Vilja ekki gifta sig en hvað gerist ef annað fellur frá?

Hvað gerist ef annar aðilinn fellur frá og fólk er …
Hvað gerist ef annar aðilinn fellur frá og fólk er ekki í hjónabandi. mbl.is/Thinkstock

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem er í sambúð en ekki hjónabandi. Hún veltir fyrir sér erfðarétti fólks í sambúð. 

Góðan daginn.

Takk fyrir greinargóð svör og einkum er lúta að erfðarétti sem er greinilega það sem brennur á mörgum, einkum nú þegar algengt er að samsetning fjölskyldna er öllu flóknara en var fyrir nokkrum áratugum. Mín spurning lýtur jafnframt að erfðamálum verandi í samsettri fjölskyldu.

Ég og maðurinn minn erum skráð í sambúð. Við eigum bæði ung börn úr fyrra hjónabandi og við eigum saman fasteign sem er skráð á okkur bæði til helminga. Við rekum heimilið saman (fjárhagslega) en að öðru leyti höfum við sitthvorn fjárhaginn m.a. vegna útgjalda barna, fjárfrek áhugamál sem við bæði  eigum o.s.frv. og er þetta sameiginleg ákvörðun okkar beggja.  Við eigum ekki börn saman og komum ekki til með að eignast börn saman né stendur til að stofna til hjúskapar á næstu árum.

Ég geri mér fyllilega grein fyrir því að það myndast enginn erfðaréttur á milli okkar þar sem við erum ekki í hjúskap og að ef annað okkur fellur frá þá höfum við ekki rétt til að sitja í óskiptu búi. Ég veit þó að við getum að einhverju marki gert lögformlegan samning okkar á milli. Þar sem samkomulag á milli fyrrverandi konu mannsins míns er langt frá því að vera gott þá hef ég áhyggjur af stöðu minni ef hann fellur frá á meðan við erum „bara“ skráð í sambúð - ég veit fyrir fullvissu að hún mun ganga langt í að tryggja að börnin þeirra fái það sem þau eiga rétt á samkvæmt erfðalögum.

Mig langar að vita hvaða atburðarás fer af stað ef annað okkar fellur frá. Börnunum, hvort heldur mínum eða hans verður væntanlega skipaður fjárhaldsmaður til að gæta þeirra hagsmuna. Verða allar sameiginlegar eignir okkar s.s. fasteignir og bílar seldir eða getur eftirlifandi sambúðaraðili „keypt“ það úr út dánarbúinu. Hvað með „hluti“ á heimilinu sem við höfum keypt saman t.d. mublur, málverk, tæki og tól. Verður þetta allt verðmetið og tekið til skiptanna? Hversu hratt gengur þetta fyrir sig? Gæti ég (eða hann) verið án þaks yfir höfuðið og þurft að horfa á eftir hlutum sem við keyptum saman fyrir heimilið ef í hart færi að gæta hagsmuna barnanna?  Ég tek það fram að bæði yrðum við alsæl ef í hlut barna okkar færi séreignarsparnaður, sá aur sem til er og væntanlega það sem við eigum í fasteign og bifreiðum. Hvorugt okkar mundi þó vilja sjá hinn aðilann án þeirra eigna sem er að finna innan veggja heimilis okkar eða þurfa að sýna fram á eignarrétt yfir hlutum hvort heldur innandyra eða í bílskúrnum, en er það staðan?? Gæti ég eða hann staðið frammi fyrir því að þurfa sýna fram á að eiga málverk uppi á vegg, sófasett ... eða verðmætt hjól úti í bílskúr á sama tíma og við erum að syrgja maka okkar?

Hvaða ráðleggingar gefur þú fólki í þessari stöðu og hver er atburðarásin (öll börnin eru undir 18 ára aldri). Hvorugt okkar er reiðubúið að svo stöddu að ganga í hjúskap og hvorugt okkar ásælist það sem við, hann eða ég, eigum á bankareikningum - en það er heimilið sem við höfum skapað okkur saman sem skiptir máli bæði tilfinningalega og að sá sem eftir stendur standi ekki uppi með sín börn á byrjunarreit.

Kveðja, B

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl. 

Eins og þú segir réttilega þá er enginn gagnkvæmur erfðaréttur milli sambúðarfólks og eftirlifandi sambúðarmaki öðlast ekki rétt til setu í óskiptu búi, svo sem gildir um eftirlifandi maka í hjúskap samkvæmt ákvæðum erfðalaga. Engar lögfestar efnisreglur er að finna í lögum hér á landi um skiptingu eigna sambúðarfólks. Sú afstaða hefur á hinn bóginn mótast í dómaframkvæmt að litið er á sambúðarfólk sem tvo sjálfstæða einstaklinga í fjárhagslegu tilliti. Meginreglan er sú að hvor aðili á þær eignir sem hann er skráður fyrir og ber ábyrgð á þeim skuldum sem hann hefur stofnað til nema sérstaklega sé samið um annað. Við andlát verður að skilja milli eigna hvors um sig, eftirlifandi sambúðarmaki fær sínar eignir og erfingjar hins látna skipta milli sín eignum hans samkvæmt ákvæðum erfðalaga.

Ef erfingjar hins látna eru yngri en 18 ára þá þarf að grípa til sérstakra aðgerða um atbeina sýslumanns við skipti dánarbúsins. Í aðalatriðum er ráðgert í reglum skiptalaga að ófjárráða erfingjum verði skipaður sérstakur lögráðamaður til að ljúka skiptunum. Erfingjar geta því, með atbeina lögráðamanns, selt eignir búsins, t.d. fasteign og bifreið. Þú gætir yfirtekið hlut hins látna í fasteigninni gegn greiðslu til dánarbúsins og sama á við um aðrar eignir sem þið eigið í óskiptri sameign. Við andlát getur jafnframt skapast ágreiningur milli eftirlifandi sambúðarmaka og erfingja um eignarétt að eignum sem ekki eru háðar opinberri skráningu, svo sem innbú. Fólk í óvígðri sambúð getur hins vegar tryggt eignaréttarlega stöðu sína að verulegu leyti með að gera með sér gagnkvæma erfðaskrá eða fjárskiptasamning um hvernig skuli skipta eignum við andlát. Verður það að teljast æskilegt að sambúðarfólk gæti þess að eignir séu skráðar í réttu hlutfalli við framlög hvors um sig og geri viðeigandi samninga um fjárhagsmálefni sín.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson, lögmaður/MBA. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál