„Ég er svo óörugg með sjálfa mig þegar ég hugsa um þetta“

Stundum geta hugsanir og vanmáttur í samböndum orðið til þess …
Stundum geta hugsanir og vanmáttur í samböndum orðið til þess að mynda gjá á milli fólks. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá konu sem nær ekki að komast yfir það að kærastinn er með meiri reynslu en hún af kynlífi. 

Sæl

Ég er búin að vera með kærastanum mínum í rúmt ár núna en þegar við byrjuðum saman sagði hann mér að í fortíðinni hefði hann sofið hjá fullt af stelpum. Það truflaði mig ekkert þá en þegar ég fór að bera sterkari tilfinningar til hans fór það að trufla mig því hann er sá fyrsti og eini sem ég hef sofið hjá. Þetta er orðið það slæmt að ég græt mig stundum í svefn. Hvað get ég gert til að komast yfir þetta? Ég verð svo óörugg með sjálfa mig þegar ég hugsa um þetta. Ég elska hann svo mikið en ég á svo erfitt með að hugsa um þetta. Langar ekkert meira en að þetta hætti að trufla mig.

Ég er svo ráðalaus

Elínrós Líndal ráðgjafi.
Elínrós Líndal ráðgjafi. Ljósmynd/Saga Sig

Sælar. 

Takk fyrir bréfið og traustið sem þú sýnir mér með því að berskjalda þig með þetta.

Ég held þú megir bara vera ánægð með fortíð þína og að þú sért núna í sambandi að æfa þig sem kærasta.

Ég myndi reyna eins og þú getur að láta fortíð kærastans ekki hafa áhrif á þig. Þú ert einstök, dýrmæt og frábær rétt eins og þú ert. Sama hvaða reynslu þú ert með á vissum sviðum. 

Ef þú getur þá myndi ég ráðleggja þér að reyna að hugsa ekki um hvað hann var að gera áður, því í raun og veru hefur það ekkert með ykkur tvö að gera í dag. 

Ást er að mínu mati ekki sýnd með kynlífi, nema síður sé. Ást er þær skuldbindingar sem þú ert tilbúin að gera með einstaklingnum sem þú ert í sambandi með. Það eru litlu hlutirnir sem við gerum fyrir maka okkar daglega, hvernig við grípum hvort annað og deilum deginum og lífinu saman. Hvernig við tölum um maka okkar þegar hann heyrir ekki til og hugsum til hans þegar enginn veit. 

Við þurfum vanalega að geta elskað okkur sjálf án skilyrða til að geta elskað annað fólk með heilbrigðum mörkum. 

Eins þurfum við að átta okkur á að líklegast mun maki okkar vekja alls konar tilfinningar innra með okkur sem hafa stundum ekkert með hann að gera. Stundum getum við orðið óörugg eða jafnvel fjarlæg, því eitthvað sem er sagt eða gert minnir á fortíðina og við verðum óttaslegin. 

Ég vildi að ég gæti sagt að eftir því sem þú verður eldri þá verðir þú öruggari með þig. En því miður er það ekki alltaf þannig. Það þarf nefnilega oft að vinna aðeins í málunum til að komast yfir þau og vaxa og dafna. 

Það er ekkert mál að eldast í lífinu, en það að þroskast er valkostur sem maður fær daglega. 

Stundum getur verið gott að spyrja sig: Er þetta hann eða er þetta ég?

Með þessari spurningu ertu að kafa aðeins meira inn í fortíðina og skoða í raun einu manneskjuna sem þú hefur einhverja stjórn á í þessu lífi. 

Ég myndi passa upp á að þú sért að sinna þér vel daglega. Huga að því að borða hollan mat, fara út að ganga, sinna skólanum eða vinnunni og hitta eða tala við vinina. Kærastinn á að vera góð viðbót við annars ágætlega gott líf. Hann getur aldrei orðið lífið sjálft. 

Mig langar líka til að hvetja þig til að berskjalda þig við kærasta þinn og segja honum vanmátt þinn á þessu sviði. Að þú upplifir óöryggi af því hann hafi verið með fleiri stelpum en þú strákum og hvort hann geti haldið utan um þig á kvöldin þegar þú verður óörugg, svo þú fjarlægist hann ekki í vanlíðan tengdri þessu. 

Málið er nefnilega að í heilbrigðu sambandi getur fólk verið til staðar hvort fyrir annað þegar reynir á. Kannski ert þú óörugg með þennan hluta sambandsins, en hann óöruggur með eitthvað annað. Kannski ert þú með sterka flotta parta sem hann er ekki með og saman virkið þið. 

Ég held það sé góð æfing að læra að meta kynlíf sem afleiðingu af trausti, samvinnu, virðingu, nánd og vináttu. 

Ef þú ræðir þetta við kærasta þinn þá ertu að berskjalda þig og að læra að treysta. Ef þið finnið leið til að vinna saman í gegnum þetta sýnið þið samvinnu með því. Ef þú tileinkar þér jákvætt viðhorf til hans, sama hvað hann gerði hér áður, ertu að sýna honum virðingu og kannski getið þið lært að vera í nánd saman án þess að nota kynlíf til þess. Ég held að það sé mjög holl og góð æfing fyrir alla líka. 

Með árunum getur þú svo öðlast traust og langvarandi vináttu í hans garð. Sér í lagi ef hann er góður í að gera það sem hann segist ætla að gera og er áreiðanlegur og góður í að elska sjálfan sig og þig líka. 

Gangi ykkur alltaf sem best. 

Bestu kveðjur, Elínrós Líndal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál