Lifir drauminn í Lundúnum

Sif Ágústsdóttir hefur búið erlendis lengi. Hún er listræn og …
Sif Ágústsdóttir hefur búið erlendis lengi. Hún er listræn og gerir meðal annars sitt eigið leirtau.

Sif Ágústsdóttir hefur starfað sem fyrirsæta á erlendri grundu frá 15 ára aldri. 17 ára flutti hún til Lundúna og er þar enn. Í dag starfar hún sem innanhússhönnuður og lifir nú drauminn að hanna heimili, hótel og verslanir fyrir viðskiptavini sína í London og víðar. 

Sif Ágústsdóttir býr með manni sínum Christopher Gove og dóttur þeirra í stílhreinni íbúð í London. Bæði starfa þau á sviði hönnunar. Sif er innanhússhönnuður og Gove er fatahönnuður og eigandi Percival í London.

Sif sem er fædd og uppalin í Vestmannaeyjum, flutti ung að aldri til Bretlands til að freista gæfunnar sem fyrirsæta á erlendri grundu.

Allt frá upphafi hefur verið nóg að gera hjá henni þó hún merki síðustu árin sín í vinnu sem mest spennandi.

„Þessi ár hafa verið skemmtileg og krefjandi. Ég hef starfað sem fyrirsæta frá fimmtán ára að aldri. Árið 2005 var ég sautján ára og ákvað þá að flytja frá litlu eyjunni minni alla leið til London. Í upphafi ætlaði ég að skreppa í einn mánuð að reyna fyrir mér sem fyrirsæta úti í hinum stóra heimi. Núna sextán árum seinna er ég hér ennþá. Í raun á ég erfitt með að trúa því að ég hafi lifað hálfa ævina hér í Lundúnaborg! Tíminn er svo fljótur að líða.“

Sif er og verður alltaf Íslendingur þó hún eigi erfitt með að sjá fyrir sér að búa á Íslandi aftur.

„Ég mun alltaf sakna náttúrunnar á Íslandi og fjölskyldunnar. Svo á ég góða vini á Íslandi. Ég sakna einnig íslenska lakkríssins og að drekka malt og appelsín. Svo ekki sé minnst á harðfiskinn, bland í poka og íslensku sundlaugarnar. Það er engin sundmenning hér!“

Fallegt píanó sem tekið er eftir.
Fallegt píanó sem tekið er eftir.

Átti erfitt með að taka fyrirsætustörfin alvarlega

Hvernig er þín upplifun af því að starfa sem fyrirsæta og hvers vegna ákvaðstu að læra innanhússhönnun?

„Þó að fyrirsætustörfin hafi oft verið skemmtileg og gefið mér svo margt sem ég myndi aldrei vilja breyta eða skipta út, þá hef ég alltaf átt erfitt með að taka það starf alvarlega. Eins hefur það aldrei fullnægt sköpunarþörf minni að starfa sem fyrirsæta. Í sannleika sagt þá hálföfundaði ég oft fólkið hinum megin við myndavélina og langaði oft að gera eitthvað meira en að stilla mér upp.

Frá því ég man eftir mér hef ég haft gaman af öllu því sem er skapandi. Hvort heldur sem er skartgripagerð, leir, smíði eða teikning í grunnskóla. Innra með mér vissi ég alltaf að mig langaði að fara í meira listnám.

Svo kemur náttúrlega sá tími í starfi sem snýst svona mikið um útlitið að maður þarf þá kannski að hugsa um plan B. Enginn er víst ungur að eilífu.“

Innanhússhönnun lá vel við enda hefur Sif lesið sig í gegnum allskonar hönnunarblöð og bæklinga í gegnum árin og fundið sig gleyma stað og stund í áhuga á öllu fallegu er tengist heimilinu.

„Mig langaði í meira nám og hallaðist að innanhússhönnun. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á innanhússhönnun og stíl. Ég man eftir sjálfri mér um níu eða tíu ára með IKEA-bæklinga á náttborðinu. Ég skoðaði þá aftur og aftur og mig dreymdi um að geta átt svona ótrúlega vel stíliserað og fínt heimili sjálf. Sem er mjög fyndið í dag að hugsa því þó Ikea bjóði upp á gott úrval þá sæki ég ekki innblástur þangað í dag.“

Barnaherbergið er fallegt og stílhreint.
Barnaherbergið er fallegt og stílhreint.

Eignaðist stúlku vorið 2018

Sif útskrifaðist frá KLC School of Design í innanhússhönnun árið 2015 og hefur síðan þá verið sjálfstætt starfandi hönnuður. Hún hefur einnig unnið í teymi með fleiri hönnuðum að áhugaverðum verkefnum.

Vorið 2018 eignaðist Sif fyrsta barnið sitt, dótturina Freyju Sifjardóttur Gove.

„Nú er ég aftur byrjuð að starfa í fullu starfi og er ég að hugleiða þann valmöguleika að fara í fullt starf á stofu.

Ástæðan fyrir því er sú að mig langar að taka að mér enn stærri verkefni og vinna í teymi með fleira fagfólki. Þannig að læra meira og að vaxa í starfi.“

Sif er nýhætt að starfa sem fyrirsæta og var það hennar ákvörðun að fara á milli starfsgreina.

„Mig langaði að setja allan minn fókus á draumastarfið og leyfa mér að vaxa og einbeita mér algjörlega að því.

Það er fátt betra og meira gefandi að mínu mati en að klára verkefni og gleðja viðskiptavinina, hvort sem það er að hanna heimili, verslanir, hótel eða eitthvað annað.“

Sif er vinsæll innanhússhönnuður um þessar mundir.
Sif er vinsæll innanhússhönnuður um þessar mundir.

Með náttúrulegan og hráan stíl

Fær maður ekki góða tilfinningu fyrir tísku og hönnun eftir að hafa starfað sem fyrirsæta líkt og þú hefur gert?

„Jú, ég trúi að það sé alfarið sterk tenging á milli tísku og hönnunar.

Að hafa starfað víðsvegar um heiminn í kringum falleg föt og skapandi fólk hefur ekki hindrað mig þó ég sé nokkuð viss um að ég sé skapandi manneskja í grunninn.“

Hvað getur þú sagt okkur um þinn persónulega stíl og hvernig eru verkefnin sem þú ert að vinna að núna?

„Minn persónulegi stíll er fekar náttúrulegur og hrár. Ég er mikið fyrir smáatriði og þykir mér alltaf mikilvægara að gera grunnhlutina vel og vandaða heldur en að fylla allt af smáhlutum eða dóti. Ég elska að sérhanna húsgögn og innréttingar og er einnig mikið fyrir falleg efni. Mér þykir mjög gaman að finna eitthvað sem ekki allir eiga og blanda saman nýju og gömlu. Það getur hver sem er farið á Pinterest og fundið eitthvað fallegt þar og hermt eftir því. Það fer hins vegar mikil hugsun í að hanna eitthvað sérsniðið og virkilega einstakt. Innanhússhönnun snýst fyrst og fremst um viðskiptavininn og þarfir hans þó að þitt auga og stíll leiði hann að lokum að þinni hönnunarlausn. Ég hef hannað búðir, heimili og hótel og núna er ég að hanna mína fyrstu skrifstofu sem hefur verið mjög skemmtilegt. Við munum klára það verkefni núna í júní.“

Sif er með stílhreinan og einfaldan smekk.
Sif er með stílhreinan og einfaldan smekk.

Hvernig lýsir þú fatastílnum þínum?

„Fatastíllinn minn er frekar þægilegur og afslappaður með smá 70's og 80's ívafi. Ég elska góða boli og skyrtur, fallegar „vintage“ gallabuxur með „vintage“ gullskartgripum og Converse eða öðrum strigaskóm.

Ég man ekki síðasta skipti sem ég var í kjól eða háum hælum. Þó það sé alltaf gaman að klæða sig upp á þá geri ég það allt of sjaldan þessa dagana. Sérstaklega þegar maður á lítið barn sem klínir annaðhvort mat, mold eða hori í allt.

Síðustu árin hef ég reynt að kaupa færra en betra. Ekki endilega hönnunarvörur heldur betri efni, frá smærri fyrirtækjum. Ég er mikið fyrir náttúrulega og vistvæna hluti.“

Heimilið er einstaklega fallegt og stílhreint.
Heimilið er einstaklega fallegt og stílhreint.

Gerir sitt eigið leirtau

Er eitthvað sem heillar þig sérstaklega við breskan hönnunarstíl fyrir heimilið og hvað með íslensku ræturnar – hafa þær áhrif?

„Breskur hönnunarstíll hefur með ákveðna hefð að gera. Sér í lagi þegar kemur að „antique“ og sveitastílnum sem getur verið mjög fallegur. Ég hef lært mikið um hefðbundin efni og meðferð þeirra og einnig forn húsgögn sem ég hef alltaf haft áhuga á og notað í verkefnum. Ég held að ómeðvitað hafi Ísland eða íslensk náttúra mikil áhrif og gefi innblástur í vinnuna mína þar sem ég dregst að náttúrulegum, hráum efnum og litum. Ég er hrifin af sem dæmi ull, kindaskinni, lérefti, leir og náttúrulegum við.“

Sif á sér einnig áhugamál sem hún sinnir í frístundum sínum.

„Ég fer á japanskt leirnámskeið á laugardögum. Það er mjög skemmtilegt og afslappandi. Að auki fæ ég að taka diskana og skálarnar með mér heim og við notum það sem ég geri á hverjum degi sem er ákaflega skemmtilegt og praktískt.“

Falleg hurð gerir mikið fyrir innganginn.
Falleg hurð gerir mikið fyrir innganginn.

Maður getur verið sinn versti óvinur

Hvernig hugar þú að heilsunni þinni daglega?

„Ég reyni að æfa mig allavega þrisvar í viku eða svo. Stundum minna og stundum meira. Ég borða alfarið hollan og fjölbreyttan mat þó ég leyfi mér alveg ýmislegt líka.

Ég hef aldrei þurft að vera með of miklar áhyggjur af þyngd eða mataræði. Sem betur fer því ég elska mat!

Líkaminn breytist og meltingarkerfið líka eftir barnsburð en ég reyni að líta á það sem eðlilegan hlut en ekki eitthvað sem er slæmt.“

Áttu gott ráð fyrir þá sem langar að skipta um feril á lífsleiðinni?

„Já ekki vera fyrir sjálfri þér eða sjálfum þér.

Maður getur verið sinn eigin versti andstæðingur. Það getur verið erfitt að finna kjark og taka stökkið en ég trúi því að ef það er eitthvað sem þig virkilega dreymir um að gera þá er það algjörlega í þínum höndum að láta verða af því. Það byrjar enginn fullkominn í neinu.“

Falleg íbúð sem Sif hannaði.
Falleg íbúð sem Sif hannaði.
Það er ekki sama hvernig hlutunum er raðað upp.
Það er ekki sama hvernig hlutunum er raðað upp.
Huggulegur bambus í stíl við við.
Huggulegur bambus í stíl við við.
Skartgripaverslun sem Sif hannaði á dögunum.
Skartgripaverslun sem Sif hannaði á dögunum.
Einfalt og smekklegt í hennar anda.
Einfalt og smekklegt í hennar anda.
Ljós í bland við rómantískan lit.
Ljós í bland við rómantískan lit.
Blóm geta gert kraftaverk.
Blóm geta gert kraftaverk.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál