Þriggja daga brúðkaupshátíð Guðrúnar og Hauks

Guðrún Ingibjörg Þorgeirsdóttir, læknir í sérnámi í bráðalækningum, og Haukur Smári Hlynsson, svæfingahjúkrunarfræðingur á svæfingadeild Landspítala í Fossvogi, gengu í hjónaband á Siglufirði hinn 19. júní í fyrra. Draumurinn var að halda brúðkaupið við Como-vatn á Ítalíu en vegna faraldursins varð Siglufjörður fyrir valinu. 

Það eru fjölmargir sem fylgjast með Dr. Lady Reykjavík á Instagram og hafa þá orðið varir við einstaklega fallegt brúðkaup sem Guðrún Ingibjörg hélt í fyrra með sínum heittelskaða Hauki Smára.

„Við vorum náttúrlega alveg ótrúlega heppin, það kom akkúrat glufa í smitvarnaráðstafanir þarna um það leyti sem við giftum okkur svo við gátum í raun haldið brúðkaupið alveg nákvæmlega eins og okkur langaði til. Eina sem við fundum aðeins fyrir var að staðir sem seldu vín máttu bara hafa opið til klukkan eitt og veislan féll víst undir það, svo við þurftum að segja þetta gott á slaginu eitt. En eftir á að hyggja var það í rauninni bara ágætt, allir voru enn fallegir og í góðu skapi þegar þeir fóru heim. Amma sagði alltaf „hætta ber leik þá hæst stendur“ og það er nokkuð til í því!“ segir Guðrún.

Guðrún og Haukur kynntust á bráðamóttökunni í Fossvogi sumarið 2018 þegar þau voru bæði þar í sumarvinnu.

„Það var í rauninni algjör klisja en samt svo fallegt. Haukur var þá hjúkrunarnemi og ég læknanemi. Hann bauð mér með sér í sumarfögnuð hjúkrunarfræðinganna og eftir það kvöld varð ekki aftur snúið,“ segir hún.

Af hverju ákváðuð þið að gifta ykkur á Siglufirði?

„Það hafði verið minn draumur að gifta mig við Como-vatnið úti á Ítalíu, sem hefur verið uppáhaldssumardvalarstaðurinn minn nú síðustu árin, og Haukur var til í það þegar við ræddum þá drauma í upphafi sambandsins. En svo bað hann mín þarna í apríl 2020 þegar kórónuveirufaraldurinn var í raun nýbyrjaður og engin leið að sjá fyrir endann á honum. Okkur fannst alltof áhættusamt að byrja að plana brúðkaup á Ítalíu fyrir sumarið 2021, en við vildum heldur ekki bíða mörg ár eftir að gifta okkur. Þannig að þá ákváðum við að geyma Ítalíudrauminn en finna annan stað hér heima á Íslandi og reyna að búa til ákveðna „útlandastemningu“ með því að biðja fólk að vera með okkur aðeins lengur ef það gæti og hafa þriggja daga hátíð í stað eins dags eins og venjan er.

Við fórum svo í hringferð sumarið 2020 til að finna staðinn og heilluðumst bæði samstundis af fegurðinni á Siglufirði og eftir það kom enginn annar staður til greina. Svo var það auðvitað sterkur punktur líka að á Siglufirði er allt til alls hvað varðar gistingu og veitingar, sem hentaði okkur mjög vel.“

Undirbúningur brúðkaupsins gekk vonum framar.

„Það gekk mjög vel að plana allt. Við vorum í rauninni sammála um flest nema kannski fjárhagsáætlunina þarna í upphafi. Ég er aðeins meiri eyðslukló í eðli mínu en Haukur. Svo þegar við fórum af stað og sáum bæði svart á hvítu hvað hlutirnir kosta raunverulega þá vorum við nú fljót að komast á sömu blaðsíðu með það líka. Við vorum bæði í rauninni sammála um að gera þetta á þann hátt sem okkur raunverulega langaði til, frekar en að spara við okkur og sjá svo kannski eftir því seinna.

Síðan má auðvitað ekki gleyma því að við fengum hana Alinu Vilhjálmsdóttur til liðs við okkur en hún rekur brúðkaupsskipulagsfyrirtækið Og smáatriðin. Við höfðum upphaflega samband við hana til að hanna fyrir okkur boðskortin, sem hún gerði listilega vel, en við fundum fljótt hvað hún hefur ótrúlega gott auga fyrir skreytingum og skipulagi líka, þannig að við réðum hana til að sjá um allt skipulagið fyrir brúðkaupsdaginn, samskipti við söluaðila og hönnun á skreytingum. Við vorum með ákveðna sýn um það hvernig við vildum hafa brúðkaupið, okkur langaði að skapa ítalskt ævintýraland á Íslandi sem brúðkaupsgestirnir gengju saman með okkur inn í. En það hefði aldrei gengið án Alinu. Hún tók allar okkar óskipulögðu hugmyndir og gerði þær að veruleika. Við munum aldrei gleyma andartakinu þegar við komum inn í veislusalinn eftir að hún skreytti hann því það var bókstaflega eins og að stíga inn í annan heim.“

Þriggja daga hundrað manna brúðkaupshátíð

Er flóknara að halda brúðkaup úti á landi en í miðborginni?

„Já, alveg klárlega. Við höfum svo sem auðvitað engan samanburð en ég held að hvorugt okkar hafi í raun áttað sig á því hvað við vorum að koma okkur út í þegar við ákváðum að halda þriggja daga og hundrað manna brúðkaupshátíð í 380 kílómetra fjarlægð frá borginni. Það verður hreinlega allt flóknara því það þarf auðvitað að koma öllu á staðinn sem getur verið hægara sagt en gert. Það var til dæmis ákveðið áhættuatriði að keyra með brúðartertu á fjórum hæðum yfir allt landið en það gekk! Blómaskreytirinn okkar keyrði síðan norður með heilan kælibíl fullan af lifandi blómum og viðburðastjórinn okkar, hún Alina, var með tengivagn aftan í sínum bíl fyrir allar skreytingarnar. Við vorum síðan með fullan bíl sjálf og foreldrar okkar beggja einnig. Þetta hefði aldrei gengið öðruvísi.“

Siglufjörður varð fyrir valinu, þar sem hægt er að finna allt á einum stað.

„Frábærir gistimöguleikar eru þar í boði, allt frá tjaldstæði upp í lúxushótel, heimsklassaveitingaþjónusta á Hótel Sigló, falleg kirkja og yndisleg náttúra. Það auðveldaði skipulagninguna töluvert að hafa allt við höndina sem Siglufjörður hefur upp á að bjóða og þurfa sem dæmi ekki að hugsa út í það að ferja matinn yfir í veisluna eða leigja rútur fyrir gesti eins og margir þurfa að gera sem gifta sig utan borgarinnar.“

Það er alltaf aukakostnaður sem fylgir fjarlægðinni.

„Við fluttum til dæmis fimmtán starfsmenn með okkur norður, tvo ljósmyndara, tvo upptökumenn, blómaskreyti og aðstoðarmann hennar, förðunar- og hársnyrti, viðburðastjóra og prest, auk Stjórnarinnar, sem telur fimm manns auk hljóðmanns. Það þarf auðvitað að borga fólki fyrir aksturinn og svo þurftu flestir þessara starfsmanna að gista að minnsta kosti eina nótt vegna fjarlægðarinnar. Þannig að fjarlægðin vissulega breytti fjárhagsáætluninni örlítið!“

Mæla með upplifun fyrir gesti í aðdraganda brúðkaups

Það er forvitnilegt að vita hvernig dagskráin var skipulögð fram að brúðkaupi.

„Dagskráin hófst að kvöldi 17. júní sem var fimmtudagur en þann dag voru flestir gestanna að tínast í bæinn. Við hittumst þá um kvöldið í skógræktinni í botni Siglufjarðar, gengum saman að Leyningsfossi og grilluðum góðan mat á útisvæðinu þar. Svo var útilegustemning fram eftir kvöldi með leikjum og söng. Á þessum tíma hafði maður ekki séð megnið af stórfjölskyldunni í um ár svo það setti sinn brag á kvöldið sem einkenndist af langþráðum endurfundum.

Föstudagurinn hófst svo á sögugöngu um Siglufjörð en við Haukur erum svo heppin að inn í fjölskylduna mína eru giftir tveir Siglfirðingar sem tóku það að sér að rölta með okkur um bæinn og rifja upp sögu Siglufjarðar. Eftir sögugönguna kíktum við inn á Segul 67 brugghús í skoðunarferð og bjórsmakk sem var afskaplega vel heppnað enda einhvern besta bjór landsins þar að finna,“ segir Guðrún.

Að bjórsmakkinu loknu tók við ratleikur um bæinn og endaði svo kvöldið inni á Hannes boy í góðu „pub quiz“ sem vakti mikla lukku.

„Þriðji dagurinn var síðan brúðkaupsdagurinn sjálfur. Við reyndum eins og hægt var að hafa dagskrána þannig að þar væri eitthvað fyrir alla – sumir úr yngri hópnum slepptu til dæmis sögugöngunni en tóku þeim mun betur á því í pöbbkvissinu og öfugt, auk þess sem börnin höfðu mjög gaman af ratleiknum.

Ef einhverjir eru að hugsa um að búa til nokkurra daga dagskrá í kringum brúðkaupið sitt þá mælum við heils hugar með því. Við eigum ómetanlegar minningar frá dögunum á undan brúðkaupinu og það bjó til einstaka stemningu að við værum öll saman í bænum þessa daga, áður en við enduðum á hápunktinum á laugardeginum. Maður nær heldur aldrei að tala almennilega við alla gestina sína í 100 manna brúðkaupsveislu en þegar hátíðin nær yfir þrjá daga er nægur tími til að njóta og spjalla við alla gestina.“

Það byrjar ekkert fyrr en brúðhjónin eru mætt

Hvað getur þú sagt okkur um brúðkaupsdaginn sjálfan?

„Brúðkaupsdagurinn var laugardagurinn 19. júní. Við byrjuðum daginn með bröns fyrir nánasta fólkið okkar um morguninn. Haukur með bræðrum okkar beggja, feðrum og bestu vinum og ég með mæðrum okkar, mágkonum, frænkum og bestu vinkonum. Þar vorum við með litlar gjafir fyrir alla, okkur fannst skipta máli að fólkið okkar fyndi hversu vænt okkur þykir um þau og að þau skyldu koma til Siglufjarðar til að fagna ástinni með okkur.“

Athöfnin sjálf átti að byrja um fjögur en seinkaði aðeins, því brúðhjónin höfðu ákveðið að skrifa heit hvort til annars.

„Ég var auðvitað á síðustu stundu með heitin mín og var bókstaflega að skrifa þau um klukkan fjögur. Fólkið í kringum mig var farið að ganga um gólf en ég var alveg róleg því það er það góða við brúðkaup; það byrjar ekkert fyrr en brúðhjónin eru bæði mætt. Þannig að það fór allt vel.

Sr. Sigurður Árni Þórðarson Hallgrímskirkjuprestur gaf okkur saman og athöfnin var svolítið óhefðbundin, bæði af því að við lásum bæði okkar eigin heit, sem er ekki algengt hér heima, en svo fengum við líka frænku mína og vinkonu okkar til að lesa sitt ljóðið hvor; annars vegar íslenskt ástarljóð en hins vegar enska textann við Leather and Lace sem Stevie Nicks syngur. Það lag er í sérlegu uppáhaldi hjá okkur en textinn sómir sér vel einn og sér.“

Guðrún og Haukur lögðu mikið upp úr því að athöfnin endurspeglaði þau og sambandið, og að andrúmsloftið væri persónulegt en ekki bara fyrirframákveðið handrit.

„Eftir athöfnina tók við fordrykkur og pinnamatur fyrir gestina okkar á Kaffi Rauðku meðan við Haukur fórum í bíltúr um bæinn á brúðarbílnum, sem var gamall vörubíll frá síldartímanum í eigu Síldarminjasafnsins sem við vorum svo heppin að fá lánaðan fyrir daginn. Við fórum síðan beint í brúðarmyndatökuna þaðan og komum í veisluna um kvöldmatarleytið. Undir borðhaldi var töluvert af ræðum og skemmtiatriðum frá fólkinu okkar og það var dásamlegt að sjá hversu mikla vinnu fólk hafði lagt í það.“

Kvöldinu lauk svo með sveitaballi þar sem hljómsveitin Stjórnin lék fyrir dansi.

„Það var sannarlega punkturinn yfir i-ið að fá uppáhaldshljómsveitina okkar til að spila á þessum degi,“ segja þau.

Allir fundu eitthvað við sitt hæfi í veislunni

Ekkert var til sparað í skreytingum.

„Við lögðum ríka áherslu á að hafa mikið af lifandi blómum, bæði í kirkjunni og veislunni, og þau voru í raun stjarnan í skreytingunum. Við vorum síðan með borð og stóla úr fallegum dökkum við sem við ákváðum að dúka ekki heldur leyfa að njóta sín en settum ferskjulitaða renninga langsum á borðin og lifandi blóm þar yfir. Til að ná hæð í skreytingarnar notuðum við síðan gyllta antíkkertastjaka hér og þar og þannig náðum við líka fram rómantísku og notalegu andrúmslofti. Það setti síðan punktinn yfir i-ið að við leigðum gyllt hnífapör til að nota í stað þessara venjulegu silfruðu sem fylgdu salnum. Þannig tónaði allt vel saman.

Sumt gátum við síðan endurnýtt. Við vorum til dæmis með um tveggja metra háar blómasúlur sem römmuðu inn innganginn í kirkjuna fyrir athöfnina en þær voru svo fluttar yfir í veisluna og voru þá bakgrunnur fyrir háborðið. Þar á milli var svo strengt skjaldarmerkið okkar sem Alina hannaði fyrir okkur, haukur og ugla, sem er gælunafnið mitt, með lækningastafinn á milli og hlustunarpípu sem tengir þau saman. Enda var það læknisfræðin sem leiddi okkur saman í upphafi,“ segir Guðrún.

Hvað var á boðstólum í veislunni?

„Fyrir okkur var mikilvægt að allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi þannig að við völdum að hafa hlaðborð frekar en að bera fram disk fyrir hvern og einn. Ég er sjálf grænmetisæta og svo eru grænkerar í hópi okkar nánustu vina og fjölskyldu þannig að það varð að vera eitthvað fyrir alla. Hlaðborðunum var skipt í þrennt þannig að fyrst var forréttahlaðborð þar sem voru meðal annars ýmsar tegundir af salötum, carpaccio, reyktur og grafinn lax og fleira. Á aðalréttaborðinu voru ofnbakaðar rauðbeður, nætureldað naut, rósmarínlegið lambalæri, kjúklingabringur, hægeldaður þorskur og ýmsar tegundir af meðlæti svo sem kartöflugratín, grænmeti, villisveppasósa og béarnaisesósa. Að lokum var svo eftirréttaborðið en þar voru rabarbarakaka, frönsk súkkulaðikaka, ávaxtasalat, chantilly-rjómi og hvítsúkkulaðiostakaka. Svo vorum við auðvitað með brúðartertu líka sem var frönsk súkkulaðikaka með saltkaramellu og lakkrísbitum milli hæða og hjúpuð með smjörkremi, frá Sætum syndum. Hvorugt okkar er sérlega hrifið af þessum hefðbundnu hvítu svampkökum með niðursoðnum ávöxtum á milli sem eru oft vinsælar í fermingum og brúðkaupum, þannig að það var okkur mikilvægt að velja brúðartertu sem væri aðeins óhefðbundin að því leyti.

Við sáum sannarlega ekki eftir því, ég er ekki frá því að þetta hafi verið besta kaka sem ég hef smakkað!“ segir Guðrún.

Haukur lét sérsauma á sig fötin hjá Kölska

Hvar fenguð þið brúðkaupsfötin ykkar?

„Kjóllinn minn var sérsaumaður frá Brúðarkjólaversluninni Loforði en hann var í raun tvöfaldur, því mig langaði að vera í síðum kjól með löngum slóða í athöfninni sjálfri en nennti síðan ekki að draga slóðann á eftir mér alla veisluna. Þannig að kjóllinn sjálfur náði niður á miðja kálfa og var í klassísku 50's-sniði, aðsniðinn að ofan en pilsið mjög vítt og tjull undir. En svo gerðum við stórt yfirpils sem hnepptist yfir kjólinn í mittið og þannig varð kjóllinn gólfsíður fyrir athöfnina og langur slóði á eftir. Slörið keypti ég hjá Loforði líka og það var rétt um fjögurra metra langt. Það var heilmikil kúnst að setjast inn og út úr bíl með það í eftirdragi!

Skórnir mínir voru frá Christian Louboutin og brúðarveskið hvítt veski í Díönu-stílnum frá Chanel. Það er reyndar líklega svolítið óvanalegt en veskið var fyrsti hlutinn af brúðkaupsfötunum sem ég keypti, löngu áður en ég keypti kjólinn. Ég er náttúrlega forfallinn töskuaðdáandi og það jafnast ekkert á við Chanel þegar falleg veski eru annars vegar. Það er hins vegar sjaldgæft að finna vel með farin hvít „vintage“-veski svo ég hoppaði hæð mína í loft upp þegar ég fann þetta fallega Chanel-veski í Díönu-stílnum sem mig hafði lengi langað til að eignast þegar við vorum nýtrúlofuð og það var fullkominn grunnur að brúðkaupsstílnum mínum. Skartið mitt var síðan frá gullsmiðnum Elísu Mjöll sem rekur Mjöll í Hamraborg, fyrir utan eyrnalokkana sem voru gamlir Dior-eyrnalokkar sem ég átti fyrir og hafa lengi verið í uppáhaldi.“

Haukur lét sérsauma sín föt hjá Kölska.

„Þau voru úr brúnu tvídefni, jakkaföt með vesti í stíl. Skyrtan og bindið voru þaðan einnig en skórnir aftur á móti frá Loake sem Kormákur og Skjöldur selja hér í Reykjavík,“ segir hann.

Giftingarhringana létu þau smíða hjá Mjöll í Hamraborg.

Hvað með hár og förðun?

„Ásthildur Gunnlaugsdóttir förðunarfræðingur sá um bæði förðunina mína og hárgreiðslu. Hún er algjör fagmaður og mér fannst frábært að hún gæti gert hvort tveggja, sérstaklega í ljósi þess að við vorum svo langt úti á landi og þá skiptir hver aukamanneskja máli.“

Gott að tvöfalda fjárhagsáætlunina til að fá raunhæfa tölu

Getið þið gefið góð ráð varðandi hvernig best er að plana brúðkaup?

„Við mælum með því að vera opin fyrir því að hlusta á hugmyndir makans, þótt þær séu kannski frábrugðnar þínum eigin. Þetta verður að vera hátíð beggja, ekki bara annars aðilans. Við mælum einnig með því að fólk gefi sér góðan tíma. Það tekur allt meiri tíma en maður heldur og 12 mánuðir til að skipuleggja brúðkaup er í rauninni lágmark til að maður hafi góðan tíma fyrir allt og geti bókað það sem þarf, með þægilegum fyrirvara.

Eins mælum við með að fólk leyfi sér frekar meira en minna, en ekki þó stefna sér í skuldir, heldur að safna aðeins lengur í brúðkaupssjóðinn sinn. Það verður alltaf þess virði. Alina, sem skipulagði brúðkaupið með okkur, ráðleggur síðan að gera fjárhagsáætlun fyrir brúðkaupið og tvöfalda svo þá upphæð til að fá raunhæfa tölu. Okkar fjárhagsáætlun var reyndar ekki alveg svo galin, tvöfaldaðist ekki alveg en við fórum líklega um 50% fram yfir áætlun þó. Ég held að það sé samt góð þumalputtaregla að muna að flest er dýrara en maður heldur og gott að gera ráð fyrir aukasjóði í brúðkaupsplaninu. Það er ekki gaman að vera hálfnaður með brúðkaupsplanið þegar maður kemst að því að draumaskreytingarnar kosta þrjár milljónir en ekki eina og þurfa þá að sætta sig við eitthvað annað en það sem mann dreymdi um, sem margir lenda í, því fjárhagsáætlunin var ekki skoðuð nægilega vel áður en farið var af stað með skipulagninguna.“

Hjónaband eins og glænýtt ævintýri

Hver tók ljósmyndir?

„Ljósmyndarahjónin Styrmir og Heiðdís tóku myndirnar okkar en þau hafa náttúrlega algjörlega ómetanlega hæfileika þegar kemur að því að ná akkúrat rétta augnablikinu og sjónarhorninu. Okkur fannst líka frábært að þau væru tvö og þá gátu þau fylgt okkur báðum alveg frá morgni í undirbúningnum þegar við vorum hvort í sínu lagi og svo fram eftir öllum deginum, alveg þar til veislunni lauk um nóttina. Góður ljósmyndari er að okkar mati nauðsynleg fjárfesting fyrir brúðkaupsdaginn. Dagurinn líður svo hratt og myndirnar eru í raun það sem stendur eftir, bæði fyrir mann sjálfan og svo seinna börnin manns og barnabörn.

Við vorum síðan líka með upptökumann, hann Michal sem rekur M Videography, og kollega hans. Við höfðum velt því svolítið fyrir okkur hvort við ættum að sleppa upptökunni til að spara þann kostnaðarlið en hugsuðum svo í rauninni aftur að þessi augnablik líða svo hratt og mann langar að gera þau eilíf á einhvern hátt. Myndböndin sem komu frá deginum eru öll hreinlega dásamleg svo við sjáum sannarlega ekki eftir því að hafa fengið bæði ljósmyndir og upptöku.“

Aðspurð hvað geri hjónaband innihaldsríkt segir Haukur: „Maður fær að eyða tíma með þeirri manneskju sem maður elskar mest og okkur fannst það að ganga í hjónaband í rauninni vera eins og glænýtt ævintýri sem við fáum að upplifa saman. Við erum alls ekki sammála því að rómantíkin minnki við að ganga í hjónaband. Síðasta ár hefur verið það ástríkasta og besta sem við höfum átt hingað til.“

Guðrún er sammála þessu og bætir við: „Samskiptin eru síðan auðvitað lykilatriði. Ekkert hjónaband er eilífur dans á rósum en þegar samskiptin eru í lagi og kærleikur og gagnkvæm virðing fyrir sjónarmiðum makans sett í forgrunn verða vandamálin í raun tækifæri til þess að endurnýja nándina og kynnast maka sínum enn betur, frekar en að þau stíi í sundur. Þannig höfum við allavega upplifað það.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál