Óþægilega margir birtust í minningargreinum blaðanna

Ögmundur Jónasson.
Ögmundur Jónasson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Núna duga engar millileiðir lengur. Tímaglas spilakassanna, „casino“ á Íslandi, er að renna út,“ segir Ögmundur Jónasson, fyrrverandi ráðherra og núverandi aktivisti, í viðtali við hlaðvarpsþáttinn Spilavandi. Ögmundur hefur í áratugi látið sig málefni spilafíkla varða. Í þættinum ræðir hann meðal annars frumvarp að Happdrættisstofnun sem hann lagði fram í ráðherratíð sinni, rekstraraðila spilakassa og spilakort.

Ögmundur var kosinn inn á þing vorið 1995, þá undir merkjum Alþýðubandalagsins. Fyrirrennari hans á þingi, Guðrún Helgadóttir, hafði látið málefni spilafíkla sig varða og Ögmundur ákvað að halda því verki áfram. Hann kynnti sér því spilakassarekstur og happdrættismarkaðinn ofan í kjölinn.

„Eitt sem ég tók strax eftir þegar að málin voru reifuð á þingi, þegar ég tók þau upp í þingsal, að þá tæmdist þingsalurinn. Ég spurði sjálfan mig: Hvernig stendur á því? Ástæðan var sú að menn vildu ekki móðga rekstraraðila spilakassanna; Rauða krossinn, hjálparsveitirnar, Háskóla Íslands. Fólk vildi ekki segja neitt sem kæmi þessum aðilum úr jafnvægi. Þetta var fyrsta vísbendingin um að þarna væri á ferðinni málaflokkur sem þyrfti að horfa verulega til,“ segir Ögmundur.

Fljótlega eftir að Ögmundur komst inn á þing byrjaði hann að bjóða til opinna, vikulegra funda fyrir spilafíkla og aðstandendur þeirra. Þá fyrst gerði hann sér grein fyrir alvarleika vandans.

„Ég fór að sjá óþægilega marga sem komið höfðu á fund í minningargreinum blaðanna. Það var fólk sem var ekki komið á háan aldur en vildi ekki lifa lengur,“ segir Ögmundur. „Þegar ég áttaði mig á hve alvarlegur þessi vandi var þá herrtist ég allur. Ég hét því að ég skyldi ekki láta af þessari baráttu þar til eitthvað hefði gerst.“

Ögmundur varð heilbrigðisráðherra árið 2009 og setti þennan málaflokk á oddinn - en ekkert gerðist.

„Í fyrsta lagi vildi ég koma á eftirliti. Eftirlit með þessum málum var og er í algjörum molum,“ segir Ögmundur og heldur áfram. „Í annan stað þá sá ég það, sem Norðmenn höfðu komið auga á og gert úrbætur, að rekstraraðilar voru að keppast innbyrðis. Þeirra samkeppni sneri að því að fá afkastameiri kassa. Kassa sem voru ágengari við spilafíkilinn. Þetta er einn af ljótustu og óábyrgustu þáttunum í þessum spilarekstri; að Rauði kross Íslands og hjálparsveitirnar séu að hafa fé af fólki og gera það með þessum hætti.“

Annað sem Ögmundur vildi setja á stokk var svokölluð Happdrættisstofnun.

„Ég kom með tillögu í þinginu, alltof seint því miður. Hún fólst í því að það ætti að setja alla þessa starfsemi undir einn hatt. Þetta er norska leiðin. Þannig að þessir aðilar ynnu saman. Það var framtíðarsýnin. Svo yrði sett á laggirnar það sem ég kallaði Happdrættisstofnun. Þetta var ægilegur hlutur að fá nýja stofnun fannst mönnum. Þetta var keyrt í kaf í þinginu og málið dagaði uppi.“

Ögmundur fagnar stofnun Samtaka áhugafólks um spilafíkn sem að hans mati hafa breytt miklu í umræðunni síðustu ár. Þá finnur hann einnig umbyltingu í þjóðfélaginu; rekstraraðilar hafi sumir hverjir hætt með spilakassa og vitund almennings sé meiri.

„Það á bara eftir að stimpla þetta inn í vitund stjórnmálaflokkanna.“

Ögmundur er ómyrkur í máli þegar að talið berst að þeim aðilum sem hagnast á spilakassastarfsemi.

„Mér finnst forkastanlegt að stofnanir á borð við Háskóla Íslands, okkar æðstu menntastofnun, að hann skuli ekki sjá sóma sinn í að láta loka þessu. Þetta er svo forkastanlegt þegar að vitað er og rannsóknir hafa sýnt fram á á óyggjandi hátt að þetta er að valda gríðarlegum skaða. Peningarnir koma að uppistöðu til frá fólki sem er ekki sjálfrátt gjörða sinna, sem að er að leggja eigið líf í rúst og aðstandenda sinna og þessi óhamingja smitar út í allt samfélagið,“ segir Ögmundur. „ Þetta meiðir fólk á öllum aldri, þetta meiðir fjölskyldur, þetta meiðir samfélagið og þá segi ég: Í ljósi þessa þá eigum við að sameinast um að gera það sem er raunhæfast í málinu og það er að loka þessum kössum.“

Ögmundur segir að tillögurnar sem hann setti fram árið 2013 séu orðnar úreltar, en hvaða lög myndi hann setja ef hann mætti aðeins setja ein lög?

„Banna þessa kassa. Ég er alveg harðákveðinn.“mbl.is
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Linda Sigríður Baldvinsdóttir
Valgeir Magnússon
Valgeir Magnússon
Ásdís Ósk Valsdóttir
Ásdís Ósk Valsdóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir
Árelía Eydís Guðmundsdóttir

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

félags- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

svarar spurningum um lögfræðileg mál