Einhleypa foréttindakonan í garðinum

Það getur verið tímafrekt að verja tíma í garðinum þegar …
Það getur verið tímafrekt að verja tíma í garðinum þegar þú gætir verið að gera eitthvað annað. Chris Barbalis/Unsplash

Það er alltaf verið að segja okkur mannfólkinu að við eigum að horfa meira inn á við. Innri friður er víst eitthvað sem fólk á að öðlast ef það vill fanga hamingjuna. Það að ætlast til þess að fólk nái því einhvern tímann á lífsleiðinni er kannski fullbratt. Það er þó hægt að gera eitt og annað til þess að hlúa að sér og umhverfinu. Sumir rækta garðinn sinn til þess að hlúa að sér á meðan aðrir gera eitthvað allt annað sem ekki verður tíundað hér.

Í fjórðu iðnbyltingunni þar sem raftæki eru að taka yfir líf fólks sækja æ fleiri í það að rækta grænmeti og koma sér upp grænu svæði þar sem fólk getur notið þess að vera til án þess að þurfa að setja sig í sértakar stellingar. Það eru þó ekki allir á þeim stað að elska garðinn sinn og sumir eru haldnir algerri blindu á eigin forréttindi.

Vinkona mín er gott dæmi. Hún hatar garðinn sinn. Eða hún hatar hann kannski ekki beint en garðurinn hennar er svo stór og þurftafrekur að hún var að íhuga það um daginn að flytja. Þegar hún var spurð nánar út í garðinn sinn kom í ljós að það þurfti að gera svo mikið í garðinum að henni féllust hendur. Hún nennti ekki að vera þessi einhleypa í garðinum sem væri sveitt öll kvöld og allar helgar. Garðvinnan væri svo tímafrek að hún hefði engan tíma aflögu til þess að finna sér framtíðarmaka. Hún segir að makaleit sé mjög mikil vinna og henni þurfi að sinna af fullum krafti. Hún er löngu búin að gefast upp á því að reyna að finna framtíðarmaka í símanum sínum. Tinder löngu hætt að gefa.

Trén í garði vinkonu minnar klippa sig ekki sjálf og beðin reyta sig heldur ekki sjálf. Svo þarf að slá grasið einu sinni í viku, bera lífrænan áburð á grasið og beðin, vökva reglulega og bera á garðhúsgögnin. Svo þarf að myglusveppaþvo pallinn, bíða eftir að hann þorni og bera allavega tvær umferðir af viðarvörn á hann. Það þarf líka að bera á þakkantinn og skjólveggina. Vinkona mín segir að hún muni ekki gera neitt annað í sumar en hugsa um þennan 1.000 fermetra skrúðgarð. Sem er örugglega rétt.

Í garðkvíðakastinu sem myndaðist innra með henni var hún farin að sjá sjálfa sig fyrir sér í nýtískulegri þakíbúð þar sem hún gæti senað sig til óbóta. Áhyggjulaus og verkefnalaus. Ég benti henni á að sen væri hugarástand sem ætti að vera hægt að framkalla í öllum aðstæðum og híbýlum og væri undir okkur sjálfum komið hvort tækist eða ekki. Hún myndi án efa fá óstjórnlega tómleikatilfinningu þegar hún væri flutt í blokkina og spurði í framhaldinu hvenær hún hefði búið í blokk síðast. Hún mundi það ekki – það er svo langt síðan.

Vinkonunni var bent á að það þyrfti að mæta á húsfundi í blokkinni og svo gætu verið skipulagðir sameiginlegir tiltektardagar þar sem hún yrði tilneydd til þess að reyta arfa og kantskera á fyrirframákveðnum tíma. Allir yrðu að gera þetta saman.

Ég veit ekki alveg hvað hún gerir í þessu. Hún er fullorðin og vön að finna réttu lausnirnar á vandamálum heimsins. Ég er bara einhvern veginn svo viss um að prinsinn á hvíta hestinum þefi hana uppi þegar hún á síst von á því, hvort sem hún er sveitt með vélsög í garðinum að saga niður hekk eða á húsfundi í blokkinni. Það eina sem ég veit er að sá sem fangar hjarta hennar er heppinn. Mjög heppinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál