„Get ekki mætt í jarðarfarir eftir sorgina“

Inga Sæland er formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland er formaður Flokks fólksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, segist ekki þekkja neitt annað en að hafa aðeins 10% sjón og sjá ekki liti. Hún er nýjasti gesturinn í nýjasta hlaðvarpsþætti Sölva Tryggvasonar. Þar talar hún um æskuna en hún missti sjónina þegar hún var barn.

„Ég er lögblind og hef aðeins 10% sjón. Sem auðvitað hefur háð mér mikið í gegnum tíðina. En ég er þakklát fyrir það að ég þekki eiginlega ekkert annað, sem er öðruvísi en ef sjónin er skyndilega tekin af þér. Ég fékk hlaupabólu sem lítið barn og svo heilahimnubólgu út frá því og var eiginlega alveg blind til tveggja ára aldurs, en svo fór einhver skíma að koma til baka og hef verið með um 10% sjón mest alla tíð og sé enga liti og get að sjálfsögðu ekki verið með bílpróf. Ég nýti mér óspart ferðaþjónustu blindra og það var bylting þegar hún kom til sögunnar. En á einhvern hátt held ég að það að glíma við hluti eins og sjónleysi hjálpi manni að skilja þá sem glíma við erfiðleika. Kannski er það hluti af því að ég má ekkert aumt sjá án þess að vilja hjálpa,“ segir Inga.

Inga talar í þættinum um það hvernig hún áttaði sig á því eftir að hún byrjaði í stjórnmálum að hún yrði að passa sig, til þess að enda ekki sem neikvæðar fyrirsagnir í fjölmiðlum.

„Það er auðvitað hundleiðinlegt að þurfa alltaf að vera á varðbergi, en ég lærði það fljótt að ef maður leyfir sér of mikið að vera maður sjálfur er líklegt að það sé tekið úr samhengi. Jafnvel eitthvað grín, sem endar svo sem einhver flennistór fyrirsögn úr öllu samhengi. Þannig upplifði ég það fyrst þegar ég fór í stjórnmálin. Núna er ég farin að passa mig, þannig að pólitískir andstæðingar fái ekki tækifæri til að ráðast á mann fyrir eitthvað sem ekkert var. En þegar ég er að vinna að málefnum sem eru ástríða hjá mér, þá segi ég nákvæmlega það sem mér finnst og hvernig mér líður,“ segir Inga, sem segist brenna fyrir ákveðna hluti.

„Þekki fátækt af eigin raun“

„Ég er verkamannsins dóttir og hef engan pólitískan bakgrunn. Ég þekki fátækt af eigin raun, þar sem ég ólst upp á fátæku heimili á Ólafsfirði. Ég get ekki sætt mig við það að við leyfum stórum hópi fólks að búa við sára fátækt í okkar ríka samfélagi. Það svíður sérstaklega að börn þurfi að alast upp við mikla fátækt á Íslandi. Ég brenn fyrir það að útrýma sárri fátækt á Íslandi. Það er stór hópur á Íslandi sem er langt undir því sem við höfum komið okkur saman um að sé eðlilegt framfærsluviðmið. Mér finnst eins og við ættum öll að geta sameinast um að hætta að skattleggja fólk undir 350 þúsund krónum. Eins skil ég ekki af hverju við skerðum bætur hjá eldra fólki og öryrkjum sem vilja og geta unnið að einhverju leyti. Við munum auðvitað aldrei getað komið í veg fyrir að einhverjir misnoti almannatryggingakerfið, en það er ekki eðlilegt að nokkrir svindlarar eyðileggi fyrir fólki í sárri neyð.“

Inga ræðir um ástríðuna fyrir að berjast gegn fátækt og fyrir þá sem minna mega sín. „Ég er með risastórt hjarta og mér líður mjög illa ef öðrum líður illa og tek það inn á mig. Sérstaklega börn og dýr og þeir sem minna mega sín, þá fer ég bara að skæla. Ég held að það komi að einhverju leyti upp frá þeim sorgum sem ég hef gengið í gegnum og ég verð bara meir þegar ég tala um þessa hluti,“ segir Inga.

„Ég missti bróður minn og besta vin þegar hann var bara ungur. Hann og annar ungur maður drukknuðu undan Siglunesinu. Í síðasta skiptið sem ég hitti hann hélt ég á yngsta stráknum mínum og hann bað mig um að skíra hann í höfuðið á sér, en þá var búið að ákveða nafnið á honum og ég var eitthvað að fíflast í honum, en svo var hann bara farinn. Svo skömmu síðar hrapaði mágur minn í fjallgöngu og lét lífið og svo missti ég tengdason minn frá litlu barni og dóttur. Eftir þetta get ég eiginlega ekki einu sinni farið í jarðarfarir. En þessir atburðir eru líklega hluti af því að ég vil berjast fyrir þá sem minna mega sín og glíma við erfiðleika. Ég held að það sé líka mikilvægt að koma vel fram við alla sem á vegi manns verða. Maður veit aldrei hvenær maður er að sjá einhvern í síðasta sinn.“

Hægt er að hlusta á brot úr þætt­in­um á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál