Ímynd „ofurkonunnar“ stórhættuleg

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er nýr aðstoðardagskrárstjóri RÚV.
Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er nýr aðstoðardagskrárstjóri RÚV. mbl.is/Eggert

Ragnhildur Steinunn Jónsdóttir er nýráðin aðstoðardagskrárstjóri sjónvarps og dagskrárgerðarmaður á RÚV. Hún er 36 ára í sambúð með tvö börn. Smartland spurði hana spjörunum úr.

Getur þú lýst starfinu þínu sem aðstoðardagskrárstjóri?

„Ég mun vinna með Skarphéðni Guðmundssyni að dagskrártengdum málefnum sjónvarps, koma að verkefnavali og þróun dagskrárefnis, fylgja innanhússframleiðslu eftir og tryggja að gæðamarkmiðum sé náð, svo eitthvað sé nefnt. Ég er virkilega spennt fyrir þessu.“

Hvað skiptir máli fyrir konur að hafa í huga ef þær ætla að ná langt á vinnumarkaði?

„Ef ég ætti að gefa fólki ráð þegar kemur að því að ná markmiðum sínum þá er það að hræðast ekki að gera mistök! Þú skorar aldrei ef þú þorir ekki að skjóta á markið.“

Hvernig var þinn ferill?

„Það má í rauninni segja að ég hafi slysast inn í dagskrágerð þegar Helgi Jóhannesson pródúsent bauð mér að koma í prufur fyrir unglingaþáttinn Ópið. Ég gleymi því seint þegar ég tók fyrsta prufu-viðtalið við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttamann. Ég fékk starfið og unglingaþátturinn Ópið var í loftinu í eitt ár. Þaðan fór ég svo yfir í Kastljós og starfaði þar, meðfram öðrum sjónvarpsþáttum, til ársins 2011. Þar öðlaðist ég dýrmæta reynslu. Viðtölin voru fjölbreytt og ég vann með öflugu fólki sem kenndi mér margt. Síðan þá hef ég snert ýmsa fleti framleiðslunnar, framleitt og leikstýrt heimildarmyndum, gefið út bók, setið í framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar, skrifað handrit og klippt þætti fyrir RÚV. Síðustu ár hefur Skarphéðinn Guðmundsson fengið mig til að sinna ýmsum hlutverkum er snerta þróun efnis og framsetningu og því var þessi framþróun í starfi, að verða aðstoðardagskrárstjóri, afskaplega ánægjuleg. Varðandi markmiðin, þá tel ég mig vera búin að ná mörgum af þeim markmiðum sem ég hef sett mér í gegnum tíðina en ég er líka fljót að endurskoða markmiðin og setja mér ný þegar þörf er á.“

Hvað gefur vinnan þér?

„Vinnan er áhugamál mitt. Þar fæ ég ákveðna útrás fyrir sköpunarþörf, forvitni og löngunina til að hafa áhrif á fólk í kringum mig.“

Hefur þú átt það til að ofkeyra þig og, ef svo er, hvernig hefur þú brugðist við því?

„Já ég hef svo sannarlega ofkeyrt mig af og til, en ég er að reyna að læra af reynslunni. Ég tel að ímynd „ofurkonunnar“ sé stórhættuleg. Mér finnst mikilvægt að halda henni ekki á lofti. Ég hef lært að setja mér raunhæf en jafnframt háleit markmið og sætta mig við að sumt get ég og annað ekki. Í mínum huga er velgengni ekki bundin við áhorfstölur, tilnefningar til Eddunnar eða launaumslag. Það var það kannski einu sinni en í dag er velgengni víðara hugtak í mínum huga. Ég finn reglulega fyrir því að ég hef tæmt bensíntankinn og þá hefur mér gefist best að setja útiveru og nærandi samtöl við vini og fjölskyldu í fyrsta sæti.“

Finnst þér konur þurfa að hafa meira fyrir því að vera ráðnar stjórnendur í fyrirtækjum en karlmenn?

„Það er nokkuð ljóst að það hallar verulega á hlut kvenna þegar kemur að stjórnendastöðum. Fáar konur verma forstjórastólinn hér á landi. Stjórnir og stjórnendur fyrirtækja þurfa að taka meðvitaða ákvörðun um að breyta þessu. Við þurfum líka að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf, ekki bara konum. Það þarf að efla fæðingarorlofskerfið og efla dagvistunarúrræði að loknu orlofi. Á meðan þakið er of lágt og feður hafa hærri laun verður ákvörðunin kynbundin. Feður hreinlega neyðast til að taka stutt orlof til að halda heimilinu á floti. Þetta er vítahringur sem hefur óhjákvæmilega áhrif á jafnrétti á vinnumarkaði og framgang kvenna. Við megum samt ekki gleyma því að fæðingarorlofið á auðvitað fyrst og fremst að tryggja barni samverustundir með báðum foreldrum þótt það sé sterkt tól til að hafa áhrif á annað.

Svo finnst mér líka mikilvægt innlegg í jafnréttisumræðuna að minna á að metnaður allra kvenna felst ekki endilega í því að verða forstjórar eða framkvæmdastjórar. Við megum ekki setja þá pressu á ungar konur að þær þurfi að eiga sér þann eina draum til að verða hampað fyrir störf sín.“ 

Áttu þér einhverja kvenfyrirmynd?

„Já, ég er umkringd flottum konum. Hvar á ég að byrja? Í bókinni okkar Eddu Hermannsdóttur, Forystuþjóð, ræddum við við fullt af flottum konum og körlum. Ég hef líka tamið mér í gegnum mína vinnu að reyna að tileinka mér eftirsótta eiginleika viðmælenda minna. Ég er sífellt að safna púslum til að verða betri útgáfa af sjálfri mér.“

Ertu með hugmynd um hvernig hægt er að útrýma launamun kynjanna fyrir fullt og allt?

„Fyrsta skrefið í öllum breytingum er að fólk fái innsæi í að breytinga er þörf. Mér finnst við vera komin á þann stað og er bjartsýn fyrir framhaldinu.“

Hvernig skipuleggur þú daginn?

„Verkefnastjórnunarkerfið Trello bjargar mér! Það hjálpar mér að halda mörgum boltum á lofti og hafa yfirsýn yfir hvað hefur forgang og hvað má bíða betri tíma.“

Hvernig er morgunrútínan þín?

„Hún er nú ósköp óspennandi ef ég á að vera hreinskilin. Vakna, klæða börn og reyna að koma öllum út fyrir klukkan 8.15. Stundum byrja ég vinnudaginn heima á skrifstofunni en mér finnst algjör lúxus að geta fengið mér góðan kaffibolla í kyrrð og ró yfir fyrstu verkefnum dagsins. Þetta geri ég oft þegar ég þarf að skrifa texta því þá á ég það til að tala mikið við sjálfa mig.“

 

Nærðu að vinna bara átta stunda vinnudag eða teygist vinnudagurinn fram á kvöld?

„Nei oftast næ ég ekki að halda mig við átta stunda vinnudag og mér finnst það ekki virðingarvert. Þessi dýrkun á duglega fólkinu sem vinnur allan sólarhringinn er hættuleg. Mér finnst mjög mikilvægt að finna eitthvað jafnvægi og að fjölskyldan sé í forgangi þegar leikskóla og skóla lýkur. Það geta margir leyst þig af í vinnunni en það ætti enginn að leysa þig af í foreldrahlutverkinu. Ég hef fundið jafnvægi í því að skipta vinnudeginum í tvö holl. Í fyrra holli frá klukkan níu til fjögur sinni ég praktískum hlutum eins og fundum, skipulagsmálum, bóka viðtöl og tek upp þætti. Ég stend svo alltaf upp frá skrifborðinu klukkan fjögur til að sækja fjölskylduna og trúðu mér það er oft erfitt að stimpla sig út með þeim fyrstu. Á kvöldin, þegar börnin eru sofnuð, tekur seinna hollið við hjá mér. Þá klára ég að skrifa handrit, klippi efni og aðra lausa enda. Mér finnst mörkin milli vinnu og áhugamála líka oft óljós þar sem mér finnst flest sem ég fæst við ferlega skemmtilegt.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera utan vinnutíma?

„Vera með fjölskyldu og vinum. Ég er mjög heimakær og finnst gott að vera með fólkinu mínu.“

 

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Spennandi og annasamur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál