„Hún er orðin þunglynd út af mér“

Það getur verið kominn tími til að gera eitthvað í …
Það getur verið kominn tími til að gera eitthvað í málunum þegar sambönd eru farin að valda áhyggjum í lífinu. mbl.is/Colourbox

El­ín­rós Lín­dal ráðgjafi svar­ar spurn­ing­um les­enda Smart­lands. Hér fær hún spurn­ingu frá karlmanni sem á erfitt með að að segja kærustunni að hún gæti hugsanlega verið alkahólisti. 

Hæ Elínrós!

„Ég og kærastan mín höfum verið saman í tæp 5 ár.

Við erum nú komin yfir léttasta skeiðið eða þannig, bæði að detta í fertugt. Hún er árinu eldri og stundum finnst mér það trufla hana svo lítið.

Við eigum ekki börn saman en við eigum bæði börn úr fyrri samböndum.

Sambandið við börnin hjá hvort öðru gengur mjög vel, það er ekkert vandamál, ekkert vandamál með barnsforeldra eða neitt slíkt.

Við eigum eiginlega öll sömu áhugamálin og getum stundað saman áhugamál.

Út á við er allt eins og það á að vera.

Ég elska hana endalaust og sé enga aðra konu nema hana. Hún seigir það um mig en stundum á ég erfitt með að trúa því.

Vandamálin eru mörg. Ég hef reynt að ræða vandamálin ég vill gera allt til að laga þau. Það er alltaf einhver undirliggjandi pirringur í loftinu og ég er orðin svo bældur að ég tipla á tánum alla daga til að seigja ekki eitthvað eða gera eitthvað sem verður svo að miklu rifrildi.

Ég fæ reglulega að heyra það hvað henni finnist hún vera einangruð, hvað lífið hennar var mikið betra áður en við byrjuðum saman, hvað ég stjórna henni mikið og að hún sé orðin svo þreytt á þessu sambandi. Hvað ég dreg hana niður og hún sé orðin þunglynd út af mér.

Hún var í fíkniefnum þegar hún var ung og hefur notað fíkniefni nokkrum sinnum á þessum tíma sem við höfum verið saman. það hefur samt ekki verið neitt vandamál þannig séð. Hún drekkur soldið en ekkert mikið oftar en ég, hún drekkur sig þó mjög oft í blackout. Svo verður hún mjög geðill dagana á eftir. Ef ég seigi eitthvað um drykkjuna hennar þá springur allt og ég er að gera úlfalda úr mýflugu.

Þegar hún fer út á lífið með vinkonum sínum svarar hún mér yfirleitt ekki. ég satt að seigja veit ekkert hvað hún er að gera. En miðað við hvernig hún drekkur þá hef ég mjög miklar áhyggjur af henni. Ég fæ að heyra það að ég sé að stjórna henni og banna henni að eiga líf ef ég reyni að heyra í henni til að vita hvernig ástandið sé.

Ég banna henni ekki að fara út með vinkonum sínum, ég stjórna henni ekki  og ég geri allt sem ég mögulega get til að vera góður kærasti og sýna henni skilning.

Það að ég seigi henni mína skoðun á drykkjunni eða að ég hafi áhyggjur af henni þá vill hún meina að ég sé að stjórna henni. Hún hefur sagt að ef ég sé ekki sammála því sem hún sé að gera þá á ég ekki að seigja neitt, af því þá er ég að stjórna henni og reyna að breyta henni. Hún hefur sagt að ef ég geti ekki sætt mig við hana eins og hún er þá geti hún ekki verið með mér.

Ég veit ekki hvað ég á að gera. Ég er alveg ráðþrota. Ég elska hana svo mikið og hún er svo oft yndisleg. Hún hefur hótað því oft að hætta með mér vegna þess að ég er svona og hinsegin. þess á milli er ég besti maður sem hún hefur verið í sambandi með. Ég er orðin svo flæktur og veit ekkert í hvorn fótinn ég á að stíga.

Kynlífið okkar var mjög gott og ævintýragjarnt en núna svona síðasta eina og hálfa árið hefur það varla verið neitt.

Þegar við erum saman þá er það yfirleitt kalt og innihaldslaust. Oft finnst mér hún bara vilja drífa þetta af svo það sé frá. oft hefur hún alveg dottið úr stuði í miðjum klíðum og seigir að þetta og hitt sé ekki eins og það á að vera. Eitthvað sem var akkúrat það sem hún bað um fyrir ekki löngu síðan.

Hún vill ekki seigja mér hvað hún vill og hvað hún vill ekki en ef ég geri ekki nákvæmlega það sem hún vill þá er þetta ómögulegt. Mér líður eins og hún hafi engan áhuga kynferðislega. Bara allt frosið á milli okkar.

Mér finnst þetta samband oft snúast um það að ég sé að reyna hafa hlutina góða, seigi ekki mína skoðun eða hvað ég vill af ótta við það að það endi i rifrildi. Allt er svo gott út á við þess vegna get ég ekki rætt þetta við neinn.

Við lítum út fyrir að vera hamingju samasta parið í bænum. Ég er eflaust að gera fullt vitlaust og alls ekki fullkomin en ég er að reyna. þetta er orðið þannig að ég er ekki að byggja sambandið upp eins og ég held að það myndi gera okkur hamingjusöm heldur reyni ég að hafa hlutina þannig að hún verði ekki ósátt. Ég legg allt mitt undir til að halda friðinn en ekki byggja upp gott og fallegt samband sem ég þrái svo mikið.

Er hægt að snúa þessu við ? Er möguleiki að hún sjái að það er ekki allt bara mér að kenna ? er einhver framtíð í þessu sambandi ?

Ég er búin að reyna allt og ég get ekki lengur reynt mitt besta og fæ svo bara að heyra það hvað ég sé ómögulegur.

Ég vona að þú getir hjálpað okkur Elínrós

Kær kveðja, JEH

Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi.
Elínrós Líndal einstaklings- og fjölskylduráðgjafi. mbl.is/Tinna Magg

Sæll JEH og takk fyrir bréfið. 

Já það er leið að snúa þessu við og það eru margar leiðir sem þú getur farið til að öðlast ennþá betra samband við þig sjálfan og síðan maka þinn. 

Varðandi það hvort einhver framtíð er í sambandinu þá held ég að það sé undir þér komið að ákveða það. Það hljómar eins og kærasta þín sé búin að setja þér mörk þessu tengt: Ef þú hættir ekki að reyna að stjórna henni, þá ætlar hún ekki að vera í þessu sambandi lengur. Það er frekar skýrt. 

Þegar ég les yfir bréfið þitt þá finnst mér ein og þið hafið ekki gert með ykkur samning um hvað þið eruð að gera í þessu sambandi og eruð ef til vill ekki að nota samning um sanngjörn samskipti. 

Þú hefur allan rétt á að vera í sambandi með einstaklingi sem verður virkur í fíkn, en þá verður þú að sýna þessum einstaklingi skilning og virðingu að mínu mati. Það virkar ekki að fara í það hlutverk að feðra eða mæðra maka sinn. 

Spurningin sem þú getur spurt þig er: Af öllu sem ég gæti verið að gera, af hverju er ég að velja mér þetta?

Ég mæli með að þú gefir þér góðan tíma að finna út þetta svar. Vertu forvitinn og farðu á staði sem þú hefur ekki prófað að fara á áður. 

Stundum viljum við fá lausn við vanda okkar strax. Við viljum komast í okkar besta form á viku, verða rík innan árs og að laga sambandið okkar strax. Það getur virkað, en þegar við tökum okkur langan tíma í að laga eitthvað þá tekur vanalega langan tíma að eyðileggja það. 

Með nýja staði, þá langar mig að hvetja þig til að prófa að fara á 12 spora fund um meðvirkni og/eða alkóhólisma eða ást og sambönd. Prófaðu að sitja á 10 fundum í röð og sjáðu hvernig lífið og sambandið lítur út þá. 

Ég veit um mann sem gerði þetta og eftir tíu fundi þá var hann farinn að sjá lífið sitt í nýju ljósi. Hann fór að skilja að það sem hann var að upplifa sem erfiðleika í parasambandinu var í raun endurspilun á áföllum æsku hans. Það var mikil gjöf fyrir hann að geta unnið í því með aðstoð makans. 

Þegar við erum of upptekin af því hvernig sambandið ætti að vera og hvað maki okkar ætti að vera að gera, þá missum við stundum af töfrum dagsins í dag. Við missum af fegurðinni í mennskunni og missum af því að vera partur af fullkomlega ófullkominni veröld. Við missum af dýrmætum augnablikum með börnum okkar og vinum og missum af því að berskjalda okkur og vera einlæg, auðsæranleg og viðkvæm. 

Mín skoðun er sú að með hverju ástarsambandi er ákveðinn lærdómur. Þú getur lært allt sem þú þarft að læra með einni manneskju, eða nokkrum. Þitt er valið. Það er ekkert eitt betra en annað, þú finnur svarið innra með þér. 

Ef þú prófar að setja athyglina meira á þig í þessu sambandi. Þá getur þú skoðað hvað gerist þegar hún fer út og er að fara að hitta vinkonur sínar? Hvaða tilfinning kemur í líkamann? Hvað varstu gamall þegar þú upplifðir fyrst svona tilfinningu? Hver var þá að fara út og að fara frá þér? Hvernig brástu við þá?

Hvað varstu gamall þegar þú lærðir að ganga á eggjaskeljum? Hver var þá að stjórna í lífinu þínu? Hvernig var tilfinningin? Ef þú varst bara lítill strákur, hvað getur þú þá gert í dag til að verða hamingjusamur, glaður og frjáls? 

Þegar þig langar að byrja að stjórna - prófaðu þá að spyrja þig: Af hverju þarf hún að gera þetta eða hitt til að ég upplifi mig öruggan? Hvað ef öryggið býr innra með mér en ekki í öðru fólki?

Eins er áhugavert að fá spegil frá þeim sem við erum í sambandi með og spyrja: Er eitthvað sem ég er að gera sem virkar stjórnlaust á þig? Hvaða tilfinningar koma þá upp í þér? Hvað varstu gömul/gamall þegar það gerðist fyrst hjá þér?

Það er ekkert samband alveg fullkomið, eins er ekkert samband að mínu mati alveg ómögulegt. 

Það heila í ykkar sambandi gæti verið það að þið eruð skjól fyrir börnin ykkar. Þið eigið í góðum samskiptum við annað fólk og að samfélagið er með jákvætt viðhorf til ykkar. Þú ert hrifinn af kærustunni þinni og tilbúinn að vinna í þér til að auka líkurnar á að að sambandið virki. Það er allt mjög jákvætt.  

Góð par­aráðgjöf kemur fólki á ykkar stað oftast töluvert áfram í sjálfsvinnu. Svo af hverju ekki að fá þriðja aðila til að kenna ykkur sanngjörn samskipti og að skoða undir yfirborð sambandsins. Það er alltaf auðveldara að sjá galla maka okkar en að líta í eigin barm og fá heiðarlegan spegil frá fólki sem vill okkur vel í lífinu. 

Gangi þér vel. 

Kær kveðja, El­ín­rós Lín­dal. 

Ligg­ur þér eitt­hvað á hjarta? Þú get­ur sent El­ín­rós spurn­ingu HÉR 

mbl.is