„Ég hef alltaf verið að gera eitthvað sem ég má ekki“

Pálmi Snær Rúnarsson og Hlynur Kristinn Rúnarsson umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins, Það …
Pálmi Snær Rúnarsson og Hlynur Kristinn Rúnarsson umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins, Það er von.

Viðmælandi hlaðvarpsþáttarins að þessu sinni er Pálmi Snær Rúnarsson. Hann segir sögu sína í þættinum en þegar hann var 6 ára gamall var hann sendur á fósturheimili og flakkaði á milli þeirra næstu árin. Hann segist hafa upplifað sig einan í heiminum og að enginn vildi hann. Það skapaði tómarúm innra með honum. 

„Ég hef alltaf verið að gera eitthvað sem ég má ekki,“ segir hann og játar að það hafi verið þetta sem hann gerði til að fylla upp í tómarúmið. Hann lærði ungur að setja upp grímu og bregða sér í hlutverk til þess að vera besta útgáfan fyrir annað fólk, en hugsaði aldrei út í að vera besta útgáfan fyrir hann sjálfan.

Þegar Pálmi varð 13 ára fór hann að selja fíkniefni án þess að vera að nota þau sjálfur. Hann naut þess að fólk sótti í hans félagsskap og fannst gott hversu vinsæll hann var.

„Ég fattaði ekki að fólk var ekkert að sækja í mig, fólk var bara að sækjast í að nota mig.“

Það var ekki fyrr en tæpum 9 árum seinna þegar hann fór sjálfur að nota fíkniefni að það opnaðist nýr heimur fyrir honum. Hann var ekki lengi að fara „all-in“ í neyslu og náði sínum fyrsta botni einu og hálfu ári eftir að hann byrjar í neyslu. Þá vaknaði hann nakinn á lögreglustöð og hafði ekki hugmynd um hvað hafði gerst eða hvað hann hafði verið að gera. Hann komst svo að því að hann hefði sent þáverandi kærustu sinni skilaboð um að hann hafi ætlað að taka lyfjakokteil og náði hún að hringja á sjúkrabíl fyrir hann.

Ekki líður langur tími þangað til hann upplifi næta botn. Þá rankaði hann við sér á dýnu á gólfinu heima hjá foreldrum sínum og hugsaði með sér hvert hann væri eiginlega kominn í lífinu. Hann hafði misst kærustuna sína og allt í kringum sig í lífinu. Hann var alltaf að laumast og fela neysluna og alltaf í einhverju leikriti gagnvart öllum í kringum sig. Hann var líka óheiðarlegur við sjálfan sig og horfðist ekki í augu við vandann sem hann glímdi við. 

Þetta stoppaði hann þó ekki og hann hélt áfram að vera í neyslu eða þangað til hann dó í baði. Móðir hans kom að honum og pumpaði í hann lífinu á ný. Eftir þetta fór hann í sína fyrstu meðferð. Meðferðirnar áttu þó eftir að verða fleiri en í dag hefur hann verið edrú síðan í oktober 219. Þá vaknaði hann í fangaklefa og hugsaði með sér að hann yrði að gera eitthvað í málunum. Eftir að hafa verið edrú í þrjár vikur komst hann inn á Hlaðgerðarkot og hefur náð að vera í bata síðan. 

Hægt er að hlusta á hlaðvarpsþáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu svarar spurningum lesenda.

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum lesenda