„Ég vona að ég verði endalaust forvitin“

Auður Bjarnadóttir stundar jóga á hverjum degi og kennir sömuleiðis …
Auður Bjarnadóttir stundar jóga á hverjum degi og kennir sömuleiðis fjölda tíma í hverri viku. mbl.is/Árni Sæberg

Auður Bjarnadóttir, eigandi Jógasetursins, hefur stundað jóga í þrjá áratugi og kennt það í 22 ár. Hún heldur sér ungri á bæði líkama og sál með því að stunda jóga daglega. Auður sér fyrir sér að halda áfram að kenna jóga á næstu árum en þó heldur meira í sólinni í útlöndum en hún hefur verið að gera.

Auður var ballettdansari áður en hún kynntist jóganu en hún segir að þegar hún hætti að vera atvinnuballettdansari hafi hún átt erfitt með að átta sig á því hver hún væri og hvert hlutverk hennar væri í lífinu. Þá kynntist hún jóganu og hefur það fylgt henni síðan.

Auður var stödd á Tenerife þegar blaðamaður ræddi við hana í gegnum síma og tók dæmi um hversu mikilvægt það er henni að stunda jóga á hverjum degi. Óvenju kalt var um morguninn og ákvað Auður samt að drífa sig út á strönd, gera jógaæfingar og fara í sjóinn.

„Þegar ég var að klára þetta, af því ég veit af reynslunni hvað þetta er gott fyrir mig, þá hugsaði ég með mér að góður vani skapar lífið. Ég fann það, því ég hljóp ekki til baka. Ég hitaði mig upp innan frá og fór svo í sjóinn,“ segir Auður sem segist finna hversu kitlandi kátar frumurnar eru þegar hún er í sólinni.

Jóga og hugleiðsla eru akkerið

Jóga og hugleiðsla eru akkeri Auðar í lífinu og hefur það verið hennar helsta verkfæri í að takast á við streitu og álag í gegnum árin. Hún segir mikilvægt að setja það í forgang að hreyfa sig á hverjum degi.

„Ég er svo vön að hreyfa mig. Kroppurinn minn veit að það er gott fyrir mig. Þannig að fyrir mig er það ekki svo erfitt að koma því inn í daginn, því ég er búin að lifa með hreyfingu og teygjum, og svo síðar hugleiðslu, svo lengi. Fyrir marga er það mikil áskorun að fara inn í staðfestuna sem fylgir því,“ segir Auður. Lykilinn að því að ná að hreyfa sig á hverjum degi er að finna eitthvað sem manni finnst skemmtilegt að gera.

„Hreyfing hefur rosalega mikil áhrif á bæði líkama og sál. En jóga er náttúrlega miklu meira en hreyfing. Það er þetta heildræna sem heillar mig. Það er þjálfun í gjörhygli um leið og það er það sem er heillandi fyrir mig,“ segir Auður. Hún segir mikilvægt að hlúa að líkama og sál, en að það gleymist oft.

Auður vonast til þess að geta kennt meira í útlöndum …
Auður vonast til þess að geta kennt meira í útlöndum á komandi árum. Ljósmynd/Marina Borau

„Eins og við segjum í jóganu, þetta er musteri sálarinnar. Við pössum upp á að setja olíu á bílinn. En við gleymum að hlúa reglulega að líkama og sál.“

Auður færði sig yfir í grænmetisfæði fyrir mörgum árum síðan. Hún passar upp á að borða mikið af grænmeti, borða hollt og vel.

„Það fylgir þessu, lífsstílnum. Ég bæti við einhverju góðu, ég leyfi mér alveg eitthvað sætt. Ég borða súkkulaði, en þá passa ég að hafa það dökkt. Maður verður að njóta líka,“ segir Auður. Á undanförnum árum hefur hún svo líka tekið hreinsanir og lagt ríka áherslu á að taka inn nóg af olíu.

Gefandi að kenna 60 ára og eldri

Auður kennir jóga í jógasetrinu og kennir þar meðal annars jóga fyrir þau sem eru komin yfir sextugt. Hún segir þá tíma mjög gefandi en í þeim tímum nota þau stóla.

„Við dönsum og við stöndum við stólana. Það fer eftir því hvernig hópurinn er. Það er mjög fjölbreytt og gefandi samfélag. Konurnar hafa líka gaman af því að hittast og stundum er farið út og fengið sér kaffi eftir á,“ segir Auður og bendir á að jóga snúist um tengsl. „Ég við mig og ég við mitt æðra. Það eru tengsl fólks á milli líka. Einmanaleiki er að verða að faraldri. Þannig eru öll tengsl við annað fólk mikilvæg,“ segir Auður.

Blaðamanni leikur forvitni á að vita hver galdurinn sé við að eldast með reisn og þó að Auður upplifi sig unga stendur ekki á svörum hjá henni.

„Að leika sér. Að lifa heilbrigt auðvitað líka, heilbrigð sál í hraustum líkama. Hlúa vel að heilsunni, andlega og líkamlega. En að leika sér og vera skapandi,“ segir Auður.

„Þetta hangir allt saman“

„Stundum horfir maður á eldra fólk. Það er komið eins og hárlakk á persónuleikann. Það er búið að mynda sér skoðanir og viðhorf. Maður veit næstum því hvernig fólk talar og hugsar. Ég vona að ég verði ekki þannig. Ég vona að ég verði endalaust forvitin, endalaust opin og fordómalaus. Það er líka leið til að eldast fallega. Ef ég er stíf í viðhorfum þá er ég stíf í kroppnum. Þetta hangir allt saman,“ segir Auður.

Hún segir mikilvægt að hrista upp í viðhorfum sínum, líta inn á við og skoða hvaðan þessi viðhorf koma og hvort þau þjóni manni enn.

„Hugsanir fólks eru um 60-70% neikvæðar hugsanir og hugurinn virðist oft rúlla þangað. Það er því heimavinna að styrkja jákvætt hugarfar og jákvæðu hugsanirnar.“

Hvenær rann þetta upp fyrir þér?

„Það gerðist þegar ég var komin að vissu þroti. Ég var ballettdansari og ég var föst í þeirri ímynd að ég væri dansari. „Auður er dansari“. Þegar kroppurinn fór að gefa sig þar, þá bara hugsaði ég með mér hver ég væri ef ég væri ekki dansari,“ segir Auður.

Hún segist líka hafa þurft að endurskoða líkamann og þar hafi jógað komið inn. „Þetta var bara algjör heilun. Því það er mjúk nálgun með virðingu. Svo skoðaði ég andlega; hver er ég, hver er Auður ef ég er ekki dansari?“

Hún fór þannig í mikla sjálfsskoðun og „tók til í sálartetrinu“ eins og hún orðar það. „Og ég minni mig á alla daga að ég er ekki hugsanir mínar, ég er ekki tilfinningar mínar og ég er ekki einu sinni sagan mín. Ég er andleg vera að upplifa það mannlega á jörðinni. Það veitir manni æðruleysi. Þetta er kjarninn í jógafræðunum. Að styrkja andlega vitund og þá verður það mannlega miklu auðveldara,“ segir Auður.

Ætlar að kenna meira í sólinni

Nokkur ár eru síðan Auður skildi við eiginmann sinn. Hún segir að það hafi verið allt í lagi að skilja. „Það var langt ferli, það var ekkert þannig áfall. Það var bara ein af þessum brautum sem maður fer,“ segir Auður. Spurð hvort hún hafi átt erfitt með að fóta sig eftir skilnaðinn neitar hún því. „Ég er með svo sterkt félagsnet, á fullt af góðum vinkonum og ég sinni því mjög vel. Ég er að vinna við það sem ég elska. Það er meira að það kemur smá breyting þegar kemur að fjölskyldutengslum. Það breytist auðvitað margt, en við vorum með uppkomin börn. Þannig að það var ekkert dramatískt.“

Hvernig sérðu þig fyrir þér eftir tíu ár? Verður þú enn að kenna jóga?

„Já ég held það, nema kannski meira í sólinni. Ég kenni jóga á hverju ári á Korfú og Krít. Mig langar að gera meira af því og mig langar að kenna meira 60+ í sólinni. Það er gott í sólinni, að mýkja líkama og sál. Ég held áfram að leika og lifa,“ segir Auður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál