Mikil vinna að pússa niður hraunveggina sem einu sinni voru móðins

Breytingarnar koma vel út.
Breytingarnar koma vel út. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir

Svala Jónsdóttir innanhússarkitekt FHI endurhannaði nýverið íbúð á 7. hæð í Kópavogi með útsýni til allra átta. Eigendurnir vildu gera íbúðina að sinni og lögðu upp með tímalaust efnisval.

Íbúðin er 214 fermetrar á efstu hæð í blokk sem var byggð árið 2001. Svala segir að hún hafi verið fengin til að uppfæra og hanna nýtt útlit íbúðarinnar þar sem margt var komið á tíma. „Ég þurfti að vinna með eldra gólfefni á alrýminu og eldhúsinu sem var áskorun af því að það er áberandi mikil hreyfing í því. Við opnuðum meira á milli eldhúss og stofu þar sem aðeins lítið op var á milli þessara tveggja rýma. Skipulag á eldhúsinu var einnig ekki í takt við það sem við vorum að reyna að ná fram þannig að við gjörbreyttum því og settum eyju,“ segir Svala um breytingarnar.

Hið nýja bjarta og stóra rými nýtur sín vel með einföldum og tímalausum innréttingum. Svansvottaðir grunnskápar frá IKEA urðu fyrir valinu og framhliðar frá íslenska merkinu HAF STORE. Til að fullkomna einfaldleikann er sami litur á veggjum og á framhliðinni. „Steinninn er harður kvarts-steinn sem þolir allt og er frá S. Helgasyni sem gefur smá mótvægi við litinn á framhliðunum og veggjum,“ segir Svala.

Svala Jónsdóttir innanhússarkitekt FHI.
Svala Jónsdóttir innanhússarkitekt FHI. Ljósmynd/Þorkatla Sif Albertsdóttir

„Alrýmið er bjart með mikið af gluggum og því notuðum við ljósa tóna á veggi. Húsgögnin eru í dekkri kantinum á móti ljósum tónum. Innihurðir og eldhúsinnrétting eru í sama lit sem ég geri oft til þess að vera ekki með of mikið af mismunandi efnum og litum. Mér finnst oft ferlega leiðinlegt að sjá hvítar hurðir á máluðum veggjum, ég vil frekar hafa innihurðir í sama lit og veggi og velja hurðarhúna sem standa þá út og eru flottir.“

Svala gerði fleiri skipulagsbreytingar en einu herbergi var fórnað fyrir fataherbergi sem er nú beintengt við hjónaherbergi. „Við settum teppi á þau rými sem ég hika ekki við að gera ef ég hef möguleikann á því.“

Stemningin í íbúðinni breyttist þegar opnað var inn í stofu.
Stemningin í íbúðinni breyttist þegar opnað var inn í stofu. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir

Spa-stemning á baðinu

„Baðherbergin í íbúðinni eru tvö og þau voru einnig tekin alveg í gegn með því að taka flísar af veggjum og gólfi, bæta við sturtu á minna baðherbergið. Við settum innbyggðan infrarauðan klefa á stærra baðherbergið, sem var ósk eigenda. Það kom mjög vel út og býr til smá spa-stemningu sem er aldrei slæmt,“ segir Svala en klefinn kemur einstaklega fallega út.

Ljósar flísar koma vel út á gluggalausu baðherberginu.
Ljósar flísar koma vel út á gluggalausu baðherberginu. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir

„Á baðherbergjum vorum við að leita eftir rólegri stemningu og þar sem þetta eru gluggalítil og gluggalaus rými vel ég oftast ljósar flísar og vanda mig sérstaklega vel við lýsinguna. Það kom ekkert annað til greina en að nota hlýjan viðartón í innréttingar inni á baði og fallega sérsmíðaða vaska úr kvarts-steini frá S. Helgasyni, klassískt og einfalt í þrifum. Á stærra baðinu felldi ég speglaskáp inn í vegg svo hann væri í flútti við flísar og lýsing í kringum hann.“

Vaskarnir eru sérsmíðaðir.
Vaskarnir eru sérsmíðaðir. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir

Pússuðu niður hraunið

„Það sem var einnig mikil áskorun og mikil vinna lögð í voru loftin en þau voru öll með hraunáferð sem var í tísku á þessum tíma. Ég vona að sú tíska komi ekki aftur en það er svakaleg vinna að losna við þetta. Rúmlega 200 fermetrar voru pússaðir niður þar sem loftin eru steypt og ekki mikil lofthæð. Við vildum því ekki missa einhverja sentímetra af lofthæðinni og var þetta niðurstaðan sem eigendurnir sáu alls ekki eftir. Ég valdi að nota hvítar kastarabrautir og kastara í loftin þar sem þau eiga mikið af listaverkum og svo eru kastarabrautir sem til eru í dag mjög stílhreinar og auðvelt að stjórna lýsingunni.“

Er eitthvað sem tókst sérstaklega vel í íbúðinni?

„Já, eldhúsið tókst mjög vel því mikil breyting var á íbúðinni með því að opna á milli eldhúss og stofu. Einnig fannst mér hafa heppnast vel að koma fyrir infrarauðum klefa inn á baðherbergið með því að fara í smá æfingar en oft eru þessir klefar ekkert smart svona inni á baðherbergjum.“

Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir

Rými hafa áhrif á sjálfsmynd okkar

Finnur þú fyrir því að fólk hugsi í auknum mæli um umhverfið þegar kemur að hönnun?

„Já, hiklaust. Það eru alltaf fleiri sem vilja velja umhverfisvænni kosti og það er eitthvað sem ég reyni að standa fyrir í minni hönnun. Ég tel það vera mitt hlutverk að upplýsa fólk um hvað það er að kaupa og hvaðan það kemur. Við verðum að vera meira meðvituð um þetta og gera betur á öllum sviðum. Það var ástæða þess að ég stofnaði Vistbók ásamt Rósu Dögg Þorsteinsdóttir og Berglindi Ómarsdóttur, það er okkar framlag til vistvænni byggingarhátta og vonum við að það verði einfaldara fyrir húseigendur að velja vistvænni efni.

Við erum spegilmynd á umhverfi okkar. Rýmin sem við búum í og hlutirnir sem við höfum í kringum okkur hafa áhrif á hvernig okkur líður, hugsum og hvernig við hegðum okkur og mynda ramma utan um sjálfsmynd okkar og lífssögu. Við erum að vakna betur til lífsins þegar kemur að áhrifum umhverfis á líkamlega og andlega heilsu,“ segir Svala.

Útsýnið er guðdómlegt en íbúðin er á sjöundu hæð.
Útsýnið er guðdómlegt en íbúðin er á sjöundu hæð. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir
Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir
Infrarauði klefinn er algjör lúxus.
Infrarauði klefinn er algjör lúxus. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir
Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir
Speglaskápurinn kemur vel út.
Speglaskápurinn kemur vel út. Ljósmynd/Þórkatla Sif Albertsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál