Fór úr alkóhólísku hjónabandi yfir í að hjálpa fíklum

Jóhanna Björk Sigurbjörnsdóttir, sem er verkefnastjóri Frú Ragnheiðar á Suðurnesjum, er viðmælandi í hlaðvarpsþættinum Það er von. Hún er með BA í sálfræði, en er einnig fótaaðgerðarfræðingur og hefur lært NLP markþjálfun. Eftir að Jóhanna byrjaði í sálfræðinni langaði hana að kynnast betur heimi þeirra einstaklinga sem eru með fíknisjúkdóm. Hún hafði komið úr alkóhólista hjónabandi, en þekkti fíkniefni lítið og aldrei prófað þau sjálf.

Ferill hennar í sjálfboðastarfi Rauða Krossins hófst þegar hún fór að vinna í Konukoti. Henni fannst ótrúlega gefandi að vinna þar þó svo að aðstæður gætu verið erfiðar, en það fór allt eftir því hvernig blandan af einstaklingum var inni í húsi. Þegar bæði Konukot og Gistiskýli eru uppfull þurfa einstaklingar að deila herbergjum með öðrum, og þá er passað að setja svipaða einstaklinga saman í herbergi.

Aðspurð að því hvernig stemmingin sé í þessum úrræðum, segir hún hana misjafna.

„Þau sem eru að nýta sér þessi úrræði geta verið í mjög mismunandi ástandi”, segir Jóhanna og bætir við að það fari eftir því hvaða aðgang einstaklingarnir hafa af efnum og hvar þau séu stödd í mánuðinum.

Gistiskýlið og Konukot eru lokuð yfir daginn, og reyna þau sem vinna þar að útbúa fólk vel áður en þau fara út í daginn, bæði með hlýjan fatnað og næringu. En er ekki erfitt að reka fólk út klukkan 10 á morgnana í allskonar veðrum og vindum?

„Þú þarft að nálgast þessa einstaklinga af mýkt, það þýðir ekki að vera með nein læti,“ segir Jóhanna, og það er greinilegt að hún er mikil tilfinningavera. Hún hélt kannski að þetta starf myndi ekki eiga við sig, en þakklætið sem hún finnur frá þeim einstaklingum sem eru þarna er henni gífurlega gefandi og mikilvægt.

Eftir að hafa verið í þrjú ár í sjálfboðastarfi hóf Jóhanna störf hjá Frú Ragnheiði.

„Frú Ragnheiður er í raun heilbrigðisþjónusta á hjólum,“  segir Jóhanna og bætir við að þetta sé skaðaminnkunarúrræði þar sem þau eru með hjúkrunarfræðinga, lækna, félagsráðgjafa og sjálfboðaliða sem hjálpa meðal annars jaðarsettum einstaklingum. Þeirra markmið er að  veita nálaskiptaþjónustu, taka á móti notuðum búnaði, samfélagslega skaðaminnkun svo nefnd séu einhver dæmi. 

Jóhanna talar um viðhorfsbreytingu gagnvart einstaklingum með fíknivanda og það sjáist bæði í styrkjum sem Frú Ragnheiður fær á landsvísu og samstarf meðal fagaðila sem mögulega mun breytast enn frekar með afglæpavæðingu neysluskammta.

„Ef þú færð krabbamein, þá ert þú ekki krabbameinið. Sama með einstakling sem notar vímuefni, hann er ekki fíkniefnið. Þessir einstaklingar eiga alveg rétt á mannréttingum alveg eins og allir aðrir.”

Hægt er að hlusta á þáttinn á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál