„Ég er orðin 74 ára og fer ekki í fast framtíðarstarf úr þessu“

Barðstrendingurinn Friðgerður Björk Friðgeirsdóttir, kölluð Lilla, reyndi fyrir sér sem fyrirsæta í fyrrahaust, leið vel í myndatökum, fékk góð viðbrögð og ætlar að halda áfram á sömu braut. „Ég er orðin 74 ára og fer ekki í fast framtíðarstarf úr þessu en hleyp í þetta í hjáverkum og verð næst í golfgalla,“ segir kylfingurinn, sem er með 28 í forgjöf.

Ekki er algengt að fólk á áttræðisaldri taki að sér fyrirsætustörf og Lilla var hvorki með drauma né væntingar í þá átt, en þegar Berglind Ásgeirsdóttir, tengdadóttir hennar, sem rekur verslunina Brandtex í Kringlunni, bað hana að taka verkið að sér þurfti hún ekki að hugsa sig um tvisvar.

„Hún sagðist endilega vilja fá mig sem fyrirsætu því ég væri svo lífsglöð og spurði hvers vegna ég gæti ekki gert þetta eins og hver önnur,“ segir Lilla um frumraunina á þessu sviði. „Ég þurfti ekki meira, sló til, tilbúin að gera eitthvað skemmtilegt úr þessu og stökk strax út í djúpu laugina.“

Mótaðist í Mjólká

Lilla kenndi í tvö ár í grunnskólanum á Patreksfirði eftir að hafa verið í lýðháskóla í Noregi í eitt ár. Ómar Þórðarson, eiginmaður hennar, var stöðvarstjóri í Mjólkárvirkjun í Arnarfirði 1969-1977 og þann tíma segir hún hafa verið helstu mótunarárin. „Þar var mikið að gera, stækkun í virkjuninni, ég var með menn í fæði og gistingu, við vorum bændur með kýr og kindur og ég alltaf kölluð Lilla í Mjólká.“

Að þeim tíma loknum starfaði hún meðal annars í bókaverslunum í Reykjavík og hjá Innkaupasambandi bóksala. Síðustu 25 árin á vinnumarkaðnum vann hún hjá Gámaþjónustunni og kenndi borgarbúum og öðrum meðal annars að flokka rusl. „Þessi störf voru langt því frá hugsuð sem undirbúningur fyrir það að verða fyrirsæta heldur var það skyndiákvörðun,“ áréttar hún.

Tengdadóttirin var ánægð með útkomuna og danska móðurfyrirtækið hengdi myndir af henni á veggi ytra. „Þetta svínvirkaði og ég fékk gríðarlega góðar viðtökur. Ég fékk að heyra að loksins, loksins væri komin þroskuð kona í kynningarstörfin, en ég gerði ekkert annað en að klæða mig í fötin og sitja fyrir.“

Hjónin voru á Spáni í vetur en eftir heimkomuna fór Lilla til hárgreiðslukonu sinnar. „Hún sagðist þurfa að segja mér brandara og bætti síðan við að tvær konur hefðu komið með mynd af mér og óskað eftir að fá eins klippingu. Ég væri orðin áhrifavaldur!“

Upphefðin hefur ekki stigið henni til höfuðs. „Þessi reynsla hefur ekki skemmt fyrir mér. Mér fannst þetta bara skemmtilegt enda er það minn stíll að vera lífleg og slá á létta strengi.“

Að fenginni reynslu segir Lilla að það að vera fyrirsæta eigi ekki að vera staðalímynd heldur eitthvað sem allir, sem treysta sér til að halda brosinu og vera glaðir, eigi að geta gert. Á árum áður hafi hún samt hafnað tilboði um að vera fyrirsæta. Kennari í Myndlistaskólanum í Reykjavík hafi sagt sér að hann vantaði þroskaða konu til að sitja fyrir nakin og vildi hana í starfið. „Sjálfsagt hefði ég getað það ef ég hefði viljað en ég hleypti mér ekki í þann pakka. Annars er ég til í slaginn aftur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »