Íbúðin fór að mígleka eftir afhendingu

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá fólki sem keypti sína fyrstu íbúð en nokkrum dögum eftir afhendingu fór að leka. 

Sæl Heiðrún,

Fyrir stuttu keypti ég mér mína fyrstu íbúð. Ég og kærastinn minn vorum mjög ánægð með að fá samþykkt tilboðið okkar í fasteignina því það voru margir að keppast um hana. Nokkrum dögum eftir að við fengum afhent byrjaði að mígleka úr loftinu inni í þvottahúsi. Við hringdum strax í tryggingafélagið okkar sem sendi mann á staðinn. Niðurstaðan var sú að vatnslögn hafði gefið sig. Tjónið er talsvert og raskið vegna viðgerðarinnar ennþá meira, við þurftum meira að segja að flytja út úr íbúðinni í nokkra daga. Þetta gerðist mjög stuttu eftir að við fengum eignina afhenta. Eiga fyrri eigendur ekki að bera ábyrgð á þessu?

Kveðja, K

Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður.
Heiðrún Björk Gísladóttir lögmaður. Valgarður Gíslason

Sæl og takk fyrir spurninguna,

Almenna reglan við fasteignakaup er sú að við afhendingu fasteignar færist öll ábyrgð vegna hennar af seljanda yfir á kaupanda. Þá verða svokölluð áhættuskipti á fasteigninni. Kaupandi fasteignar getur því almennt ekki sleppt því að borga seljanda kaupverð fasteignar, eða hluta þess, vegna atburða sem verða eftir að fasteignin hefur verið afhent. Þetta á ekki við um atriði sem kaupandi verður var við strax við afhendingu og má ætla að hafi verið til staðar, og seljandi hafi vitað um, þegar tilboð var gert í fasteignina.  Miðað við þína lýsingu myndi ég því telja að það tjón sem varð sé á ykkar ábyrgð.

Ég geri ráð fyrir að sú íbúð sem þið festuð kaup á sé í fjölbýlishúsi. Þar ætti því að vera starfandi húsfélag. Algengt er að húsfélög sjái um að tryggja fasteignir í fjöleignarhúsum húseigendatryggingu. Slík trygging ætti að bæta tjón sem verður af þeim atburðum sem þú lýsir. Þið gerðuð því rétt með því að hafa strax samband við tryggingafélagið.

Það eru þó til undantekningar á þessu. Segjum sem svo að húsfélagið hefði átt að vera búið að huga að því að skipta út lögnum í húsinu, þær séu komnar verulega til ára sinna. Þá getur komið til þess að húsfélagið beri skaðabótaábyrgð á vanrækslu sinni, gagnvart ykkur, samkvæmt fjöleignarhúsalögum.

Til að draga þetta saman þá er staðan almennt sú að kaupandi fasteignar ber ábyrgð á öllu því sem viðkemur fasteigninni frá afhendingardegi hennar. Undantekningar geta verið á þessari meginreglu þannig að ef um er að ræða atriði sem seljandi fasteignarinnar mátti vita um fyrir kaupin, húseignin er tryggð fyrir þessum atburði eða hreinlega að húsfélag beri skaðabótaábyrgð gagnvart eiganda fasteignar vegna vanrækslu. Sé eitthvað af framangreindu raunin er ekki eðlilegt að þið berið tjónið ein. 

Það fer því algjörlega eftir aðstæðum hvort að þú sem kaupandi fasteignarinnar berir sjálfur alla ábyrgð á því tjóni sem nú hefur orðið.

Gangi þér vel.

Kær kveðja, 

Heiðrún Björk Gísladóttir

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Heiðrúnu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál