„Þakklæti er andleg gönguferð!“

Ragnhildur Bjarkadóttir sálfræðingur er á því að þakklæti skipti einstaklega …
Ragnhildur Bjarkadóttir sálfræðingur er á því að þakklæti skipti einstaklega miklu máli í lífinu.

Ragnhildur Bjarkadóttir er sálfræðingur og fjölskyldufræðingur að mennt ásamt því að vera með MA í alþjóðasamskiptum. Hún rekur fyrirtækið Auðnast en þar starfar þverfaglegur hópur sem sinnir heilsu fólks, m.a. á vinnustöðum og er stór hluti af starfi Ragnhildar fólginn í því að finna leiðir til að  bæta heilsu og vellíðan starfsfólks. Að auki rekur hún stórt heimili með eiginmanni sínum, en þar búa fjögur börn þeirra, tengdasonur og þrír kettir.

Hvað getur þú sagt um mikilvægi þakklætis í lífinu?

„Fyrir mig er þakklæti góð leið til þess að staðsetja mig í réttri tíð, það er að segja dvelja í augnablikinu og njóta þess. Hugsanir gefa okkur tækifæri til þess að flakka um fortíð og framtíð sem oft og tíðum leiðir hugann að einhverju kvíðavaldandi eða neikvæðu. Þakklæti er því að mínu mati oft eins og bóluefni gagnvart óhjálplegum hugsunum. 

Þakklæti getur líka verið smitandi og virkað sem jákvæður viðhaldsþáttur í krefjandi aðstæðum.

Við fjölskyldan settum til að mynda upp þakklætiskeðju í samkomubanninu þar sem hver fjölskyldumeðlimur þurfti að senda skilaboð daglega inn á sameiginlegu grúbbuna okkar og deila með okkur hinum hvað var þakklætisvert þann daginn. Þótt við værum öll undir sama þaki voru ótrúlega ólíkir hlutir sem glöddu okkur, sem leiddi til þess að litróf þakklætisins var ansi fjölbreytt.“

Er mögulega áskorun fyrir okkur í dag að kunna að meta það sem við eigum og höfum?

„Já það getur verið áskorun að staldra við og meta það sem er til staðar fyrir framan okkur. Í samfélaginu í dag er sífellt verið að hvetja okkur til að setja okkur markmið um hitt og þetta, sem vissulega er gott og blessað en verður stundum til þess að við missum sjónar á því mikilvæga sem er akkúrat hér og nú fyrir framan okkur. Í ofanálag er samanburður öflugt tæki í nútímanum og verður til þess að fólk heldur að allir hinir hafi það betra eða séu að gera betur. Gott dæmi um slíkt mátti finna í samkomubanninu þegar margir nýttu tímann til þess að baka, hjóla, hlaupa og mála ásamt því að sinna börnum og vinnu. Fyrir vikið voru margir sem upplifðu sig framtakslausa því í þeirra raunveruleika snerist lífið um að láta daginn einfaldlega ganga upp.

Með því að staldra við og veita vegferðinni athygli þegar markmið eru annars vegar og grípa sjálfan sig þegar samanburðurinn er orðinn allsráðandi í huganum eru meiri líkur á því að við getum minnt okkur á það góða sem er nú þegar til staðar í okkar lífi.“

Hvaða ráðum getur þú deilt með lesendum sem vilja læra betur inn á sig og tengja dýpra við þakklætið innra með sér?

„Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ef fólk hefur áhuga á að tileinka sér þakklæti þá þarf að æfa það. Þakklætishugsanir eru því miður ekki sjálfstætt afl sem spretta upp þegar viðtakandi þarf á þeim að halda heldur þarf að þjálfa upp viðhorfið. Og það getur stundum virst yfirborðskennt í framkvæmd – sumir verða vandræðalegir og finnst þeir séu jafnvel að grobba sig. En þá finnst mér gott að líkja þessu saman við gönguferðir. Við förum út að ganga til að efla heilsuna, auka þolið og finna til vellíðunar. Það hugsar enginn þegar hann sér einhvern á göngu „ofsalega er þessi grobbinn“. Þakklætið er því svolítið eins og andleg gönguferð, við erum að hreyfa hugann með nýjum hætti sem krefst æfingar og verður útkoman í samræmi við fjölda æfinga.

Ef ég ætti því að gefa ráð þá er það einfalt: Æfðu þig daglega og jafnvel oft á dag.“ 

Er eitthvað sem þú hefur tileinkað þér í lífinu að þessu leyti sem þú værir til í að deila?

„Ég ákvað fyrir mörgum árum að orða þakklæti mitt oft og mikið, bæði gagnvart sjálfri mér og öðrum. Fjölskyldumeðlimir mínir eru orðnir vanir þessu og gott ef mér hefur ekki tekist að smita nokkra í kringum mig. En ég hef líka rosalega oft gert fólk í kringum mig vandræðalegt þegar ég romsa út úr mér þakklæti í kannski óvenjulegum aðstæðum.“

Hvað gerir þú daglega til að næra þig í lífinu?

„Ég hreyfi mig daglega og án undantekninga. Það gefur mér kraft til að takast á við fjölbreytta daga bæði í starfi og einkalífi. Svo passa ég mikið upp á fjölskyldusamveru og reyni að næra mig þar í gegnum athafnir daglegs lífs. Að lokum bý ég svo vel að eiga ótrúlegar góðar vinkonur sem fylla á gleðitankinn nánast daglega.“

Hvað gerir þú ekki?

„Ég reyni að forðast það að kvarta mikið því ég finn að það skilar yfirleitt litlum árangri og oftast eru til betri leiðir til þess að koma skilaboðum á framfæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál