Íslenskar konur tapa sér í neysluhyggju

„Þetta er ein birtingarmyndin af þessari leiðinlegu og þreytandi hjarðhegðun …
„Þetta er ein birtingarmyndin af þessari leiðinlegu og þreytandi hjarðhegðun sem einkennir okkur Íslendinga.“ Eva Björk Ægisdóttir

„Við vitum öll að ef eitthvað kemst í tísku á Íslandi þá fer það ekki framhjá neinum. Íslendingar tileinka sér tísku af svo miklum móð að ekki líður á löngu þar til aðdráttarafl hlutarins er orðið að engu. Þá er búið að ofnota trendið svo mikið, hreinlega kæfa það til dauða, að enginn vill sjá eða kannast við það lengur,“ skrifar listfræðingurinn Súsanna Gestsdóttir á bloggvefinn Piparfugl og nefnir í þessu samhengi Kron kron skó, Iittala vörur, Omaggio vasa og stóla frá Arne Jacobsen og Eames. 

„Hversu spennandi er að eiga eitthvað sem ALLIR aðrir eiga? Hversu spennandi eru heimili sem státa af sömu hönnunarklisjunum. Persónulegur stíll snýst um það að tileinka sér eitthvað sem höfðar til einstaklingsins – burtséð frá trendum sem koma og fara,“ skrifar hún á bloggið en með þessu má segja að Súsanna sé að færa orðið á götunni í bundið mál, - íslenskar konur virðast alla tíð hafa farið offari í áhuga sínum á varningi sem á einhverjum tímapunkti nær slíkum vinsældum að „allir“ verða að eignast hann.  

Innantómt og hallærislegt

„Já, þetta er þessi umræða sem er í gangi núna. Sérstaklega eins og með þessa Omaggio vasa sem allir verða að eignast. Nú er til dæms gríðarleg eftirspurn eftir einhverri afmælisútgáfu. Mér skilst að fólk hafi verið búið að stilla sér upp í röð áður en búðir opnuðu til að komast yfir gripinn. Mér finnst þetta bara svo innantómt og hallærislegt,“ segir Súsanna í samtali við blaðamann Smartlands og bætir við að þetta sé alveg úr takti við það sem gerðist eftir hrunið. „Þá átti allt að breytast svo mikið og við áttum að fara að horfa meira inn á við. Þetta er alls ekki í neinu samræmi við það.“

Súsanna segir þessa áráttu ekki stafa af æskilegum hvötum. 

„Þetta fólk er ekki að safna hönnun af því það nýtur hennar sérstaklega og hefur gaman af henni heldur er verið að keppa. Þetta er ein birtingarmyndin af þessari leiðinlegu og þreytandi hjarðhegðun sem einkennir okkur Íslendinga en ég held að hún stafi af því að fólk vill vera "öruugt". Íslenskar konur klæða sig til dæmis oft bara í svört föt af því þær vilja vera öruggar, forðast liti,“ segir Súsanna. 

Hvað á að gera við allt þetta dót?

„Það er þessi samanburður alltaf sem skemmir svo fyrir. Í fámenninu er fólk endalaust að bera sig saman við náungann. Þessi var að fá sér nýjan bíl, nú þarf ég að fara að skipta um bíl og svo framvegis. Dómharkan er líka mikil og af þeim orsökum þorir fólk ekki að skera sig úr fjöldanum af því það er hrætt við að verða dæmt með neikvæðum hætti. Málið er að þetta fer bara í hringi. Ef maður er sjálfur að tala illa um náungann af því hann er svona eða hinsegin, á hitt eða þetta, eða á ekki hitt eða þetta, þá heldur maður auðvitað sjálfkrafa að aðrir hugsi með sama hætti,“ segir Súsanna og nefnir í þessu samhengi lífstílsblogg hverskonar þar sem bloggarar breyta eigin útliti í þágu neysluhyggjunnar og skrifa hverja færsluna á fætur annari um varning hverskonar. 

„Það er þessi fáránlega neysluhyggja sem tröllríður öllu. Allt gengur út á að kaupa, kaupa og kaupa en hvað á að gera við allt þetta dót!?“

Omaggio vasinn frá Kähler.
Omaggio vasinn frá Kähler.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál