LEGO og Adidas hanna fyrir IKEA

Á dögunum sagði Smartland frá því að Ólafur Elíasson, einn þekktasti listamaður heims, myndi hanna ljós fyrir IKEA en samstarfið var kynnt á hönnunardögum fyrirtækisins sem fram fóru á dögunum. Það er ekki bara Ólafur Elíasson sem ætlar að vinna með IKEA því leikfangarisinn LEGO ætlar að vinna með sænska móðurskipinu. 

Samstarfið mun ganga út á að efla leik og sköpun enn frekar á heimilinu. Leikur er mikilvægur þáttur lífsins og getur hann haft gríðarlega jákvæð áhrif. Leikur eflir sköpunargáfuna og gefur börnum jafnt sem fullorðnum færi á að kanna, dreyma og uppgötva. Þess vegna sameina IKEA og LEGO krafta sína og hvetja til meiri leiks. Leikur er auðvitað lykillinn að þroska og nauðsynlegur hluti þess að gera daglegt líf þægilegra. Það er þó munur á því hvernig fullorðnir og börn leika sér. Fullorðnum þykir leikur oft subbulegur eða að honum fylgi óreiða. Hindranir barnanna felast meira í því að fullorðnir reyna að setja þeim reglur sem miklu skemmtilegra er að hunsa og leyfa leiknum að taka stjórnina.

Í viðamikilli rannsókn sem IKEA gerði á leik, the Play Report, kemur fram að þegar börnin voru spurð hvað þau vildu helst þá kusu 47% þeirra meiri leiktíma með foreldri. 90% fullorðinna töldu leik nauðsynlegan vellíðan og heilsu. Í rannsókn sem LEGO framkvæmdi nýlega kemur fram að 95% foreldra töldu leik vera nauðsynlegan þroska barna sinna og að leikur með LEGO-kubba efldi sköpunargáfu barna. En hvers vegna leikum við okkur ekki meira? Markmiðið með samstarfinu er að efla tækifæri til að leika meira. Fyrst á dagskrá er að skipuleggja heimilið með það í huga og gera það að skemmtilegri íverustað.

Lena Dixen, aðstoðarforstjóri LEGO, segir samstarfið skemmtilega áskorun; að finna lausn þannig að börn og fullorðnir geti leikið saman á heimilinu án þess að tapa stílhreinu útliti eða stemningu í því hvernig heimilið er innréttað.

„Við vitum að sköpunargáfa verður veigamikil kunnátta til framtíðar, en við vitum líka að tilraunum, fikti og því að prófa sig áfram getur fylgt svolítill subbuskapur og óreiða. Þess vegna viljum við taka á því í samstarfi okkar með IKEA  – áskoruninni sem sumum foreldrum þykir subbuskapur,“ segir hún. 

IKEA ætlar að kanna með LEGO hvað gerist þegar unnið er saman og reyna að fá fleiri til að vilja leika sér. Fyrstu niðurstöður samstarfsins eru væntanlegar innan tveggja ára í IKEA-verslanir um allan heim. 

IKEA í samstarf við Adidas

Adidas er einnig að hefja samstarf við IKEA sem snýst um að færa íþróttaiðkun inn á heimilið. Hönnuðir IKEA vilja skilja hvað fólk vill og þarfnast þegar líkamsrækt, svefn og næring eru annars vegar. Fyrirtækin tvö ætla að kanna tenginguna milli heimilis og íþrótta og hvernig hægt er að sameina þetta tvennt til að skapa heilsusamlegar venjur. Rannsóknir sýna að venjur verða til heima og þess vegna vill IKEA, í samstarfi við Adidas, kanna hvernig heimili geta stutt betur við virkan lífsstíl. Samstarfið leiðir saman hönnuði frá báðum fyrirtækjum til að skiptast á kunnáttu, innsæi og hugmyndum til að komast að því hvernig má einfalda líkamsrækt á heimilinu. Á fyrsta stigi samstarfsins ætla IKEA og Adidas að verja tíma inni á heimilum fólks í ýmsum löndum og á mismunandi aldri, með sérstaka áherslu á ungar konur. Markmiðið er að gera líkamsrækt og íþróttaiðkun aðgengilega öllum. Vonir standa til að skapa betri heimili, breyta venjum og gera fleirum kleift að lifa virku og gefandi lífi með nægri hreyfingu.

Samstarf IKEA og UNYQ ásamt Area Academy

Þetta samstarf miðar að því að gera líf tölvuleikjaspilara þægilegra og veita þeim sem lifa þessum tölvuleikjalífsstíl meiri athygli.

Það eru um tveir milljarðar manns í heiminum sem spila tölvuleiki og IKEA hefur ekki beint sjónum sínum að þeim hingað til; hvorki varðandi heimilislífið í heild né notagildi sem sniðið er að þessum hópi. Í samstarfi við UNYQ, framúrstefnulegt fyrirtæki sem framleiðir þrívíddarprentaða gervilimi, og vefíþróttafyrirtækið Area Academy, vill IKEA kanna hvernig sérsniðnar lausnir og húsgögn geta breytt spilaraheiminum og lífinu honum tengdu með því að skoða útlit, vinnuvistfræði og hreyfanleika.

Marcus Engman, yfirhönnuður IKEA, segir fyrirtækið forvitið um hvernig húsbúnaður og nýjasta tækni geti bætt aðstöðu spilara og lífsstíl þeirra. Hann segir IKEA hafa fengið einmitt réttu samstarfsaðilana til þess, einn sem þekki allt um þarfir spilara og annan sem þekki tæknina sem þarf til að sérsníða lausnirnar að hverjum og einum. Tölvuleikjaspilun, eða vefíþróttir, er afar vinsæl og nýtur sífellt meiri vinsælda um allan heim. Því fylgja nýjar þarfir og nýjar áskoranir. Þeir sem spila á atvinnumannastigi hafa gert sér grein fyrir að það þarf að stunda heilsusamlegan lífsstíl, nærast vel og hafa réttu tækin en það er svigrúm til að gera betur þegar húsbúnaður eins og borð, stólar og lýsing eru annars vegar.

Með aðstoð atvinnumanna á þessu sviði mun IKEA kanna þá gríðarlegu möguleika sem eru á betri lausnum sem fara betur með líkamann og bæta þannig frammistöðu spilaranna. Niðurstaða samstarfsins verður kynnt árið 2020.

Stefan Diez.
Stefan Diez.

Samstarf IKEA og menningarsamfélagsins Saint Heron snýst um að kanna arkitektúr og innanhússhönnun út frá fjölnota húsbúnaði. Nútímalist er vinsæl og IKEA er forvitið um hönnunartengsl milli arkitektúrs, lista og tónlistar og hvernig hægt er að færa það inn á heimili fólks. Um það snýst samstarfið milli IKEA og Saint Heron. Listakonan Solange Knowles stofnaði Saint Heron árið 2013 og hún er þekkt fyrir að fara óhefðbundnar leiðir í listsköpun sinni. Það verður því spennandi að sjá hver afrakstur samstarfsins verður.

IKEA og Stefan Diez ætla að kanna framtíðina þegar kemur að vinnustöðum og vinnuaðstöðu. Vinnuaðstaða í dag er sveigjanlegri en nokkru sinni og hefðbundið skrifstofuhúsnæði breytist hratt. Til að skapa sem flestum betri vinnuaðstöðu tekur IKEA höndum saman við verðlaunaða iðnaðarhönnuðinn Stefan Diez til að prófa áfram nýjar lausnir við kjöraðstæður í nýsköpunarmiðstöð IKEA í Älmhult í Svíþjóð. Vinnustaðir hafa verið hannaðir í gegnum tíðina með tilliti til þess hvernig má skapa fólki umhverfi til að gera sitt besta. Í sífellt sveigjanlegri, en jafnframt flóknari, heimi verða þarfir einstaklinganna mikilvægari og vaxandi spurn eftir því að vera á ferðinni verður til þess að skrifstofur verða óformlegri. IKEA og Stefan Diez horfa til framtíðar við hönnun vinnuaðstöðu og hvernig við getum aðlagað skrifstofuna að því hvernig manneskjunni er eðlislægt að vinna. Stefan Diez hefur mikla reynslu í að koma upp óhefðbundnum vinnusvæðum fyrir fyrirtæki sem eru sífellt að breytast. Hann notar blöndu af reynslu og tæknilegri þekkingu við vinnu sína. IKEA og Stefan Diez deila líka ástríðu fyrir því að gera fallega hönnun aðgengilega sem flestum. Prófanir hefjast í Älmhult á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál