Hver á barnið, ég eða fyrrverandi?

Hver á barnið?
Hver á barnið? Ljósmynd/Unsplash

Sævar Þór Jónsson lögmaður svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manni 

Sæll. 

Sko màlið er að ég er þrítugur karlmaður og er búinn að vera i sambandi með konu frá Víetnam i um 2 ár. Við vorum að eignast okkar fyrsta barn saman en núna er komið upp vandamál. Hún er enn gift manni sem hún er búinn að reyna að skilja við lengi. Samkvæmt því sem ég heyri frá ljósmóður þá er hann lagalega séð faðir barnsins af því að þau eru enn gift. Hún flutti út frá honum fyrir hálfu ári síðan og flutti til frænku sinnar. Núna eru tvær spurningar: Er hann lagalega séð faðirinn þrátt fyrir að hún sé búinn að skrá mig sem föðurinn à fæðingarskyrteini barns? Og svo er það eina sem ég get gert er að fara í DNA próf? Þyrfti það að gerast strax?  Væri i lagi að bíða í nokkra mánuði þangað til að sé hægt að senda sýnið út þannig að það sé ekki jafn dýrt en það er allt lokað þessa stundina vegna kórónuveirunnar. Kveðja, JB

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæll JB. 

Í 2. gr. barnalaga eru sérstakar feðrunarreglur sem gilda sjálfkrafa um börn hjóna og foreldra í skráðri óvígðri sambúð. Grunnreglan kallast „pater est“ reglan sem í hnotskurn felur í sér að eiginmaður móður telst sjálfkrafa faðir barns sem hún elur meðan á hjúskapnum stendur.

Samkvæmt framangreindri grunnreglu telst eignmaður sambúðarkonu þinnar sjálfkrafa faðir barnsins í lagalegu tilliti. Vakni grunur um að faðerni barns sem skráð hefur verið sjálfkrafa sé ekki rétt, svo sem ráða má af fyrirspurn þinni, þarf fyrst að höfða svokallað vefengingarmál þar sem upphaflegu faðerni yrði hnekkt fyrir dómi með lífsýnaprófi því til staðfestingar. Að því loknu væri hægt að höfða sérstakt faðernismál sem er annað dómsmál til að staðfesta rétt faðerni barnsins með lífsýnaprófi því til sönnunar.

Tekið skal fram að málalok í vefengingar- og faðernismálum ráðast oftast af niðurstöðum mannerfðafræðilegra rannsókna. Almennt greiðist allur kostnaður úr ríkissjóði.

Kveðja, Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór spurningu HÉR. 

mbl.is