Skilnaðarráð fræga fólksins vekja athygli

George Clooney kann því vel að vera einn. Hann er …
George Clooney kann því vel að vera einn. Hann er samt á því að gott samband sé frábært líkt og það sem hann á með Amal Clooney. mbl.is/AFP

Á Thrive Global má finna áhugaverða umfjöllun um sambandsráð stjarnanna - hvað þær segja að best sé að gera þegar sambönd enda. Ráðin eru allskonar sem sýnir að það eru til fleiri en ein leið í átt að góðu lífi eftir skilnað. 

Það sem stjörnurnar eiga sameiginlegt er sú staðreynd að þær eru opinberar persónur. Ef samböndin sem þær eru í hætta að virka þá veit vanalega heimurinn af því og getur því dregið vissan lærdóm af reynslu þeirra.

Á meðan ein stjarnan segir best að kenna öðrum um, segir önnur að best sé að taka ábyrgð. Að vera einn er síðan betra en að vera í lélegu sambandi og svo mætti lengi áfram telja.

Ef þú hefur nýverið gengið í gegnum skilnað og þig vantar ráðleggingar. Þá eru stjörnurnar á því að þú ættir að íhuga eftirfarandi atriði:

Jennifer Aniston segir enga leið framhjá sársaukanum sem fylgir skilnuðum.
Jennifer Aniston segir enga leið framhjá sársaukanum sem fylgir skilnuðum. mbl.is/AFP

Jennifer Aniston: Að viðurkenna sársaukann og hefja sig yfir ástandið

Aniston er á því að það sé alltaf erfitt að ganga í gegnum skilnað. Hún segir að skilnaður opni á tilfinningar okkar. Þegar hún hefur reynt að forðast sársaukann sem fylgir aðskilnaði eftir sambandsslit, þá hefur henni þótt það auka á sársaukann. 

Ráðin hennar eru því: Leyfðu þér að finna til. Leyfðu sársaukanum að koma og skoðaðu hann. En reyndu eftir fremsta megni að upphefja þig yfir ástandið til þess að þurfa ekki að vera fastur/föst á þessum stað lengi. 

Það er greinilega engin styttri leið að bata eftir skilnað að mati Aniston. Hún er dugleg að mæta á staði og tala um tilfinningar sínar fyrir framan heiminn. Með því er hún að vera ákveðin fyrirmynd þess að lífið er allskonar, það eina sem við þurfum að gera er að mæta og leyfa okkur að finna. 

Gwyneth Paltrow segir skilnaði ekki erfiða í samburði við þá …
Gwyneth Paltrow segir skilnaði ekki erfiða í samburði við þá vinnu sem þarf að fara í til að ná saman með fyrrverandi sem vinur. mbl.is/AFP

Gwyneth Paltrow: Að taka ábyrgð

Paltrow segir að skilnaðir séu alltaf erfiðir, en það sem sé hvað erfiðast sé úrvinnsla tilfinninga eftir skilnað. Hún ákvað í upphafi ákvörðunar sinnar um að skilja að hún vildi að út úr skilnaðinum kæmi eitthvað jákvætt. 

Ráðin hennar eru því: Ekki ásaka hinn aðilann fyrir neitt og reyndu að taka ábyrgð eins vel og þú getur. Hugsaðu hvað gæti gerst ef þú tekur ábyrgð í þínu lífi og setur börnin þín sem dæmi í fyrsta sætið. Hún mælir með að maður minnist maka síns fyrir allt sem maður elskaði og þannig geti fólk verið vinir áfram. 

Það er greinilegt að Paltrow er dugleg að greiða úr tilfinningum enda hefur hún sagt að þessi ákvörðun, um að vera vinir, sé ein sú allra erfiðasta sem hún hefur tekið. „Ferðalagið frá skilnaði að vinskap var það erfiðasta sem ég hef farið í lífinu.“

Þú getur verið einmana í sambandi að mati George Clooney.
Þú getur verið einmana í sambandi að mati George Clooney. mbl.is/AFP

George Clooney: Frekar einn en í lélegu sambandi 

Clooney segir að hann hafi verið í nokkrum frábærum samböndum og síðan í nokkrum aðeins minna frábærum samböndum líka. Hann hefur verið duglegur að benda á að í samböndum geti maður einnig upplifað mjög mikinn einmanaleika. Að sambönd eða hjónabönd séu engin ávísun á hamingju eða velferð.

Ráðin hans eru því: Finndu þér góðan aðila áður en þú ákveður að fara í samband. Það er alltaf betra að vera einn en í lélegu sambandi.

Það er greinilegt á ráðum Clooney að hann leggur áherslu á að rækta sjálfan sig og samband sitt við sjálfan sig. Ráð Clooney eru almenn og er sambandssaga hans þannig að hann hefur prófað ýmislegt og ætti því að vita sínu viti í þessum málum. 

Madonna er á því að vinnan göfgi manninn.
Madonna er á því að vinnan göfgi manninn. mbl.is/AFP

Madonna: Vertu upptekin í vinnu

Madonna hefur átt farsælan feril að baki sem söngkona svo það er kannski ekki að undra að hún leggi áherslu á vinnu eftir sambandsslit. Hún er á því að vinnan hafi bjargað henni eftir sambandsslit sín við Guy Ritchie á sínum tíma. Hún hefur látið hafa eftir sér að hefði hún ekki haft vinnuna sína þá hefðu húsþökin í bænum hljómað heillandi. 

Ráðin hennar eru því: Legðu áherslu á ferilinn þinn og ef eitthvað fer úrskeiðis þá skaltu hella þér í vinnuna þína. Lífið er allskonar og hlutirnir breytast. 

Það er greinilegt að Madonna stólar á engan annan en sig sjálfa í lífinu. Af mörgu sem hægt er að hafa hugfast eftir skilnað er að vinnan göfgar manninn. 

Taylor Swift mælir með að fólk skrifi frá sér sambandið.
Taylor Swift mælir með að fólk skrifi frá sér sambandið. mbl.is/AFP

Taylor Swift: Skrifaðu þig út úr skilnaðinum

Swift er þekkt fyrir að skrifa lagatexta þegar hlutirnir ganga ekki upp fyrir hana sambandslega. Hún segist fá skýrleika í aðstæðum þegar hún skrifar niður hlutina og þá geti hún sleppt og treyst veröldinni fyrir restinni.

Ráð hennar eru því: Finndu leiðir til að skrifa niður hvernig þér líður og hvaða upplifun þú hefur af síðasta sambandi. Leggðu þig síðan fram um að sleppa sársaukanum og fá skýrleika í nýju lífi. 

Það er greinilegt að Swift hefur gengið í gegnum allskonar atriði því hún hefur samið áhugaverða texta og skrifað sig frá hlutunum reglulega. Að geta nýtt vinnuna í slíkt hlýtur að vera mikil blessun. 

Anne Hathaway segir að heiðarleiki og samskipti séu lykillinn að …
Anne Hathaway segir að heiðarleiki og samskipti séu lykillinn að góðu sambandi. Að slæm sambönd séu vegvísar í góð sambönd. mbl.is/AFP

Anne Hathaway: Finndu lærdóminn á bak við sambandið

Hathaway er þekkt fyrir að vera raunsæ og opin. Hún er hugrökk þegar kemur að ferlinum sem og ástarmálum og segir að það sé engin ástæða til að leggja árar í bát þótt hjónabandið eða sambandið hafi ekki gengið upp. Hún hvetur fólk til að skilja hvað fór úrskeiðis og nota það inn í ný sambönd.

Ráðin hennar er því: Haltu áfram með lífið og þegar þú ert komin í nýtt samband settu mörk utan um það hvernig þér líður á öllum stigum sambandsins. Talaðu um tilfinningar þínar og vonandi verður maki þinn þannig að hann geti skilið hvað þú ert að ganga í gegnum. 

Það er greinilegt að Hathaway lítur á lífið sem blessun og að af öllu megi draga lærdóm. Djúp tilfinningaleg tengsl og heiðarleiki virðast vera henni ofarlega í huga. Hún er á því að allir hafi upplifað léleg sambönd í lífinu og að þau séu dulbúin blessun til að komast í góð sambönd.

Blake Shelton er á því að tíminn lækni öll sár …
Blake Shelton er á því að tíminn lækni öll sár og að lífið sé allskonar. mbl.is/AFP

Blake Shelton: Góðir hlutir koma í sveiflum

Shelton er á því að lífið sé allskonar. Að stundum hafi hann ekki verið á góðum stað í lífinu eins og til dæmis eftir skilnaðinn við Miranda Lambert á sínum tíma. Síðan gerast góðir hlutir og lífið breytist í takt við það. 

Ráðin hans eru því: Leyfðu lífinu að flæða áfram og fylgstu með öllu því sem gerist. Stundum gerst góðir hlutir og stundum slæmir.

Það er greinilegt að hann trúir því að allit eigi sinn tíma í lífinu og að sársaukinn líði hjá. Stundum getur stærsta hamingjan verið handan við hornið á mestu vonbrigðunum. 

Cameron Diaz er ótrúlega hugrökk þegar kemur að lífinu, ekki …
Cameron Diaz er ótrúlega hugrökk þegar kemur að lífinu, ekki síst í ástarmálum. mbl.is/AFP

Cameron Diaz: Sorgin þín þýðir að þú getur elskað aftur

Diaz er alltaf hress og skemmtileg og sumir vilja meina að hún sé mjög sterk persóna í lifanda lífi. Eitt er víst að hún fer ekki of mikið á dýptina þegar kemur að tilfinningum. Hún segir að stundum sé nóg að finna til í hjartanu, til að vita að maður getur elskað. 

Sambandsráðin hennar eru því: Vertu tilbúin að láta brjóta hjartað þitt í þúsund mola þúsund sinnum og upplifa ástina, í stað þess að vita ekki hvernig það er að elska.

Það er greinilegt að ástin skiptir máli í lífi leikkonunnar og að brostin hjörtu er eitthvað sem púslast saman á endanum. 

Rihanna segir markmiðið eftir sambandsslit eigi að vera að standa …
Rihanna segir markmiðið eftir sambandsslit eigi að vera að standa í fæturnar aftur. Það sé hins vegar ekki sjálfgefið. mbl.is/AFP

Rihanna: Allt á sinn tíma

Rihanna er á því að það mikilvægasta eftir skilnað sé að komast aftur á fæturnar. Hún er á því að það sé ekki sjálfgefið, en ef fólk hefur trú og þolinmæði þá eiga allir hlutir í lífinu sinn tíma. 

Sambandsráð hennar eru því: Settu þér markmið um að standa í fæturna eftir skilnað en leyfðu veröldinni að lækna þig. Einn daginn muntu fara á fætur og finna að sársaukinn er farinn. Það er kominn nýr dagur.

Það er greinilegt að orðatiltækið um tímann sem græðir öll sár á við í þessu samhengi. Rihanna segir einstaka tilfinningu að finna að eitthvað sem hefur tekið yfir í lífinu verða hluta af fortíðinni. 

Meghan Markle er á því að sjálfsást og umhyggja sé …
Meghan Markle er á því að sjálfsást og umhyggja sé lykillinn að lífshamingjunni. mbl.is/AFP

Meghan Markle: Ástundaðu sjálfsást

Markle er án efa með eftirsóttustu ráð veraldar, enda er hún gift prinsi. Geri aðrir betur. Samkvæmt henni er mikilvægt að gera hluti fyrir sjálfan sig sem maður stundum ekki nennir eftir sambandsslit. Að ástunda sjálfsást og að finna lykilinn að eigin hamingju innra með sér.

Sambandsráð hennar eru því: Ef þú gengur í gegnum skilnað skaltu elda fyrir þig kvöldverð, þó þú sért bara ein/einn. Klæddu þig fallega upp, kauptu blóm handa þér og baðaðu þig í ást og umhyggju. 

Það er greinilegt að hún leggur áherslu á að taka ábyrgð og að fólk festist ekki um of í þeirri hugsun að það eigi ekki eða hafi ekki, heldur baði sig í ást og umhyggju. Megi ástin alltaf byrja hjá okkur!

Mariah Carey er á því að róa á ný mið …
Mariah Carey er á því að róa á ný mið ef hlutirnir ganga ekki upp í samböndum. Hún segir fínt að klessa hlutunum bara á hinn aðilann ef það færir fólki hugarró. mbl.is/AFP

Mariah Carey: Settu fókusinn á þig

Carey er með ein skoplegustu sambandsráð allra tíma. Hún er með almenn atriði eins og að sleppa reiðinni og setja fókusinn á sig. En hún mælir með að allir leiti á önnur mið í stað þess að hjakka í sama farinu. Eins segir hún mikilvægt að festast ekki í þeirri rullu að kenna sjálfum sér of mikið um. 

Sambandsráðin hennar eru því: Settu fókusinn á þig, slepptu reiðinni og kenndu hinum aðilanum um sambandsslitin. 

Það er greinilegt að Carey skilur eftir sig brotin hjörtu víða. Karlmenn ættu að vilja að gera vel og síðan aðeins betur ef þeir eru í sambandi með henni. 

mbl.is