Óhuggandi eftir sambandsslitin

Íslensk kona er óhuggandi eftir að kærasti hennar hætti með …
Íslensk kona er óhuggandi eftir að kærasti hennar hætti með henni. mbl.is/Thinkstock

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem nær varla að draga andann fyrir árstarsorg og langar bara til að vera full. 

Hæ!

Kærasti minn hætti með mér um daginn og síðan þá eða í um tvo mánuði hef ég varla getað dregið andann fyrir ástarsorg. Ég veit samt að sambandið var ekkert upp á marga fiska, það var í raun ömurlegt. En ég kemst ekki út úr ástarsorginni. Ég er búin að reyna að hressa mig við en ekkert gengur. Ég upplifi bara svartnætti og langar í raun bara að vera full heima hjá mér. Ég veit að það er engin lausn að drekka bara út í eitt en eins og staðan er núna er það eina lausnin mín. Hvað leggur þú til?

Kveðja, SS

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. mbl.is/Árni Sæberg

 

Góðan daginn SS og takk fyrir þessa fyrirspurn.

Það er spurning hvort eigi betur við að segja að mér þyki það leitt að kærasti þinn hafi hætt með þér um daginn, eða að óska þér til hamingju með það þar sem sambandið hafi í raun verið ömurlegt, eins og þú segir. Ég ætla að halda mig við síðari hlutann og óska þér til hamingju því auðvitað er ekki gott að vera í ömurlegu sambandi og stundum er best að horfast í augu við að það er ekki alltaf sem fólki er ætlað að vera saman.

Tilfinningarnar sem þú ert að tala um eru mjög lýsandi fyrir ástand sem kalla mætti ástarþrá eða ástarfíkn (e. love addiction) og eru með því allra erfiðasta sem fólk fer í gegnum tilfinningalega. Þessar tilfinningar tengjast oftast skorti á góðri sjálfsmynd og sjálfstrausti sem veldur því að við verðum mismikið háð öðru fólki. Mörgum sem eiga við þetta vandamál að stríða (og það eru fjölmargir) finnst eins og þeir séu ekki heilir nema ef þeir eigi maka og eru gjarnan að fókusera mikið á að sambandið næri sig tilfinningalega. Þetta er klassísk útgáfa af því sem við heyrum stöðugt í textum um ástina, það er að segja að aðrir geri okkur heil eða fullkomni okkur.

Þegar við upplifum lífið þannig að við séum ekki sjálfum okkur næg og þurfum í raun á öðrum að halda til að líða vel þá erum við í leiðinni að segja að við séum háð öðrum til þess að við getum verið hamingjusöm. Það er aldrei gott að vera háður öðru fólki. Þegar svo þessir einstaklingar sem við „þurfum“ á að halda til að gera okkur heil, ákveða að fara úr lífinu okkar þá skellur á okkur þessi sára tilfinning sem þú ert að upplifa. Þetta er oftast einhvers konar blanda af mörgum tilfinningum svo sem tómleika, kvíða, sorg, einmanaleika og reiði svo eitthvað sé nefnt. Þetta er það sem í daglegu tali er kallað höfnun, tilfinningin um að vera yfirgefin.

Þessar tilfinningar verða stundum svo sárar og hugsanirnar svo þrálátar að okkur finnst við verða að deyfa þær með einhverjum hætti, til dæmis áfengisdrykkju. Það er rétt hjá þér að sú aðferð hjálpar ekki og í reynd mun það bara gera ástandið verra með tímanum. Án þess að fara dýpra í orsakir þess að þessar vondu tilfinningar koma svona sterkt upp hjá okkur þrátt fyrir að við séum fullorðin langar mig að benda þér á leiðir til að vinna úr þessari stöðu.

Ég mæli eindregið með því að þú fjárfestir í tíma hjá ráðgjafa sem getur aðstoðað þig með tilfinningalega úrvinnslu og að vinna í því að styrkja sjálfstraustið þitt. Eins vil ég nefna nokkrar leiðir sem virka vel og kosta ekki neitt. Ein aðferð er að nýta hugleiðslu sem þú getur til dæmis fundið á YouTube. Eins mæli ég með hugleiðslu-appi sem aðstoðar þig við að vinna gegn kvíða og vanlíðan. Eitt þeirra heitir Insight Timer og inniheldur gríðarlegt magn af hugleiðslum og fræðslu í tengslum við kvíða, ótta, söknuð og fleira. Eitt af því sem einfaldast er að gera og virkar ótrúlega vel er að fara út í náttúruna, fara í göngutúra, kíkja í sund eða fara jafnvel á æfingu ef þú getur.

Öll hreyfing er góð og það að fara út úr húsi í ferskt loft er merkilega heilandi, þó ekki sé nema 20 mínútna göngutúr. Hollt mataræði og góðar svefnvenjur styðja líka við betri líðan. Eins mæli ég með því að þú talir við annað fólk, heyrir í vinum og/eða fjölskyldu þinni ef það er hægt og fáir þannig farveg til að tala um hvernig þér líður, dreifa huganum og finnir að þú átt fólk að sem þykir vænt um þig og þú ert ekki ein. Að lokum mæli ég með því að þú segir við sjálfa þig oft á dag eftirfarandi setningu: Ég er nóg, ég skipti máli og ég má gera mistök.

Gangi þér vel að vinna úr þessu máli, ég hef fulla trú á þér.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál