„Ég er alveg að springa og hann gerir aldrei neitt“

Íslensk kona leitar ráða því eiginmaður hennar gerir aldrei neitt …
Íslensk kona leitar ráða því eiginmaður hennar gerir aldrei neitt á heimilinu. Ljósmynd/Sandra Seitamaa/Unsplash

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu sem hefur verið gift sama manninum í 12 ár. 

Hæhó!

Ég er búin að vera gift sama manninum í 12 ár og eigum við saman tvær yndislegar dætur. Líf okkar saman er algjörlega frábært, kynlífið gott, og bara allt. Nema það er eitt, sem ég er samt búin að ræða við manninn minn. Það er að hann hjálpar aldrei til með heimilisverkin og ég er algjörlega að bugast. Venjulegur kvöldmatur á þriðjudegi, afmæli, veislur, matarboð, aldrei hjálpar hann mér með neitt sem viðkemur því að laga til, þrífa eða vaska upp. Ég er alveg að springa og hann gerir aldrei neitt þó ég sé búin að ræða þetta við hann margoft. Hann lofar alltaf að taka meiri þátt, en gerir það svo aldrei. Núna fara fljótlega að koma jól og ég hugsa til þeirra með hryllingi. Ég nenni ekki enn eitt árið í röð að sjá um öll þrif fyrir jólin, og langar til að við vinnum betur sem teymi þegar kemur að þessu. Stundum hvarflar að mér að fá tíma hjá Virk því ég finn fyrir mikilli kulnun vegna þessa máls.  Hvernig er best að nálgast þessar samræður við hann svo þær skili árangri?

Kveðja,

Jóna 

Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.
Valdimar Þór Svavarsson fyrirlesari og ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu.

Góðan daginn og takk fyrir spurninguna.

Þetta er mjög algengt vandamál í samböndum og alveg óhætt að segja að við karlarnir erum oftar sökudólgarnir hvað það varðar að sinna illa heimilisstörfunum og ábyrgð á heimilinu. Þetta er í raun klassískt umræðuefni þegar pör og hjón leita aðstoðar hjá sambandsráðgjöfum. Það er á endanum mikilvægast að hver og einn svari því fyrir sig: Af hverju ætti ég að gera það sem þarf að gera? Vandinn liggur oftast í því að annar aðilinn gerir það sem þarf að gera og er svo að skammast í hinum fyrir að gera ekki neitt.

Þetta verður að vana og báðir aðilar læra að svona er þetta og sá sem gerir minna lærir líka að hann komist upp með það. Þá byrjar pirringur og rifrildi þar sem hvor um sig er með sínar réttlætingar. Það má segja að þetta sé barnaleg hegðun þegar öllu er á botninn hvolft, við erum að rífast eins og börn en ekki að tala saman eins og fullorðið fólk. Ef maður velur að fara í samband eða hjónaband, þá fylgir því að maður er að velja að bera sameiginlega ábyrgð sem í því fellst að vera í sambandi. Þetta er í raun samningur. Það er með þann samning eins og aðra samninga að það þarf að ræða innihald samningsins. Það má vel vera að samið sé þannig að annar aðilinn geri meira af einu og hinn af hinu, en það þarf að ræða það, semja um það. Oftast gerir fólk það ekki, það ræðir ekki fyrir fram hvernig það vill haga málum og fer svo að rífast eftir á. Þetta er eins og að leigja íbúð en vera ekki með samning og ræða ekki almennilega verð og kröfur sem fylgja leigunni. Það eru verulegar líkur á að það leiði til ósættis síðar meir.

Stephen Covey fjallar um það í bók sinni 7 venjur til árangurs (e. 7  habits of highly effective people) að til þess að fólk sé skuldbundið einhverju verkefni, þá þarf það að koma að mótun þess. Þetta er að vissu leyti eins varðandi verkefnin í hjónaböndum. Báðir aðilar þurfa að koma að borðinu, horfa saman á hvaða verkefni þarf að leysa og móta sameiginlega lausnirnar. Þannig eru meiri líkur á að báðir aðilar séu skuldbundnir því að árangur náist. Ég mæli hiklaust með samningafundi þar sem báðir aðilar þurfa koma með sína sýn á hvaða verkefni þarf að leysa og semja svo um hvernig þeir vilja standa að lausn þeirra. Þá er til staðar sameiginlegt samkomulag um hvernig samningurinn lítur út, meiri skuldbinding um að uppfylla samninginn og um leið minni líkur á að annað þurfi að skammast í hinu fyrir að virða ekki samninginn.

Kær kveðja, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál