Art Deco stíllinn endurvakinn á Borg Restaurant

Borg Restaurant á Hótel Borg var opnaður um helgina eftir miklar endurbætur. Innanhúsarkitektinn Hanna Stína hannaði staðinn og sótti hún innblástur í glamúr fyrri tíma - Art Deco-stílinn sem Hótel Borg er byggð á.

Búið er að koma fyrir bar úti á miðju gólfi og er veggurinn á bak við hann klæddur með marmaraflísum. Fyrir ofan barinn er stærsta ljósakróna á Íslandi, en Hanna Stína hannaði hana og lét sérsmíða inn á staðinn. Gólfið fékk að halda sér í sinni mynd en litirnir á veggjunum eru í Art Deco-anda og á móti eru veggir veggfóðraðir með Art Deco-munstri. Þótt mikið sé lagt í staðinn sjálfan er alveg hægt að mæta þangað á gallabuxum og bol.

Veitingamennirnir Völundur Snær Völundarson og Haukur Víðisson reka staðinn en sá fyrrnefndi heldur um stjórnartaumana í eldhúsinu. „Við erum að stíla inn á einfaldan, góðan, ferskan en bragðmikinn mat,“ segir hann aðspurður en eldhúsið var prufukeyrt um helgina. „Við erum að koma okkur í gang og erum gríðarlega spenntir. Það er sem sagt formlega farið að taka á móti gestum og er opið frá morgni til kvölds.

Hádegisseðillinn er fjölbreyttur en eitt af því sem sker sig úr er fjögurra rétta Bento Box sem er með dálítið suðrænu ívafi. Í boxinu eru fjórir litlir réttir sem gefa góða fyllingu fyrir daginn.

„Ég er mjög hrifinn af fjögurra rétta pælingunni allri. Fólk hefur stuttan tíma í hádeginu og þá er fínt að smella sér inn og fá sér fjóra rétti á einu bretti. Ég vona bara að þetta eigi eftir að leggjast vel í fólk,“ segir Völundur og heldur áfram að brýna hnífana.

Bento Box með fjórum réttum.
Bento Box með fjórum réttum.
mbl.is