„Er þá eitthvað að mér?“

Ingrid Bergman ásamt Joseph Cotten í kvikmyndinni Gaslight. Boðskapur myndarinnar …
Ingrid Bergman ásamt Joseph Cotten í kvikmyndinni Gaslight. Boðskapur myndarinnar á ennþá við að mati sérfræðings. mbl.is/skjáskot Youtube

Grunar þig að maki þinn sé í framhjáhaldi eftir vinnu, en hann segir að það sé eitthvað að þér? Ertu að hitta aðila sem þú heldur að sé að hitta fleiri, en þessi einstaklingur vill ekki skuldbindingu og segir að þú sért óörugg/óöruggur?

Þá er þetta grein fyrir þig. 

Gaslýsing (e gaslight) er falið fyrirbæri sem mörgum finnst erfitt að átta sig á. Dr Lisa Marie Bobby segir í viðtali á vef Woman´s Health að ef til vill sé kvikmyndin Gaslight með Ingrid Bergman frá árinu 1944, með bestu upplýsingarnar um gaslýsingu. Í það minnsta eigi kvikmyndin ennþá við. En hún fjallar um mann sem reynir að gera konu brjálaða með því að lækka stöðugt í ljósunum heima fyrir, en þver neitar fyrir að vera að gera það, þangað til að hún nánast missir vitið. 

Ef verið er að gaslýsa þig þá gætir þú verið að upplifa þetta: 

  • Spurningum er varpað aftur til þín. Í hvert sinn sem þú spyrð maka þinn um eitthvað þá spyr hann þig til baka. Þannig yfirfærist það sem þú ert að spyrja yfir á þig aftur. Þú hættir að treysta innsæi þínu og byrjar að efast um þekkinguna. 
  • Þér líður illa með þig. Ef þú hefur upplifað það að vera öruggur/örugg í eigin skynni en ert núna að efast um þig, stöðugt óróleg/ur og ólík/ur þér, þá gætir þú verið í sambandi þar sem verið er að gaslýsa þig. 
  • Þú ert í einangrun. Ef maki þinn er alltaf að einangra þig, að láta þig vita að þú ættir ekki að umgangast annað fólk eða vill ekki að þú hittir fólk í kringum hann/hana, þá gæti verið að gaslýsa þig. Því ef sannleikurinn kemur í ljós, þá missir aðilinn völdin yfir þér og sambandinu. 
  • Það er ekki hlustað á þig. Ef þú ræðir eitthvað mál við maka þinn, svo sem mögulega neyslu eða óheiðarleika og maki þinn eða sá sem þú ert í sambandi með mætir þér ekki í samtalinu, heldur segir að þú sért að skipta þér of mikið af. Þá gæti verið að um óheiðarleika sé að ræða og verið sé að gaslýsa þig. 
  • Það er sagt að þú sért með erfiðleika að treysta. Aðilar sem eru að gera hluti sem ekki þola dagsljósið og eru síðan spurðir um það, varpa oft ábyrgðinni yfir á maka sinn. Segja þá hinn aðilann eiga við traustvandamál að stríða. 
  • Það er verið að fá þig til að endurskoða liðna atburði. Þeir sem gaslýsa eru með lag á því að endursegja fortíðina sér í hag. Þegar þið rifust í partýinu í síðasta mánuði, þá var það ekki af því að það var verið að setja þig undir í samtölum og aðilinn var orðinn drukkinn; heldur af því að þú varst svo erfið/ur og leiðinleg/ur. Að sjálfsögðu getur fólk upplifað hlutina ólíkt, en ef upplifunin er alltaf þér í óhag, þá er eitthvað sem gott væri að skoða. 
  • Verið er að nota slæm orð um þig. Ef maki þinn er stöðugt að setja þig undir sig og segja að eitthvað sé að þér, þá er það ekki alveg eðlilegt. Það getur verið að þú gerir stundum mikið úr hlutunum eða eigir erfitt með suma hluti, en það á ekki að setja þig niður fyrir það. Heldur ættuð þið að geta rætt hlutina saman og verið til staðar fyrir hvort annað. 
  • Þú þorir ekki að standa í lappirnar. Ef maki þinn æsir sig alltaf þegar þú ert að reyna að berskjalda þig við hann/hana þá gætir þú misst kjarkinn til að vilja opna þig í sambandinu. Þú hættir að þora að ræða það sem skiptir þig máli og lokast tilfinningalega. 
  • Það er verið að hóta sambandinu. Ef maki þinn hótar alltaf sambandinu ef eitthvað er þá er hann væntanlega vanmáttugur að mæta þér í heilbrigðu samtali. Þessir aðilar fara þá frá því að segja að þeir muni aldrei fara frá þér í að segja að þeir vilji ekki vera með þér lengur.

Það er til leið og lausn fyrir alla. Að mati Women´s Health þá ættu allir að finna sér góðan sérfræðing að vinna með sem eru að upplifa gaslýsingu í samböndunum sínum. 

mbl.is