Rómantískt sveitabrúðkaup

Bragi og Björk giftu sig í sveit.
Bragi og Björk giftu sig í sveit. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Björk Gunnbjörnsdóttir hönnuður útskrifaðist úr LHÍ í vöruhönnun og stundar nú mastersnám í hönnun í Konstfack í Stokkhólmi. Hún giftist Braga Geirdal Guðfinnssyni bifvélavirkja 28. júlí 2018. Brúðkaupið var rómantískt og fallegt samvinnuverkefni allra þeirra sem komu að því.

Björk og Bragi eru sem fyrr segir búsett í Stokkhólmi þar sem hann starfar hjá Rindab og hún er í námi.Þau kynntust í apríl 2008 og eiga tvær dætur; Furu Hlín sem fæddist 2016 og Iðunni Ösp sem fæddist 2017. Hundurinn Agnes er einnig hluti af fjölskyldunni.
Veislan fór fram í gömlu fjósi.
Veislan fór fram í gömlu fjósi. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Hvernig var brúðkaupið?

„Foreldrar Braga, amma hans og afi búa í Bláskógabyggð og hafa stundað þar skógrækt í yfir 30 ár. Það er alltaf gott að koma í kyrrðina í sveitinni og okkur langaði alltaf að gifta okkur þar. Við völdum okkur stað við tjörn þar sem við höfum átt margar góðar stundir með vinum og vandamönnum, oftast í sól og steikjandi hita.

Athöfnin fór fram úti á túni með útsýni yfir tjörnina. Planið var að sjálfsögðu að það yrði sól en við báðum gesti að vera klæddir eftir veðri. Þetta var rigningasumarið mikla á Íslandi þannig að við vorum ekki mjög bjartsýn á að það yrði þurrt þennan dag frekar en hina á undan.“

Ólafur S.K. Þorvaldz var athafnastjóri og kokkur í brúðkaupinu.
Ólafur S.K. Þorvaldz var athafnastjóri og kokkur í brúðkaupinu. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Brúðurin kom keyrandi niður túnið

Björk segir að brúðkaupsdagurinn hafi runnið upp og þá hafi strax orðið ljóst að það yrði rigning. „Það var samt mjög hlýtt og stillt. Það var strax rokið af stað að færa veislutjöld niður að tjörn svo einhverjir gætu staðið þar undir.“

Til brúðkaupsins kom Björk keyrandi með börn bróður síns og sín eigin niður túnið á gamalli Toyota Cressida sem Bragi keypti fljótlega eftir að þau kynntust.

„Hún hafði staðið ónotuð inni í hlöðu í langan tíma sökum ryðs en var annars í góðu lagi. Á túninu við tjörnina biðu Bragi og gestirnir.“

Una Stef. söng í athöfninni og í veislunni og Ólafur S.K. Þorvaldz, leikari, bruggari og æskuvinur bróður Bjarkar, var bæði athafnarstjóri og kokkur. Eftir athöfnina var haldið í fjósið þar sem veislan fór fram.

Brúðkaupskakan.
Brúðkaupskakan. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Við hefðum boðið upp á pylsur

Hvernig gekk undirbúningurinn?

„Við vorum satt að segja ekki stressuð yfir þessu og vildum hafa þetta mjög afslappað. Undirbúningurinn var nú varla nokkur af okkar hálfu til að byrja með og við hefðum sjálfsagt endað með að grilla pylsur hefðum við tvö séð um alla skipulagningu. En foreldrar Braga höfðu lengi ætlað að leggja gólf í fjósið hjá sér, en það hefur ekki hýst dýr í mörg ár. Við og foreldrar okkar fórum því í það í byrjun sumars að leggja pallaefni í fjósið og smíða svið. Við fengum slatta af vörubrettum gefins hér og þar sem við notuðum undir sviðið og í pall fyrir utan.

Foreldrar okkar stóðu fyrir vínsmökkun og Óli sá um aðalréttinn. Ég hannaði kortin, setti upp heimasíðu og alls konar borðamerkingar, málaði skilti og gerði gestabók. Bragi smíðaði tvö grill úr tunnum, eitt gasgrill og annað kolagrill. Tengdapabbi var óður með pensilinn um allt og málaði allt sem fyrir varð.

Síðan var ýmsum smáum og stórum verkefnum dreift á vini og fjölskyldu. Við fengum t.d. lánað hljóðkerfi, leigðum klósett á hjólum, leigðum bekki og borð hjá Seglagerðinni og fengum alls konar borðbúnað lánaðan. Tengdamamma fékk fólk með sér í að tína blóm á svæðinu sem síðan voru notuð í skreytingar og blómakransa sem vinkona hennar bjó til. Mágur tengdamömmu skreytti ryðgötin á bílnum með blómum, bjó til brúðarvönd á síðustu stundu og skreytti brúðartertuna.“

Brúðarbíllinn var gömul Toyota skreytt með blómum.
Brúðarbíllinn var gömul Toyota skreytt með blómum. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Allt grænmetið úr sveitinni

Hvernig veitingar voru?

„Með kaffinu höfðum við horn sem pabbi Bjarkar bakaði og við keyptum kleinur af kvenfélaginu.Með fordrykknum voru jarðarber frá Reykholti og í forrétt fengum við tómatsúpuna góðu og nýbakað brauð frá Friðheimum.

Óli grillaði nauta-ribeye, lambalæri, kalkúnabringur og paprikur fylltar með indverskum bygg- og linsubaunarétti. Með þessu voru timíanbakaðar kartöflur, indverskt ofnbakað rótargrænmeti, ferskt íslenskt sumarsalat, steiktur laukur og sveppir, tzatziki-jógúrtsósa, chimichurri og rauðvínsgljái. Allt grænmeti var fengið úr sveitinni. Sindri bakari bakaði brúðartertuna handa okkur en hún var sítrónuterta með ostakremi.“

Myndirnar úr brúðkaupinu skipta máli

Hvað skiptir mestu máli núna eftir á að hyggja?

„Það er voða gaman að hafa allt fínt og fullkomið en það skiptir alls ekki mestu máli, það var ýmislegt sem gleymdist í öllu stressinu en það breytti engu. Mestu skiptir að hafa gott fólk í kringum sig og treysta því að aðrir geti gert hlutina þótt það sé ekki nákvæmlega eins og þú hefðir gert þá. Okkur þótti endalaust vænt um alla hjálpina sem við fengum og hvað allir voru til í að leggja hönd á plóg. Myndirnar sem voru teknar í brúðkaupinu skipta okkur gríðarlegu máli og það var frábært að hafa ljósmyndara alla veisluna. Ef ég gæti breytt einhverju hefði ég haft upptöku af sviðinu, það væri gaman að eiga til ræðurnar og öll frábæru tónlistaratriðin.“

Brúðhjónin með gestum við tjörnina þar sem athöfnin fór fram.
Brúðhjónin með gestum við tjörnina þar sem athöfnin fór fram. Ljósmynd/Tinna Wedding Photos

Björk mælir með að:

Deila verkefnum á þá sem vilja hjálpa.

Gefa sér tíma í að skipuleggja brúðkaup.

Spara í blómakaupum með því að nota íslensku sumarblómin.

Splæsa í ljósmyndara.

Hlaða niður lagalistanum á Spotify ef veislan er í sambandslausri sveit.

Björk mælir ekki með að:

Gera ráð fyrir að það sé bara hægt að skjótast til sýslumanns og gifta sig á pappírum (það þarf að panta með ágætum fyrirvara).

Að reyna að gera allt sjálfur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál