Hengir sokkabuxur út í glugga

Jakob Ómarsson rithöfundur byrjar að skreyta snemma.
Jakob Ómarsson rithöfundur byrjar að skreyta snemma. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jakob Ómarsson, höfundur bókanna Ferðalagið og Búálfar: Jólasaga, byrjaði að stelast til þess að hlusta á jólalög í október. Hann vill hvergi annars staðar vera en á Íslandi um jólin og hefur gaman af jólastressinu á Þorláksmessu enda þekktur fyrir að vera einstaklega jákvæður maður. 

„Ég er mikið jólabarn og er bara stoltur af því. Ég og öll stórfjölskyldan höfum virkilega gaman af jólunum. Ég held ég erfi það frá mömmu minni en hún leggur mikinn metnað í jólin. Ég held að henni þyki fátt skemmtilegra en að gefa gjafir, ég er bara svolítið þannig líka og finnst fátt skemmtilegra en að gefa,“ segir Jakob þegar hann er spurður hvort hann sé mikill jólaálfur.
„Ég er orðin þannig að í nóvember byrja ég alveg að undirbúa jólin. Ég leyfði mér í fyrsta sinn í fyrra að setja upp jólatréð upp úr miðjum nóvember. Ég er í jólahópi á Facebook og þar er fólk að setja trén upp í byrjun nóvember. Ég er kominn með gervitré þannig að ég hugsaði: „Æ, af hverju ekki?““ segir Jakob. Hann var hæstánægður með útkomuna í fyrra og sá ekki eftir því að hafa sett upp tréð svona snemma enda lýsti það fallega upp heimilið í myrkrinu. Jakob er alinn upp við að jólatréð sé sett upp á Þorláksmessu og á æskuheimili hans fær tréð að standa fram yfir þrettándann. „Ég er alveg með tréð fram yfir áramótin en þá er ég eiginlega orðinn leiður á því,“ segir Jakob og hlær.

Gefur bækur

„Ég gef eiginlega öllum alltaf bækur. Ég vinn svolítið með að fara á bókamarkaði og gef líka það heitasta hverju sinni. Bækur eru ekkert sérstaklega dýrar miðað við margt annað og svo er ótrúlega jólalegt að fara upp í rúm með hreint á rúminu með bók,“ segir Jakob.

Hann var búinn að kaupa margar gjafir í október en passar sig samt sem áður að eiga eitthvað eftir. „Ég geymi líka hluti, ég vil ekki vera búinn of snemma. Ég vil líka fara niður í bæ á Þorláksmessu eða í Kringluna þegar mesta jólastressið er og kaupa gjafir. Mér finnst það gaman, það er gaman að sjá fólkið og upplifa jólastressið og jólastemninguna en án þess að vera samt í stressi sjálfur. Ég er bara að reyna að vinna mér í haginn, ef svo mætti segja, og upplifa jólastemninguna líka. Gjafirnar verða líka betri ef maður gefur sér aðeins meiri tíma í að velja þær.“

Jakob er mikill stemningsmaður.
Jakob er mikill stemningsmaður. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jakob segist vera nokkuð skipulagður í gjafainnkaupum en hann eigi samt ekki séns í þá sem eru skipulagðastir. Hann notar smáforritið Christmas List sem heldur utan um gjafirnar sem hann gefur. Hann segir til þúsundir smáforrita á borð við það sem hann notar. „Ég set inn hugmyndir, hvað ég kaupi, hvað ég er búinn að kaupa og hverju ég er búinn að pakka,“ segir Jakob.

Sú óvenjulega hefð tíðkast í fjölskyldu Jakobs að setja sokkabuxur út í glugga áður en Kertasníkir kemur til byggða.

„Á Þorláksmessukvöld setjum við sokkabuxur út í glugga. Þetta var gert fyrir mig og við dóttir mín gerum þetta líka. Þetta er einhvers konar blanda af bandarísku hefðinni, að vera með stóran sokk, en hjá okkur eru þetta bara venjulegar sokkabuxur. Svo kemur jólasveinninn og setur alls konar dót í sokkabuxurnar,“ segir Jakob, sem á frábærar minningar af sér sem krakka fara í gegnum sokkabuxurnar að morgni aðfangadags. „Lengi vel vissi ég ekki hvaðan þessi hefð kom en eftir að hafa kannað málið get ég rakið hana alla leið til langömmu og langafa og jafnvel lengra. Langafi minn, Kristinn, átti og rak fræga dótabúð hér áður fyrr og mig grunar að það hafi eitthvað spilað inn í. Þetta er allavega hefð sem ég held fast í og met mjög mikils.“

Breyttust jólin eftir að þú varðst faðir?

„Já, alveg heilan helling. Í fyrsta lagi fóru allir að gefa dóttur minni allar fínu gjafirnar, áherslan fór yfir á hana frá mér. Mér finnst að þetta eigi að snúast um þau. Það er virkilega gaman að upplifa jólin í gegnum hana, horfa á allar jólamyndirnar. Horfa á Home Alone og baka piparkökur. Þetta eru hlutir sem maður var kannski ekki að gera mikið af þegar maður var 23 ára. Maður getur allavega upplifað gleðina með barninu.“

Eldaði hangikjöt í Malasíu

Hefur þú verið í útlöndum á jólum?

„Það hef ég aldeilis gert. Ég var í heimsreisu og eyddi jólunum í Malasíu með Söndru vinkonu minni. Það var mjög sérstakt en mér þykir vænt um minninguna í dag. Ég var með rosalega mikla heimþrá á aðfangadagskvöld. Ég fann þá að ég vil vera á Íslandi á aðfangadag. Við létum senda okkur hangikjöt þannig að við borðuðum það á aðfangadagsköld og sungum jólalög saman. Þetta var mjög steikt og eiginlega mjög fyndið. Á jóladag fékk ég mér svo McDonalds, sem var svolítið sérstakt. Um leið og jóladagur var búinn hætti maður að pæla í þessu og hélt lífinu áfram. Fyrir ferðina vissi ég í raun ekki hvernig jól færu fram í Asíu en það var alveg jólastemning þar líka. Fyrir aðfangadag var ég í Singapúr og ég hef aldrei upplifað jafnmikla jólageðveiki. Það var ótrúlegt að sjá öll jólaljósin úti um allt. En ég hef ekki varið jólunum á Tenerife eða á Kanarí. Ég skil að margir geri það en það er ekki fyrir mig persónulega. Ég vil frekar kuldann, snjóinn og labba niður Laugaveginn. Það sem margir eru að flýja – að kaupa jólagjafirnar, jólastressið og allt það – fer ekkert í mig. Mér finnst það bara skemmtilegt.“

Ertu alltaf svona jákvæður?

„Ég reyni það. Það var markmiðið á árinu að vera óþolandi jákvæður,“ segir Jakob hlæjandi. Blaðamanni finnst áramótaheit Jakobs hafa tekist ágætlega. „Ef það er stress þá á maður frekar að sleppa því. Ef ég er að stressa mig á gjöfum þá frekar sleppi ég að gefa þær gjafir og það sama á við um matinn.“

„Ég er ættaður frá Danmörku og við höfum verið með purusteik frá því að ég var pínulítill. Ég er talsmaður þess innan fjölskyldunnar að fara að hætta því. Mér finnst hún alveg góð en ekki nógu góð til að vera á aðfangadagskvöld. Svo voru mamma mín og amma svo klikkaðar áður fyrr að þær voru ekki heldur með eftirrétt. Afsökunin var að þær væru bara svo saddar og svo átu þær konfekt í staðinn! Ég er svona að taka eftirréttinn inn líka,“ segir Jakob, sem borðar skötu og hangikjöt á Þorláksmessu. Á jóladag er hefð í fjölskyldunni að elda önd.

Jakob hlaut tilnefningu til Íslensku Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna 2021 fyrir bókina …
Jakob hlaut tilnefningu til Íslensku Íslensku bók­mennta­verðlaun­anna 2021 fyrir bókina Ferðalagið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jakob lætur ekki duga að lesa og gefa bækur eftir aðra höfunda þar sem hann er að gefa út sínar fyrstu bækur núna fyrir jólin. Bækurnar Ferðalagið og Búálfar: Jólasaga eru ólíkar bækur en þó báðar ætlaðar börnum.

Bókin Ferðalagið er gagnvirk styrkingabók en Jakob hlaut nýlega tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir bókina. „Á meðan barnið er að lesa bókina eru gerð alls konar skemmtileg og uppbyggjandi verkefni með því. Það er ekki söguþráður heldur er verið að tækla ákveðin viðfangsefni. Svo endar bókin á því að það er gerð styrkleikaæfing þar sem hugmyndin er sú að barnið kynnist sínum styrkleikum betur,“ segir Jakob.

Búálfur: Jólasaga segir frá lífi búálfa í kringum jól og áramót. „Ég er fullorðið jólabarn og hef lengi átt þann draum að skrifa mína eigin jólasögu. Sagan er einföld og falleg en hugmyndin kemur í raun upp úr því að ég og dóttir mín vorum alltaf að grínast með þá þjóðsögu að búálfar væru að stela öllum einstæðu sokkunum okkar,“ segir Jakob en síðan hafi eitt leitt af öðru og áður en hann vissi af var bókin tilbúin og komin úr prentun. Í ár verða því ekki bara bækur í pökkum frá Jakobi heldur líka bækur eftir Jakob í jólapökkum úti um allt land.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál