Tengdadóttirin kærir sig ekki um mig

Allar fjölskyldur fara í gegnum einhver verkefni í lífinu. Að …
Allar fjölskyldur fara í gegnum einhver verkefni í lífinu. Að skoða hvað býr að baki heilbrigðum og sanngjörnum samskiptum er hollt fyrir alla. mbl.is/Colourbox

Kona sem hefur verið náin syni sínum alla ævi, er að missa sambandið við hann út af tengdadóttur sinni. Hún skilur hvorki upp né niður í hlutunum og biður um aðstoð. Hún leitar ráða hjá Elínrós Líndal, einstaklings- og fjölskylduráðgjafa, sem svarar spurningum lesenda Smartlands. 

Hæ. 

Sonur og tengdadóttir (40 ára) hringdu til mín og sögðust ekki vilja frekari samskipti við mig. Engin ástæða, bara að þau vildu fá að vera í „friði“ en ég mætti vera í samskiptum við son þeirra (barnabarn mitt 11 ára). Ég spurði um ástæðu fyrir þessu sem reyndist bara vera sú að tengdadóttirin kærir sig ekki um heimsóknir sonar míns til mín. Ég spurði í angist hvað ég hefði gert! Svarið var að tengdadóttirin er einfaldlega afbrýðisöm út í það góða samband sem ég hef alltaf haft við son minn. Hún þolir það ekki og vill eyðileggja það. Og það tókst henni að gera með því að banna honum að eiga samskipti við mig. Þetta var mér mikið áfall. Einhverjum vikum síðar var ég með strákinn þeirra einn dag og eftir að ég skilaði honum spurði ég hvort hann væri ekki hress. Þau sögðu að ég hefði ekkert verið með hann! Og bættu svo við að hann hefði verið með magakveisu þegar hann kom heim...!

Hvernig er best að höndla svona mál? Ég skil hvorki upp né niður í þessu en ég held að tengdadóttirin hafi fengið það sem hún vildi því sonur minn hefur ekki heimsótt mig síðan þetta gerðist.

Kveðja, G

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. mbl.is/ Saga Sig

Sæl og takk fyrir erindið.

Ég held að mjög margar mæður fari í gegnum ákveðið ferli þegar kemur að börnum sínum, sér í lagi sonum. Þegar þeir fara að heiman, eignast konur og sína eigin fjölskyldu. 

Ef þú skoðar aðeins hvað er heilbrigt að sé í gangi hjá syni þínum, þá er það að hann setji sig og fjölskyldu sína í fyrsta sætið. Ég efast um að hann eða þau vilji loka á þig, en kannski eru þau meira að hafna samskipum sem eru að meiða sambandið þeirra. Kunna ekki að setja heilbrigð falleg mörk og setja því upp vegg og loka á. 

Nú er ég alls ekki að setja ábyrgðina á þig, en þú getur verið hluti af lausninni. 

Mig langar að byrja á að taka þig aðeins út úr þinni sögu og sýna þér dæmigerða sögu ungrar konu sem á náið samband við föður sinn. Í raun er hann kletturinn í lífi hennar. Sá sem hún leitar alltaf til. Þegar þessi unga kona hittir mann, verður ástfangin, flytur að heiman og eignast sína eigin fjölskyldu þarf hún að skoða samband sitt við föður sinn. Eiginmaður hennar verður aldrei eins og pabbi hennar. Ef hún skoðar ekki samskiptin þá má gera ráð fyrir því að hún haldi áfram að leita fyrst til hans af öllum mönnum.

Ef hana vantar peninga, fer hún til pabba. Ef hana vantar að láta mála vegg, þá fer hún til pabba. Hún verður gröm yfir því hvað eiginmaður hennar vinnur mikið og sýnir lítinn áhuga. Eiginmaðurinn verður gramur á móti yfir því að hann sé ekki hafður með í ákvörðunum. Hann vildi ekki bláan lit í stofuna! Báðir aðilar staðna í þroska, fá ekki tækifæri til að vaxa og þroskast og halda áfram í lífinu. Þau verða dofin, upplifa sig óhamingjusöm og missa af öllu því sem sambönd geta kennt þeim. 

Ég get nefnt annað dæmi:

Ungur maður er náinn móður sinni. Hann eignast konu sem hann er ástfanginn af en sér fljótlega að hún er ekki mamma hans. Hún er með athyglina á sínum eigin ferli, þvotturinn er óþveginn, maturinn ekki tilbúinn á sínum tíma, hann verður vanmáttugur og leitar til mömmu sem býðst til að koma og styðja við fjölskylduna. Mamma er komin reglulega, að aðstoða með þvottinn, taka til í skápunum og deilir af eigin reynslu, styrk og von. Eiginkonan verður vanmáttug og gröm, finnst hún ekki samþykkt eins og hún er og fer að bera kala til mömmunnar. 

Ertu að skilja mynstrið?

Ef þú vilt eiga kærleiksríkt og gott samband við son þinn og fjölskyldu hans, myndi ég ráðleggja þér að koma fram við þau öll eins og eina einingu. Treystu syni þínum fyrir því að hann sé með konunni sem hann elskar og að hann sé að gera sitt besta. Þau eru pottþétt að fara í gegnum alls konar hluti eins og allir í lífinu, en það mun þroska hann og efla fjölskylduna. Ekki vera ráðgjafi sonar þíns í ástarmálum, ekki efast um að verkefnin sem hann fær í lífinu séu eitthvað sem hann getur ekki fundið út sjálfur. Vertu styðjandi og kærleiksrík en settu fókusinn á þig sjálfa. Hvað finnst þér gaman að gera í lífinu? Hvað lifir þú fyrir?

Hugsanir heyrast og þess vegna myndi ég sleppa og treysta vegferð hans. Biðja fyrir hamingju þeirra og segja þeim að þig langi til að vera hluti af fjölskyldunni þeirra og mynda heilbrigt samband við þau öll.

Stríð eins og það sem farið er af stað í ykkar fjölskyldu endar vanalega þannig að tengdamamman verður undir. Nema að sonurinn setji mömmu sína í forgang og velji þarfir hennar umfram sínar eigin, konu sinnar og barna.

Ef það gerist, helst það vanalega í einhverja mánuði, en seinna verður sonurinn gramur út í móðurina og hlutirnir verða enn þá verri.

Ástæðan fyrir því að ég hvet þig til að vera hluti af lausninni er sú að þú sendir inn bréfið, þú ert að sýna fúsleika til að leysa málin og skoða hlutina út frá fleiri hliðum. 

Það finnst mér vel gert.

Áfram þú!

Kær kveðja, Elínrós Líndal.

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.   

Allar fjölskyldur eiga von í framtíðinni. Megi sem sem flestir …
Allar fjölskyldur eiga von í framtíðinni. Megi sem sem flestir finna friðinn og getuna til að fyrirgefa og sjá annað fólk með augum kærleikans.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál