á móti í Danmörku árið 2019 þar sem hún lenti í þriðja sæti.

Hreyfing er í dag helsta áhugamál Ernu.
Hreyfing er í dag helsta áhugamál Ernu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég segi oft að maður sæki í það sem maður hefur þurft að vinna í sjálfur. Ég þurfti að skoða mataræðið frá grunni. Að fara úr lakkríspokanum í brokkólí,“ segir Erna sem fór alla leið og byrjaði í námi í næringarfræði, svo mikinn áhuga fékk hún á næringu. 

Ástæðan fyrir því að hún fór yfir í hollari mat var bæði sú að hún vildi líta betur út en líka bæta líðan sína. „Mig langaði að líta betur út og ég fann að þegar ég gerði hluti sem létu mig líta betur út þá leið mér betur, bæði andlega og líkamlega. Í dag finnst mér það að líða vel alltaf aðalmarkmiðið. Ég verð pirruð ef ég næ ekki að hlaupa eða gera það sem ég geri dagsdaglega.“

Markmið Ernu er að líða vel.
Markmið Ernu er að líða vel. mbl.is/Árni Sæberg

Sterkari andlega

Erna segist hafa eflst mikið á síðustu árum. „Ég er sterkari andlega. Ég hef gert ýmislegt sem mig grunaði ekki að ég gæti gert. Ég hef fengið rosalega mikla hjálp. Mér finnst númer eitt, tvö og þrjú að vera hjá sálfræðingi eða hafa einhvern til þess að tala við,“ segir Erna, sem segir einnig gott að hafa fyrirmyndir. Hennar helsta fyrirmynd er amma hennar.

„Mér finnst ekkert að því að biðja um hjálp. Því meiri hjálp sem þú biður um því betra. Það er gott að umgangast fólk sem þú getur hringt í og beðið um hjálp, hvort sem það eru vinkonur, fjölskylda eða fagfólk. Reyna að læra af mistökum sjálfrar þín og læra af fólki sem þú talar við dagsdaglega eða sem þér þykir vænt um.“

Erna borðar mikið en hollt. Hún leyfir sér meira á …
Erna borðar mikið en hollt. Hún leyfir sér meira á nammidögum. mbl.is/Árni Sæberg

Þrátt fyrir að Erna mæli með hollum mat leggur hún mikið upp úr því að fólki finnist maturinn sem það borðar góður og mælir ekki með því að fara á tímabundinn kúr. „Ekki bara byrja á fitnessmataræði. Ég er alltaf á sama mataræðinu. Það breytist ekki mikið eftir því hvort ég er að búa mig undir keppni eða ekki. Það er kannski aðeins stífara þegar ég er að fara að keppa. Þá er maður líka meira undir leiðsögn þjálfara og borðar eitthvað ákveðið mikið á hverjum degi. Að maður borði lítið yfir daginn er mýta. Mér finnst ég borða mikið. Ég er alltaf borðandi. Þú getur alveg gert þetta á báða vegu, það fer eftir þjálfara og eftir því hvaða hjálp þú velur þér. Ég mæli ekki með að gera þetta einn,“ segir Erna. 

Það kemur fyrir að Erna leyfi sér eitthvað aðeins óhollara. „Ég leyfi mér aðallega súkkulaði og steik. Jólin einkenndust svolítið af því. Ég reyni að hafa þetta svolítið eins á virkum dögum. Það hentar mér betur að taka nammidaga af því það eru verðlaunin eftir vikuna,“ segir Erna, sem mælir með því að byrja ekki of geyst. Sjálf notar hún dagbók til að skipuleggja sig og segir gott skipulag algjört lykilatriði.

mbl.is