Fimm skref í átt að einfaldari þvottarútínu!

Gunna Stella, heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari.
Gunna Stella, heilsumarkþjálfi, kennari og fyrirlesari.

„Stundum líður mér eins og þvotturinn vaxi í þvottakörfunni. Ég hef oft pirrað mig á þvottinum sem fylgir stóru heimili. Reyndar var ég pirruð yfir þvottinum áður en við eignuðumst svona mörg börn. Mér fannst þvotturinn vera endalaus (sama hvað við vorum mörg). Fyrir ári lærði ég nýja aðferð sem hefur gert það að verkum að mér finnst ég ekki lengur vera að drukkna í þvotti,“ segir Gunna Stella heilsumarkþjálfi í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Við búum í tveggja hæða húsi og eru herbergin á efri hæðinni og þvottahúsið á þeirri neðri. Ég er með þvottakörfu á efri hæðinni fyrir óhreinan þvott og nú hafa allir lært að setja sinn óhreina þvott þangað, nema unglingarnir á heimilinu sem eru með sína eigin þvottakörfu og sjá sjálfir um að þvo sinn þvott. Körfuna fer ég með niður að morgni dags og skelli þvottinum í þvottavélina. Yfirleitt er þvotturinn þannig að þá má blanda honum saman nema það sé eitthvað alveg sérstakt. Ég þvæ hins vegar föt sér og handklæði og tuskur sér. Fötin set ég í þvottavélina á prógramm sem tekur 45 mínútur þannig að á meðan börnin borða morgunmat sér vinnukonan (þvottavélin) um að þvo þvottinn og þegar hún er búin hengi ég þvottinn upp. Þvotturinn þornar svo yfir daginn og tek ég hann niður að kvöldi (eða þegar hann er þurr) og brýt hann saman. Stundum er það hluti af verkefnalista barnanna að brjóta þvottinn saman. Sá næstyngsti sem er 6 ára hefur sérstaklega gott lag á því að brjóta saman þvott sem er afar skemmtilegt að sjá. Mér finnst mjög gott að flokka þvottinn í bunka sem tilheyrir hverjum og einum fjölskyldumeðlim þannig að hver og einn geti gengið frá sínum fötum að morgni næsta dags.

Tuskur og handklæði og set ég í þvottavélina (ef þarf) þegar ég er búin að taka fötin úr henni og set það svo í þurrkarann þegar það er búið (ef ég er heima) annars má það alveg bíða þangað til ég kem heim.

Þegar við höfum farið í ferðalög eða ég hef þurft að fara í burtu í einhvern tíma þá auðvitað fer rútínan úr lagi en ég er fljót að vinna hana upp aftur. Þetta hefur gert það að verkum að þvottakarfan er oftast tóm í þvottahúsinu og mömmunni líður betur.   

Fimm skref í átt að einfaldari þvottarútínu:

  1. Allir fjölskyldumeðlimir setja óhrein föt í körfu.
  2. Óhreinn þvottur settur í þvottavélina að morgni.
  3. Hengt upp úr vélinni áður en farið er að heiman að morgni dags.
  4. Brotið saman og sett í bunka fyrir hvern fjölskyldumeðlim að kvöldi.
  5. Allir ganga frá sínum bunka að morgni næsta dags.

 

Vekjaraklukkuaðferðin

Til að koma upp nýrri rútínu finnst mér gott að nota vekjaraklukkuaðferðina. Þegar ég var að koma mér upp þessari nýju þvottarútínu þá stillti ég klukkuna kl. 07:00 og lét vekjaraklukkuna heita „Þvottur“. Síminn minnti mig því á þvottinn daglega í langan tíma þangað til þetta varð að vana. Þessa aðferð nota ég fyrir mjög margt og í hvert sinn sem ég er að tileinka mér nýjan vana.

Gangi þér vel að þvo!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál