Kynntust í teiti á Reyðarfirði

Brúðhjónin voru glæsileg.
Brúðhjónin voru glæsileg.

Guðrún Veiga Guðmundsdóttir blaðamaður og ofursnappari gekk að eiga unnusta sinn, Guðmund Þór Valsson á laugardaginn var, 13. ágúst. Snapchat vinir Guðrúnar Veigu vita að brúðkaupsundirbúningur hefur staðið yfir lengi og það gekk líka á ýmsu í aðdraganda brúðkaupsins. Á snapchat gengur Guðmundur Þór undir nafninu Tuskubrandur en hann er alltaf með tuskuna á lofti þegar hann er í landi. Hann er sjómaður og þegar hann er að  heiman skemmtir Guðrún Veiga snapchat vinum sínum með orðheppni sinni og sniðugheitum. 

Guðrún Veiga og Guðmundur eru búin að vera kærustupar í tíu ár. Þegar ég spyr Guðrúnu Veigu hvernig þau kynntust kemur í ljós að desember 2006 var áhrifavaldur í lífi þeirra beggja. 

„Við kynntumst í samkvæmi í heimahúsi á Reyðarfirði 26.desember árið 2006. Hann var eitthvað hálf umkomulaus blessaður, búinn með allan bjórinn sinn þannig að ég gaf honum einn úr Bónuspokanum sem ég hafði ferjað með mér í teitið. Enda hef ég aldrei verið þekkt fyrir að vera tómhent þegar áfengi er annars vegar. Ég rétti honum bjór, sný mér að vinkonu minni og hvísla „djöfull er hann sætur." Þessu dimma desemberkvöldi lauk svo á kossaflensi sem augljóslega ætlar engan endi að taka,“ segir hún.

Guðmundur og Guðrún Veiga á brúðkaupsdaginn sinn 13. ágúst.
Guðmundur og Guðrún Veiga á brúðkaupsdaginn sinn 13. ágúst.

Parið gekk í hjónaband á Eskifirði á laugardaginn var. Þegar hún er spurð út í brúðkaupsdaginn segir hún að hann hafi verið yfirgengilega skemmtilegur, stressandi og stórkostlegur.  

„Eins mikið og mig langaði að ganga í sjóinn þegar undirbúningur stóð sem hæst þá væri ég til í að gera þetta allt saman aftur á morgun. Og hinn. Og hinn og hinn og hinn,“ segir hún. 

Kjóllinn var saumaður af Báru Atladóttur.
Kjóllinn var saumaður af Báru Atladóttur.

Guðrún Veiga elskar allt sem er gult og því kom ekki annað til greina en að gulur litur kæmi við sögu á brúðkaupsdaginn. Hún elskar líka Bingó-kúlur og pantaði hún mikið magn af þeim fyrir brúðkaupið til að nota í borðskreytingar. Ef Guðrún Veiga hefði hinsvegar fengið að ráða öllu hefði allt verið gult en þau hjónin voru ekki alveg sammála og því þurfti hún að gefa eftir. Svona eins og gengur og gerist í góðum ástarsamböndum. 

„Gulur er minn uppáhaldslitur og það hefði allt verið gult ef ég hefði fengið að ráða, allt frá brúðarkjól að borðbúnaði. En ég get víst ekki alltaf ráðið öllu (er mér sagt) og kom eiginmaðurinn með þá hugmynd að hafa bláan lit á móti þeim gula. Sú hugmynd fékk ekki mitt atkvæði (almáttugur, brúðkaupið hefði verið eins og sænsk fermingarveisla) þannig að ég lagði blíðlega til að grár litur yrði ráðandi með þeim gula. Sú hugmynd var samþykkt með semingi og kom svona líka vel út (að mínu mati),“ segir hún. 

Brúðhjónin í stemningu.
Brúðhjónin í stemningu.

Hjónin hafa staðið í ströngu við brúðkaupsundirbúning síðan síðasta haust en hún segist hafa verið óþarflega róleg langt fram á sumar. 

„Sem útskýrir kannski af hverju ég fór ellefu sinnum yfir um síðasta mánuðinn fyrir stóra daginn. Við kláruðum stærstu atriðin frá eins og sal, kirkju, prest og kjólinn minn (auðvitað) fyrir áramót - annað var svo gert og græjað í júní og júlí,“ segir hún. 

Hvað stóð upp úr á brúðkaupsdaginn?

„Að standa í anddyri kirkjunnar og heyra yndislegu stúlknasveitina Fjarðadætur hefja upp raust sína, en þær bjuggu til sína útgáfu af brúðarmarsinum fyrir okkur, og byrja að ganga inn gólfið var augnablik sem ég gleymi aldrei. Að sjá elsku manninn minn ljóma eins og sól í heiði við altarið - með gula bindið sitt að sjálfsögðu, var hreint út sagt dásamlegt. Veislan sjálf var svo röð stórkostlegra augnablika þökk sé vinum okkar og fjölskyldu.“

Guðrún Veiga elskar gulan lit og því kom ekkert annað …
Guðrún Veiga elskar gulan lit og því kom ekkert annað til greina en að hafa brúðarkjólinn gulan.

Guðrún Veiga elskar franskar og skyndibitamat og því kom ekki annað til greina en að hafa veitingarnar eitthvað í þá áttina. 

„Ég átti þá ósk heitasta að vel djúpsteiktar franskar með miklu kartöflukryddi yrðu í stóru hlutverki á veisluborðunum. Þannig að það kom fátt annað til greina en hamborgari. Guðjón Rúnar Þorgrímsson kokkur á Hótel Héraði útbjó hreindýraborgara sem voru svo ljúffengir að ég kann ekki einu sinni að bera fram hvað þeir innihéldu nákvæmlega.“

Hvernig líður ykkur eftir stóra daginn? 

„Við erum ennþá svífandi á einhverskonar bleiku skýi bara og ætlum okkur helst aldrei niður aftur. Í það minnsta ekki fyrr en næsti VISA reikningur kemur,“ segir hún og hlær. 

Hvað tekur nú við eftir stóra daginn?

„Ji, auðvitað að finna stað heima í stofu fyrir Kay Bojesen apann sem leyndist á meðal brúðkaupsgjafa. Mér til mikillar gleði, Aura-Brandur getur hins vegar ekki með nokkru móti skilið af hverju fólk borgar marga þúsundkalla fyrir tréfígúrur einhverskonar,“ segir hún og hlær. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál