Birna hjá Icelandair og Kristinn hyggjast flytja

Birna Ósk Einarsdóttir framkvæmdastjóri sölu- og þjónustusviðs Icelandair og Kristinn Ingvarsson framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar hafa sett raðhúsið sitt við Nesbala 12 á sölu.

Húsið er afar fallega innréttað en hjónin festu kaup á því 2012. Síðan þá hefur ýmislegt verið lagað og tekið í gegn. Um er að ræða 247 fm raðhús byggt 1973. 

Á neðri hæðinni er til dæmis afar vandað og fallegt eldhús sem teiknað var af Berglindi Berndsen innanhússarkitekt. Innréttingin sjálf er úr eik og er hnausþykk marmaraborðplata á eyjunni. Í innréttingu er stór og myndarlegur tækjaskápur en ein mesta snilldin í eldhúsinu er innbyggð vifta í helluborði sem leysir margan vanda og þá aðallega sjónmengun því hangandi háfar úr lofti eru sjaldan heimilisprýði. Hægt er að labba út í garð beint úr eldhúsinu. 

Í forstofunni er ekki hefðbundinn fataskápur heldur væri nær lagi að kalla geymsluna fataherbergi. Þar er líka bekkur til að tylla sér og stór spegill. 

Á efri hæðinni er stór stofa og sjónvarpsherbergi, baðherbergi, hjónaherbergi og tvö barnaherbergi. 

Af fasteignavef mbl.is: Nesbali 12

mbl.is