Beðinn um að leikstýra þáttum um ástina beint eftir sambandsslit

Haukur Björgvinsson leikstýrði þáttunum Ást sem sýndir eru í Sjónvarpi …
Haukur Björgvinsson leikstýrði þáttunum Ást sem sýndir eru í Sjónvarpi Símans Premium. Hann er líka einn af handritshöfundum þáttanna.

Leikstjórinn Haukur Björgvinsson segir að það sé áhugavert að hugsa til þess að í skóla lærum við efnafræði, lestur og stærðfræði en að á allri okkar skólagöngu sé okkur aldrei kennt að vera í ástarsambandi eða í hverju heilbrigð og náin tengsl felast en þau eru stærsta breytan í hamingju okkar. 

Það er einmitt hamingjan og ástin sem er viðfangsefni nýjasta verkefnis Hauks, sjónvarpsþáttaraðarinnar Ástar sem fjallar um allt sem viðkemur ástinni frá skoti til skilnaðar en þættirnir eru sýndir í Sjónvarpi Símans Premium. Hugmyndin að þáttunum kom upphaflega frá Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur og Kristborgu Bóel Steindórsdóttur og ætluðu þær að gera sjónvarpsþátt um skilnað. 

„Það er nokkuð merkilegt að hugsa til þess að skömmu áður en ég fékk þetta á borð til mín gekk ég í gegnum erfið sambandsslit eftir langa sambúð. Í kjölfar þess fann ég hjá mér sterka þörf til að skilja hvað fór úrskeiðis og líta í eigin barm. Eftir að hafa lesið ýmsa sálfræði áttaði ég mig á því að það var svo ótrúlega margt sem ég gerði vitlaust og vissi bara ekkert hvað ég var að gera. Því fór ég enn dýpra í að sækja lærdóm um sálfræðina á bak við náin sambönd. Í samtölum við aðra rann upp fyrir mér hversu lítið við flest vitum um þessa hluti - allir eru einhvern veginn að keyra á tilfinningum án þess að skilja hvað liggur að baki þeim. Þegar ég kom inn í þetta verkefni sá ég að skilnaður einn og sér gengi aldrei upp. Það þyrfti að skoða það sem væri búið að gerast á undan og þá kviknaði sú hugmynd að fjalla um ástina frá öllum sjónarhornum. Mig langaði að nýta sálfræðina sem ég hafði kynnt mér og gera kennsluþátt, eitthvað sem hjón og pör gætu horft saman á og nýtt tækifærið til að ræða málin sín á milli,“ segir Haukur. 

Fljótlega eftir að Haukur kom að verkefninu fékk hann Helga Jóhannsson til liðs við sig til að framleiða þáttinn. 

„Það er kannski merki um breytta tíma að tveir þrítugir strákar sitji myrkranna á milli og ræði ást, ástarsorg, náin tengsl og tilfinningar en það er nákvæmlega það sem við Helgi gerðum. Helgi er vanalega leikstjóri en ég vissi að það væri frábært að fá hann á móti mér sem framleiðanda og meðhöfund að handriti þáttanna. Við erum með fleiri sjónvarpsverkefni í þróun og finnst æðislegt að kasta hugmyndum á milli og skrifa handrit saman. Það er gulls ígildi að vera í svona samstarfi því húmorinn og traustið er 100%. Helgi getur alveg sagt mér að ég sökki og ég treysti því að hann sé að segja satt,“ segir hann og brosir. 

Hér má sjá Guðbrand Árna Ísfeld í sálfræðing en rætt …
Hér má sjá Guðbrand Árna Ísfeld í sálfræðing en rætt er við hann í þáttunum.

Haukur segir að það hafi verið skemmtilegt og krefjandi að móta framsetningu á flóknu efni þáttanna.

„Hvernig í ósköpunum á að gera sjö þátta sjónvarpsseríu um ástina? Þegar við vorum búin að ræða við alla sérfræðingana þá fannst mér að það vantaði einhverja skemmtilega leið til að gefa áhorfandanum innsýn í það sem alla jafna gerist á bak við luktar dyr heimilisins og þá datt mér í hug að  fá spunaleikara til þess að leika eitthvað af þeim senum sem sérfræðingarnir voru að tala um,“ segir hann.

Dóra Jóhannsdóttir og Máni Arnarson spunaleikarar sáu um að leika senur sem margir geta vafalaust speglað sig í. Í einum þættinum eru samfélagsmiðlar teknir fyrir og er senan mjög áhrifarík þar sem spunaleikararnir leika par þar sem karlkynsaðilinn er búinn að læka frænku konunnar, setja hjörtu á færslur hjá henni en lækar ekki sambýliskonuna. Er þetta svona í raunveruleikanum?

„Það kom fram hjá sérfræðingunum að samfélagsmiðlar hafa vissulega áhrif á ástarsambönd. Fólk sem er í sitthvorum símanum uppi í rúmi áður en það fer að sofa og kyssist kannski ekki góða nótt áður en það leggst á koddann er ekki sérlega náið. Það fjarlægist hvað annað þegar það tekur símann fram yfir stund með makanum. Stærsta vandamálið er kannski að samfélagsmiðlar eru nýir og tæknin uppfærist svo hratt að það tekst aldrei að setja neinar reglur því það er alltaf komið eitthvað nýtt.“

Birtingarmynd ástarinnar er úti um allt og því vildi Haukur brjóta myndmálið enn frekar upp.

„Önnur æðisleg leið til að myndgera viðkvæmt umfjöllunarefni þáttanna var sú að fá Láru Garðarsdóttur teiknara til að búa til teiknimyndir. Lára var alveg stórkostleg, hún hefur svo frjóa túlkun á handritum og groddalegan húmor að maður var oft í hláturskasti yfir því sem hún sendi. Það þurfti frekar að biðja hana um að tóna hlutina niður þegar of mörg typpi voru komin í mynd. Svo datt mér í hug að fá Jónas Margeir Ingólfsson, lögfræðing og handritshöfund, til að ljá Ástinni rödd sína. Það var svo dásamlegt að hlusta á hann segja sögur í mötuneyti Sagafilm að mér fannst liggja beinast við að hann tæki þetta líka að sér.“

Hér er Haukur ásamt Bjarna Felix Bjarnasyni tökumanni, Theu Abigail …
Hér er Haukur ásamt Bjarna Felix Bjarnasyni tökumanni, Theu Abigail og Kolbrúnu Pálínu Helgadóttur.

- Finnst þér karlar og konur vera með ólíka sýn á ástarsambönd?

„Nei í rauninni ekki - ég held að það hafi miklu meira með uppeldi og fjölskylduaðstæður að gera. Sumir eiga mjög auðvelt með að tjá sig á meðan aðrir alast upp í umhverfi þar sem ekkert er rætt. Sumir vilja mjög mikla nánd og funkera ekki nema nándin sé í forgrunni meðan aðrir vilja ekki svona mikla nálægð og nánd.“

- Hvað lærðir þú af því að gera þessa þætti?

„Áður en ég fór í þessa þætti hafði ég aðallega verið í „short form“ verkefnum eins og auglýsingum, erlendum þjónustuverkefnum og tónlistarmyndböndum, þó svo að hjartað hafi alltaf slegið fyrir bíó og tv. Það var því krefjandi að skipta þarna um gír og vinna að miklu lengra og flóknara formi sem sjónvarpsþáttagerðin er. Það skemmtilega er að maður upplifði svo margar nýjar tilfinningar í þessu sem kveiktu hjá mér hugmyndir um leikið efnið.

- Hvað fannst þér áhugaverðast?

„Efnislega og tengt ástarsamböndum lærði ég að taka aðeins skref til baka og reyna að skilja betur hvaðan fólk kemur. Meðan á þáttagerðinni stóð ræddum við ástina í matsalnum og í kaffinu. Þegar opnað er á þessa umræðu kemur í ljós að það eru margir í myrkri með þetta, sama af hvaða kyni eða á hvaða aldri fólk er. Umræða er góð.“

Nú ertu sjálfur á lausu. Muntu leita þér að lífsförunaut frá öðru sjónarhorni eftir þessa vinnu? 

„Já ég hugsa það. Stór hluti af því að dýpka þessa sjónvarpsþætti var að líta í eigin barm og bera þessa nýju þekkingu saman við fyrri ástarsambönd: hvað virkaði og hvað ekki? Áður fyrr hefði maður kannski ekki velt hlutum eins og tengslamyndun eða sterku baklandi, en i dag átta ég mig á því hversu mikil áhrif þetta hefur á sambandið. En svo verður maður bara skotinn og kannski fátt sem maður getur gert þegar það gerist?“ 

Nú er þessu verkefni lokið og þegar Haukur er spurður að því hvað sé framundan kemur í ljós að hann situr ekki auðum höndum.  

„Ég kláraði nýlega stuttmyndina WILMU og er að byrja að túra með hana á festivöl. Í þessari viku er það RIFF, Kvikmyndahátíðin í Reykjavík - hátíð sem er mér alveg sérstaklega kær og í næstu viku er það svo Bendfilm í Oregon en ég ætla að fylgja myndinni þangað. Við Helgi erum búnir að selja tvær leiknar sjónvarpsseríur svo við erum á milljón í skrifum. Svo er ég að fara í tónlistarmyndbönd og eina stuttmynd. Ég byrjaði nýverið að freelancera aftur eftir að hafa verið fastráðinn hjá Sagafilm, svo nú er maður bara að sjá hverjir vilja leika og búa til bíó og sjónvarp saman.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál