Hvíta jólatréð lifir enn góðu lífi

Hödd Vilhjálmsdóttir er komin í jólaskap.
Hödd Vilhjálmsdóttir er komin í jólaskap. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Hödd Vilhjálmsdóttir lögfræðingur og almannatengill á afmæli 21. desember og því eru jólin svolítið hennar tími þótt hún vilji ekki kannast við það að vera mesta jólabarn í heimi. 

Þegar ljósmyndara bar að garði var búið að skreyta hátt og lágt heima hjá Hödd og dætrum hennar tveimur á þeirra fallega heimili í Reykjavík. Hödd segist alltaf vera að reyna að hafa jólaundirbúninginn stresslausan og einfaldan en það takist kannski ekki alveg alltaf.

– Ertu mikið jólabarn?

„Andlitið á mér væri nú líklega ekki undir orðinu jólabarn í orðabók en ég er alls enginn Grinch heldur. Ég hef gaman af jólunum og mér þykir desember alltaf nokkuð skemmtilegur mánuður. Mér finnst jólahátíðin sjálf krúttleg og er yfirleitt afskaplega væmin yfir hátíðina og knúsa fólkið mitt vel og mikið,“ segir Hödd.

– Hvað kemur þér í jólaskap?

„Jólaskraut, jólalög og Baggalútstónleikar. Svo er yndislegt að fylgjast með spennunni hjá stelpunum þegar þær opna dagatölin á morgnana en súkkulaði í morgunmat er víst eitthvað sem má í desember. Eins veit maður að sveinki er mættur til byggða þegar sú yngri fer að rífa mann upp á bossanum um sexleytið á morgnana. Þetta er allt skemmtilegt og ekki má gleyma snjónum en það er fátt hátíðlegra en hvít jól. Svo er alltaf eitthvað við það þegar maður kveikir á útvarpinu og heyrir klukkurnar hringja klukkan sex á aðfangdag,“ segir hún.

– Hvernig skreytirðu fyrir jólin?

„Ég keypti jólatré fyrir 12 árum sem er risavaxið og hvítt. Er alltaf að reyna að selja stelpunum mínum hugmyndina að hafa lifandi grænt tré en það hefur gengið brösuglega. Við höfum verið með mjög litríkt skraut á þessum tólf árum en fórum milliveginn í ár, þær héldu trénu og við fengum okkur aðeins dempaðra skraut,“ segir hún.

Þegar kemur að því að leggja á borð fyrir aðfangadag segist Hödd vera mikið fyrir filt, kopar og vínrautt. Borðið í ár ber þess merki.

„Ætli það sé ekki bara svolítið rómantískt þema í ár,“ segir hún.

– Hvaðan kemur stellið?

„Stellið er frá Broste og keypt í Húsgagnahöllinni. Hef alltaf verið með hvítt stell um jól en ákvað að gæja aðeins rómantíkina á skreytingunum upp með dökku stelli.“

– Hvað finnst þér skipta máli þegar lagt er á borð?

„Að mér og mínum þyki það fallegt og það fari vel um alla við borðið. Svo er auðvitað þrælmikill kostur að maturinn sem lagður er á borðið sé ætur og eldaður í rólegheitum en ekki einhverju stressi. Ég lærði líka af ágætum manni að maður á alltaf að vera með tauservíettur. Ég er nú kannski ekki sú hlýðnasta, en þessu hlýði ég.“

– Hvernig er heimilissmekkur þinn og endurspeglar hann jólaskreytingar?

„Heimilissmekkurinn minn einkennist af svörtum, gráum, svarbrúnum og hvítum tónum. Ég er samt eitthvað að mýkjast og það dettur inn einn og einn hlutur í lit, síðast bleik motta sem sómir sér mjög vel í stofunni. Jólaskrautið í ár tekur mið af þessari auknu mýkt í litavali. Kannski enda ég bara í bleikum síðkjól, með perlufesti um hálsinn og fléttur í hárinu á aðfangadag. Hver veit.“

– Hvenær byrjar þú yfirleitt að skreyta?

„Í lok nóvember, byrjun desember. Ég gerði samt þau hrikalegu mistök að setja pakkana mjög snemma undir tréð fyrir nokkrum árum. Það var alls ekki sterkur leikur því litla stelpan mín átti mjög erfitt með þetta og skildi ekkert að hún fengi ekki að opna pakkana strax. Það er skemmst frá því að segja að ég fjarlægði pakkana og mun aldrei gera þessi mistök aftur. Svo lengi lærir sem lifir.“

Ertu með sérstakt þema á hverju ári eða notarðu sama skrautið aftur og aftur?

„Þemað var alltaf mjög litríkt amerískt jólaskraut frá Department 56 en í ár er það gullið og koparinn sem er mest áberandi. Henti mér einn daginn í Húsgagnahöllina eftir að ná að semja við stelpurnar um að geyma litríku snjókallana og jólasveinana aðeins. Var með lítinn hjálparkokk með mér og þótt það hafi ekki verið planið enduðu nú nokkrar dökkbláar jólastjörnur á trénu okkar. Það verða allir að vera sáttir og skrautið vekur lukku hjá okkur stelpunum.“

- Hvernig hugsar þú um þig í desember?

„Ég reyni að vera dugleg að hreyfa mig og stressa mig ekki að óþörfu vegna jólanna. Það er nú einu sinni þannig að þau koma alltaf og ef maður endar á náttbuxunum þá er það bara allt í lagi. Ég legg upp úr því að njóta og á einmitt fallega minningu þar sem mamma var lasin og við tvær og bróðir minn tókum ákvörðun um að vera bara á náttfötunum. Þau jól voru yndisleg, stresslaus og minnisstæð.“

– Hvað langar þig í í jólagjöf?

„Ég veit að þetta hljómar eins og klisja en mig langar að vakna glöð í faðmi stelpnanna minna og að við eigum æðislegan dag og ljúft aðfangadagskvöld. Ég á aftur á móti afmæli 21. desember og þá er ég alveg til í tösku, utanlandsferð, konfekt, spa-dag, buxur, skó, kjól, skyrtu, kápu, hálsmen og heimsfrið. Maður biður ekki um mikið,“ segir hún og hlær.

mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Stellið er frá Broste og fæst í Húsgagnahöllinni.
Stellið er frá Broste og fæst í Húsgagnahöllinni. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »