Orðin 70 ára og ætlar alls ekki að hætta að vinna

Guðrún Bergmann er 70 ára í dag.
Guðrún Bergmann er 70 ára í dag. mbl.is/Árni Sæbrg

Guðrún Bergmann heilsufrömuður fagnar 70 ára afmæli í dag. Hún er alls ekki hætt að vinna en segir að kórónuveiran hafi raskað mörgum plönum en upphaflega ætlaði hún að halda upp á afmælið sitt á Indlandi. Hún segist hafa lært margt af lífinu og þar á meðal að hún sé bara ágæt eins og hún er en lengi framan af reyndi hún að líkjast fyrirsætum sem voru í tísku á þeim tíma. 

Það er stór stund að verða 70 ára. Hvernig líður þér með það?

„Ég finn í raun enga sérstaka breytingu, aðra en þá að það bætist eitt ár við jarðvistina. Ég segi alltaf að ég sé tuttugu og þriggja ára, því í huganum finnst mér ég vera það og ætla að halda því áfram. Þjóðfélagið setur mig hins vegar í ákveðinn bás út af aldrinum og því miður virðist frekar vera litið niður til þeirra sem eldri eru, en að þeir njóti virðingar.

Það kemur meðal annars fram í skammarlega lágum ellilífeyri, í þeim takmörkunum sem fólki eru settar til að afla sér meiri tekna samhliða ellilífeyri og því að allir skuli ekki sitja við sama borð þar. Þeir sem eiga meira en fjórar milljónir í banka fá til dæmis ekki ellilífeyri, en í því finnst mér ekkert réttlæti. Við ættum öll að vera jöfn.

Þeir sem eldri eru hafa lagt grunninn að því sem hinir sem á eftir koma byggja á og ættu því að fá góð laun á efri árum. Í raun finnst mér hugmynd Gerðar Pálmadóttur og fleiri um borgaralaun sérlega góð, en það tekur alltaf svo langan tíma hjá stjórnvöldum að hrinda góðum hugmyndum í framkvæmd. Þeir endurtaka bara það sama og gert var síðast, allt of lengi,“ segir Guðrún. 

Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært af lífinu?

„Hvað jákvæðni og kærleiksríkt hugarfar eru magnað afl og hversu mikilvægt það er að tryggja góð samskipti við fjölskyldu og vini. Tengslanetið veitir svo ótrúlega mikinn stuðning í lífinu. Gæti nefnt margt annað, en þetta kom fyrst upp í hugann.“

Hvernig ætlar þú að halda upp á daginn?

„Fyrir Covid var planið að vera í þeirri helgu borg Varansi á Indlandi á afmælisdaginn, því áður en faraldurinn skall á var búið að ráða mig sem fararstjóra í Indlandsferð fyrir Bændaferðir. Sóttvarnarástandið býður ekki upp á mjög fjölbreytt val, meðal annars vegna þess að það er erfitt að ferðast en það hef ég gjarnan gert í kringum stórafmæli. Ég kem því til með fagna deginum í rólegheitum heima hjá mér með fjölskyldu yngri sonar míns. Ég fór með yngri dóttur hans í Partýbúðina í vikunni og hún hjálpaði mér að velja ýmislegt skemmtilegt til að skreyta daginn með,“ segir hún.

Hvað hefðir þú vilja vita þegar þú varst 20 ára sem þú veist núna?

„Ó, það er svo ótal margt. Ég er sammála Mark Twain sem sagði: „Æskunni er sóað á þá ungu.“ Þegar við erum ung vitum við svo lítið og það vantar alveg handbók sem leiðbeinir okkur. Hjálpar okkur til dæmis að setja okkur markmið og ýmis gildi sem geta stutt okkur á vegferðinni í gegnum lífið. Ég hefði til dæmis viljað vita þá að ég væri frábær nákvæmlega eins og ég er, en á táningsárunum og fram eftir aldri var ég oft upptekin af því að líta út eins og þær fyrirsætur sem þá voru í tísku. Þær voru allar með rennislétt hár en ég með sjálfliðað og hafði mikið fyrir því að slétta það eða draga úr krullunum. Það tók mig langan tíma að átta mig á að ég er frábær eins og ég er og að ég ætti frekar að undirstrika sérkenni mín en reyna að herma eftir öðrum. Hefði alveg verið gott að vita það fyrr, en allt er í raun eins og það á að vera.“

Nú ertu búin að gera ansi margt á lífsleiðinni. Af hverju ertu stoltust?

„Ég er náttúrulega alltaf stoltust af sonum mínum, en þegar kemur að verkefnum sem ég hef unnið að, þá snúa þau að tveimur málefnum. Ég vann ötullega að því að fá Hótel Hellnar umhverfisvottað meðan ég átti það og rak með öðrum og það varð því fyrsta ferðaþjónustufyrirtækið á landinu til að fá umhverfisvottun. Einnig vann ég með manninum mínum heitunum og fleiru góðu fólki að undirbúningi og eftirfylgni við umhverfisvottun sveitarfélaganna á Snæfellsnesi og Þjóðgarðsins Snæfellsjökuls. Umhverfismál hafa alltaf verið mér afar hugleikin og í þessum tilvikum var um afar mælanlegan árangur að ræða.

Hitt málefnið snýr að heilsunni, en ég hef nú í þrjátíu og fimm ár unnið ötullega að því að kynna og fjalla um náttúrulegar leiðir til að viðhalda góðri heilsu. Það hef ég gert með alls konar fræðslu í gegnum fyrirlestra, námskeið, bækur og greinar. Síðustu fimm og hálft árið hef ég svo verið með HREINT MATARÆÐI námskeiðin, sem byggjast á hreinsikúr sem hjálpar fólki að endurstilla líkamann og um tvö þúsund manns hafa nú tekið þátt í.“

Hvað finnst þér hafa breytt heilsuheiminum?

„Aukin fræðsla og þekking fólks, meiri meðvitund um að hver og einn geti tekið meiri ábyrgð á eigin heilsufari og svo auðveldara aðgengi að hollri matvöru. Þegar ég var að byrja að breyta mataræði mínu fyrir þrjátíu og fimm árum var afar lítið úrval af vörum til að velja úr. Við vorum sammála því ég og maðurinn minn heitinn að almenn innkaup fólks á hollari matvöru myndu ekki breytast fyrr en heilsuvaran fengist í sömu verslunum og önnur matvara. Við reyndum árið 1996 að fá Hagkaup til að koma til liðs við okkur, þar sem við vorum komin með tengingar við byrgja erlendis, og setja upp heilsuvörudeild. Þeir höfðu ekki áhuga á því á þeim tíma, en settu svo upp deild í Kringlunni árið 2000. Þróunin síðari ár hefur orðið sérlega hröð og nú eru allir stórmarkaðir með heilsuhorn, sem í sumum tilviku eru afar stór og tvisvar á ári eru haldnir Heilsu- og lífsstílsdagar í þessum verslunum.“

Hvernig lífi ertu að lifa í dag?

„Mér finnst það nú frekar venjulegt. Ég vinn ennþá frekar mikið, meðal annars af brennandi áhuga á að fræða fólk um heilsumál og valkosti þess. Þegar ég hef áhuga á einhverju er erfitt að stíga á bremsuna. Eftir að ég las bókina hans Matt Walker, Why We Sleep, fer ég yfirleitt að sofa milli tíu og hálfellefu á kvöldin og vakna um sexleytið á morgnana. Byrja þá daginn á æfingaprógramminu mínu og sest svo við tölvuna að vinna. Ég borða hollt, með smá undantekningum nokkrum sinnum á ári, eins og á jólum og væntanlega borða ég bita af kökunni sem sonardætur mínar ætla að baka handa mér fyrir afmælisdaginn. Ég fasta í tólf tíma á dag, elska að verja tíma með sonardætrum mínum hér á landi, en hef því miður ekki getað heimsótt barnabörnin í Bandaríkjunum á þessu ári. Annars er heimsókn þangað alltaf á dagskrá einu sinni eða oftar á ári. Svo elska ég að ferðast, hvort sem er innan- eða utanlands og þreytist til dæmis aldrei á því að vera í nágrenni Snæfellsjökuls.“

Hvað verður þú að passa upp á svo það fari ekki allt í rugl?

„Mataræðið. Ég hef komist að raun um að það er mikilvægast fyrir líkama minn. Næst á eftir því koma bætiefni sem styðja við mataræðið. Svo er það svefninn og líkamsræktin. Eiginlega má segja að þetta fernt sé mikilvægast. Svo er afar mikilvægt að hlægja og hafa gaman af lífinu.“

Hvernig verður veturinn hjá þér?

„Ég held að hann ráðist að miklu leyti af þeim hömlum sem gilda í samfélögum heims sem stendur. Planið var að vera um Thanksgiving í Bandaríkjunum hjá eldri syni mínum og fjölskyldu hans, en við höfum blásið það af. Jólin verða hér á landi og svo sjáum við í lok árs hvað nýja árið ber í skauti sér. Við verðum komin inn í Öld Vatnsberans í byrjun næsta árs.“

Ætlar þú að minnka eitthvað vinnuna fyrst þú ert orðin 70 ára?

„Ég geri ekki ráð fyrir því. Ég held áfram að halda HREINT MATARÆÐI námskeiðin meðan það er áhugi og þátttaka í þeim. Ég er með eitt planað nú í nóvember til að hjálpa fólki að koma á jafnvægi fyrir jólin og halda því yfir þau. Von er á því að tvö þúsundasta þátttakandinn verði á því. Eftir jól og áramóti vilja margir taka til í líkamanum, þannig að á skipulagi er námskeið í janúar. Framhaldið ræðst svo af eftirspurn.

Ég er með hóp á Facebook sem heitir HEILSA OG LÍFSGÆÐI, en hann er ætlaður þeim sem hafa áhuga á náttúrulegum leiðum til að bæta heilsuna. Ég held áfram að sinna þeim hópi nokkuð daglega og svo er ég alltaf með eitthvað nýtt efni í smíðum, enda stöðugt að læra meira og meira um líkamann og á hvaða hátt við getum styrkt hann og aukið lífsgæði okkar. Til að styðja við það ferli skrifa ég reglulega greinar með ýmsu fræðsluefni á vefsíðuna mína, stundum tvær á viku, svo ég sendi frá mér mjög mikið efni.

Ég vil hafa tilgang þegar ég vakna á morgnana og tilgangurinn felst í því sem ég er að vinna að hverju sinni. Hvort og hvernig vinnan breytist á næstu árum get ég ekki sagt um, en eitt er víst. Ég verð alltaf að vinna að einhverju hugsjónamáli. Það er bara ég.“

Talið berst að ástinni og þegar Guðrún er spurð að því hvort hún sé komin með kærasta segir hún svo ekki vera. 

„Ástin er alltaf í lífi mínu, til sona minna og fjölskyldna þeirra, til barnabarnanna og til þeirra sem næstir mér eru. Hún týnist ekkert. Það er hins vegar þessi sérstaka kærleiksorka sem tengir saman tvær sálir í ástarsambandi sem er ekki svo auðfundin. Ef það liggur fyrir mér að finna hana á ný væri það dásamlegt, en lífið er líka ævintýri án hennar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál