Eiginkonan situr í óskiptu búi og börnin hans fá ekkert

Ljósmynd/Roberto Nickson

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá manneskju sem er ósátt við erfðaskrá sem faðir viðkomandi og stjúpmóðir gerðu sín í milli. 

Kæri Sævar. 

Takk fyrir að veita aðstoð því erfðamál eru oft afar flókin. Í mínu tilviki gera faðir minn og eiginkona hans (sem er ekki móðir mín) með sér erfðaskrá sem er þinglýst. Þau erfa að fullu hvort annað allt eftir því hvort þeirra deyr á undan. Faðir minn lést á undan henni og er okkur börnum föður okkar frá fyrra hjónabandi hans tjáð að við eigum engan tilkallsrétt til arfs, allt renni til ekkjunnar og síðar munu sameiginleg börn þeirra erfa hana. Les samt staðhæfingar um að ekki sé hægt að gera börn algerlega arflaus þau eigi tilkall til 1/3 eigna foreldris samkvæmt erfðahlut, þrátt fyrir erfðaskrá. Hvað er hið rétta í þessu máli?

Kveðja, G 

Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.
Sævar Þór Jónsson rekur lögmannsstofuna Sævar Þór & Partners.

Sæl G. 

Í 2. gr. erfðalaga nr. 8/1962 er svo mælt að maki erfi 1/3 hluta eigna, þegar börn eru á lífi, en 2/3 hluta erfa börnin að jöfnu. Ef maka er ekki til að dreifa, taka börn og aðrir niðjar allan arf. Skylduerfingjar eru maki og niðjar arfleiðanda. Þegar skylduerfingjar eru fyrir hendi er arfleiðanda að hámarki heimilt að ráðstafa 1/3 af eignum sínum með erfðaskrá – 2/3 verða að ganga til skylduerfingja. Hafa ber þó í huga að unnt er að ákveða með erfðaskrá að auka hlut eins erfingja þannig að hann fái þriðjung eignanna og skiptast þá 2/3 eignanna með þeim hætti sem lýst var að framan.

Kær kveðja, 

Sævar Þór Jónsson lögmaður/MBA

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Sævari Þór póst HÉR. 

mbl.is