Er hægt að giftast gjaldþrota manni?

Alvin Mahmudov/Unsplash

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum frá lesendum Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu varðandi brúðkaup. 

Góðan daginn.

Ég er í skráðri sambúð með manni og eigum við 2 börn saman. Við höfum búið saman í 20 ár. Hann er gjaldþrota og á 2 önnur börn af fyrra sambandi. Allar eigur okkar eru skráðar á mig. Nú er svo komið að hann vill giftast. Ég vil það að sjálfsögðu líka en hvað gerist þá varðandi hans gjaldþrot, ber ég einhverja ábyrgð þar? Og einnig hvað með erfðarétt ef hann fellur frá á undan mér og ég skráð fyrir fyrirtæki og húsnæði, erfa börnin þá ekkert og hef ég yfirráðarétt yfir öllu?

Kveðja, Jóhanna. 

Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.
Þyrí Steingrímsdóttir, lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur.

Góðan dag.

Allir einstaklingar eldri en 18 ára, hvort sem þeir búa einir, eru í sambúð eða í hjónabandi bera einir ábyrgð á skuldum sínum. Það er ekki hægt að láta skuldir sínar ganga yfir til annarra með því einu að ganga með þeim í hjónaband. Hjón bera þannig ekki ábyrgð á skuldum hvort annars og gangast ekki í slíka ábyrgð þegar þau giftast. Eina undantekningin frá þessu eru skattskuldir sem mögulega verða til á hjúskapartímanum, en hjón og sambúðarfólk bera óskipta ábyrgð á skattskuldum beggja sem verða til meðan þau eru samsköttuð.

Hvað varðar erfðaréttinn þá yrði það þannig að dánarbúið yrði væntanlega eignalaust ef aðstæður eru eins og þú lýsir og þið ekki í hjónabandi, enda erfir sambúðarfólk ekki hvort annað. Börn hans geta þar af leiðandi ekki erft neitt ef hann á engar eignir. Sambúðarmaki og/eða dánarbú sambúðarmaka getur þó átt tilkall til hlutdeildar í eignum sem skráðar eru á hinn, samanber til dæmis nýlegan dóm Héraðsdóms Suðurlands sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, en það er sjaldnast einfalt úrlausnarefni. Ef þið eruð í hjónabandi þá gilda aðrar reglur varðandi arf heldur en þegar sambúð er eins og flestir þekkja og var meðal annars útskýrt í síðasta svari mínu hér á vefnum.

Kær kveðja,

Þyrí Steingrímsdóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur póst HÉR. 

mbl.is