Fleiri kíló og kynlífið aldrei betra

Renée Mayne líður nú vel í skrokknum sínum eftir áralanga …
Renée Mayne líður nú vel í skrokknum sínum eftir áralanga baráttu við kílóin. Skjáskot/Instagram

Renée Mayne er 43 ára og hefur eytt miklum hluta ævinnar í megrunarkúra með það fyrir augum að verða meira aðlaðandi.

„Ég og maki minn höfum alltaf verið náin en ég var aldrei raunverulega til staðar í rúminu því ég var alltaf svo feimin með líkama minn,“ segir Mayne í viðtali við Body+Soul.

Eftir að Mayne hafði eignast tvö börn þurfti hún að horfast í augu við stærri líkama. Þá fór hún að setja spurningamerki við það að vera sífellt að leitast eftir smærri líkama. „Að vera kynþokkafullur er hugarástand frekar en fatastærð.“

Mayne fór smátt og smátt að samþykkja sjálfa sig eins og hún var og fór að fagna líkama sínum. 

„Allt breyttist í kjölfarið. Við hjónin erum bæði öruggari með okkur sjálf og líður vel með hvort öðru. Kynlífið hefur aldrei verið betra og snýst um miklu meira en bara um líkama okkar heldur líka sálir okkar,“ segir Mayne.

Kynlífsfræðingar taka undir orð Mayne. Þeir benda á að þó að tengsl séu á milli offitu og vandræða í rúminu þá stafi það einna helst af andlegum þáttum. Stærri konur geta átt frábært kynlíf - þetta snýst um að vera til staðar í núinu en ekki sífellt að hafa áhyggjur af stærðinni. Það skiptir máli að tala sig upp frekar en að rífa sig niður. Í stað þess að einblína á kílóafjöldann þá á maður að hugsa frekar hvað maður er lánsamur að eiga heilbrigðan líkama. Það er umfram allt kvíði og streita sem eyðileggur alla kynlífslöngun.

mbl.is