Gísli og Eva fundu hvort annað eftir makamissi

Gísli Álfgeirsson og Eva Dís Þórðardóttir kynntust eftir að hafa …
Gísli Álfgeirsson og Eva Dís Þórðardóttir kynntust eftir að hafa bæði misst maka sína.

Flest allir þeir sem hafa misst maka sjá ekki fyrir sér að hefja nýtt samband með öðrum einstaklingi, mörgum finnist það algjörlega útilokað að geta orðið ástfangin aftur. En stundum þá banka upp á nýjar tilfinningar og oftar en ekki öllum að óvörum. Í nýjasta hlaðvarpsþætti Sorgarmiðstöðvar fékk Karólína Helga þau Evu Dís Þórðardóttur og Gísla Álfgeirsson í spjall.

Eva Dís og Gísli eiga saman fallega sögu, bæði um sorg og áfall en líka sögu um von og ást eftir makamissi. Þau ræða á opinskáan og einlægan hátt um reynslu þeirra að hefja nýtt ástarsamband eftir makamissi. Tilfinningarnar sem fylgja því að verða ástfangin aftur, skömmin, samviskubitið, ástina og nýjan veruleika. Mikilvægi þess að vanda sig gagnvart börnunum, ættingjum og vinum. Virða tilfinningar allra, þolinmæðina og skilninginn Og staðreyndina um að fyrrum maki fylgi með út ævina, bæði í nýju sambandi sem og lífinu öllu.

Mikilvægt að geta rætt erfiðar tilfinningar

Það að vera i hópastarfi er styðjandi og hjálpar til við að geta tekist á við þessar flóknu tilfinningar og hugsanir eftir makamissi. Í stuðningshópnum sem þau Gísli og Eva voru í þá hjálpaði það mikið að geta rætt þessar flóknu og erfiðu tilfinningar sem geta tengst t.d. óuppgerðu málum og almennt samskiptum við makann sem fallinn er frá. Það er gott að finna að það eru fleirum sem líður eins.

„Það að vera þarna og heyra aðra segja frá þessum skrítnu tilfinningum sem að við fáum og finna það að þú ert ekki einn eða ein um þessar tilfinningar er gulls ígildi. Það gerir það að verkum að þér líður aðeins betur í sálinni. Vegna þess að þegar við missum. Það var allavega mín upplifun þannig. Það er svo ótrúlega mikið af flóknum tilfinningum í kringum þetta. Ég held að það sé sérstaklega kannski þegar maður er að missa maka.“

Gísli og Eva.
Gísli og Eva.

Ekkert hjónaband fullkomið

Það geta leynst margar flóknar tilfinningar hjá eftirlifandi maka, enginn er fullkominn og ekkert hjónaband var eða er fullkomið. Það flæki oft tilfinningar að látnir ástvinir fara oft í einhvers konar dýrðlingatölu.

Eva segir meðal annars að það sé jú mjög eðlilegt að látnir ástvinir okkar fái sérstakt sæti, með minningum sem ylja og allri ástinni sem við berum til þeirra en enginn sé né hafi verið fullkominn. Sérstaklega þeir sem hafi misst maka, eiga mögulega líka minningar um „samskipti sem voru kannski ekki endilega frábær”. Flest allir sem hafa misst ástvin geta tengt við þetta.

„Það er oft þannig að ástvinir okkar sem eru látnir verða við andlátið þessi fullkomna vera sem gerði allt rétt,” segir Gísli, þegar spurt var frekar út í þetta. „Olga mín var bara venjuleg kona og við vorum tveir einstaklingar í sambandi. Við vorum ekkert endilega alltaf sammála. Það er allt í lagi að muna það líka. Hún hafði ekki alltaf rétt fyrir sér. Ef við ætlum að ganga inn í samband með nýjum maka. Með hugmyndir okkar um að fyrri makinn hafi verið lýtalaus í öllu sínu þá mun ekkert samband ganga upp”.

Þessar tilfinningar og þessa líðan megi alveg ræða meira út á við því svona hugsanir og minningar geti oft valdið vanlíðan ef þær fá ekki farveg. Bæði Eva Dís og Gísli tala um að þau séu í tengslum við fyrri maka hvors annars, leiti ráða hjá þeim þegar kemur að samskiptum og uppeldi barnanna. Þau sjái maka hvors annars í börnunum og það ylji þeim. Einnig séu þau í dag, í raun að lifa lífi fjögurra einstaklinga, halda í tengslum við ættingja og vini Stebba og Olgu, eigi því fjórar fjölskyldur, nokkur sett af foreldrum og tengdaforeldrum og heilan hafsjó af vinum. Þau telji sig einstaklega rík og hlakki mikið til framtíðarinnar saman.

Þátturinn er aðgengilegur á hlaðvarpsvef mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál