Ekki gera þessi mistök í hjónaberberginu

Gunna Stella heldur úti vefnum einfaldaralif.is.
Gunna Stella heldur úti vefnum einfaldaralif.is.

„Þegar ég gisti á hóteli þá upplifi ég oftar en ekki mikla ró inni í herberginu sjálfu. Það skiptir ekki máli hvernig hönnunin eða litirnir eru heldur felst róin í því að hafa ekki of mikið magn af hlutum í rýminu. Hver hlutur á sinn stað og það er ekki óþarflega mikið af skrautmunum,“ segir Gunna Stella heilsumarkþjálfi og eigandi vefjarins einfaldaralif.is í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Það vill oft vera þannig að hjónaherbergið er sá hluti heimilisins sem minnst áhersla er lögð á. Þetta herbergi er oft innst á ganginum eða eins og í okkar tilfelli á efri hæðinni. Það eru ekki mjög miklar líkur á að gestir og gangandi sjái það og því er kannski ekki lögð eins mikil áhersla á að herbergið sé í jafn góðu ásigkomulagi og t.d. stofan eða sameiginleg rými. Svefnherbergið er stundum herbergi sem safnar alls kyns drasli. Þvottahrúgunni er hent þangað inn og sumir nota þetta herbergi til þess að gera svokallaða forsetahreingerningu þegar von er á gestum.

Svefnherbergið er herbergið sem þú ferð inn í til að hvíla þig. Þetta er herbergið sem þú tengist maka þínum í (ef þú átt maka) og þetta er herbergi sem á að vera þinn griðastaður.

Á rafræna námskeiðinu mínu Einfaldara líf - Betra líf mæli ég með því að taka þetta herbergi fyrst í gegn af öllum herbergjum í húsinu. Ástæðan er einföld. Ef þú upplifir herbergið þitt sem griðastað þá eru mun meiri líkur á því að þú sofir vel og hafir orku í að einfalda hin herbergi hússins.

Það er eitthvað svo yndislegt að koma inn í notalegt herbergi að kvöldi til. Herbergi sem gefur þér hugarró og frið. Eftir að við fórum að einfalda okkar heimili þá áttaði ég mig á því að ég kann mjög vel við að koma inn í herbergi sem hefur að geyma eins lítið af húsgögnum og herbergið kemst upp með auk einstakra fallegra skrautmuna. Í herberginu okkar er hjónarúm með gafli, tvö náttborð og fataskápur með speglahurðum. Það hafa verið tímar þar sem herbergið okkar var yfirfullt af alls kyns dóti sem ekki átti heima þar. En í dag er herbergið okkar þessi ljúfi griðastaður flesta daga vikunnar.

Ég hef heyrt hjá þátttakendum á námskeiðum mínum og hjá markþegum mínum að þeir þrá að einfalda herbergið sitt. Ég veit að þetta á ekki einungis við fólk sem ég hef kynnst og ég geri ráð fyrir að það séu mun fleiri einstaklingar úti í hinum stóra heimi sem upplifa þessa tilfinningu gagnvart herberginu sínu.

Ert þú á ein/n af þeim sem vilt einfalda herbergið þitt? 

Á heimasíðunni minni getur þú nálgast myndbandskennslu sem útskýrir betur hvaða skref þú getur tekið til að einfalda þitt herbergi. Þessi kennsla er hluti af námskeiðinu mínu Einfaldara líf - Betra líf og mun vera aðgengileg þér að kostnaðarlausu tímabundið. 

Ég hvet þig til þess að taka skref í átt að einfaldara svefnherbergi. Það hefur marga góða kosti í för með sér. Meiri tíma, meiri nánd og fleiri gæðastundir. 

Gangi þér vel að EINFALDA!

mbl.is