Magnús Ver ræðir fráfall Jóns Páls

Magnús Ver Magnússon var viðmælandi Bibba í Snæbjörn talar við …
Magnús Ver Magnússon var viðmælandi Bibba í Snæbjörn talar við fólk. Ljósmynd/Aðsend

Kraftakarlinn Magnús Ver Magnússon var gestur Snæbjörns Ragnarssonar í nýjasta þætti Snæbjörn talar við fólk. Magnús Ver er ferfaldur sterkasti maður heims og vann titilinn þrjú ár í röð. Hann er sveitastrákur sem vissi alltaf að hann væri sterkur og skaut upp á stjörnuhimininn á ógnarhraða. Hann er alinn upp fyrir austan og þekkir vel til bústarfa upp á gamla mátann.

Magnús borðar hafragraut á morgnana og er ennþá sterkur þrátt fyrir að skrokkurinn sé farinn að finna fyrir átökum liðinna ára. Í seinni tíð hefur hann starfað sem dómari og skipuleggjandi stórra aflraunamóta á heimsvísu og er afar virtur, bæði sem slíkur en einnig sem goðsögn í lifanda lífi. Framtíðin virðist heldur ekki ætla að verða róleg því líkt og fram kemur í spjallinu er hann með margt á prjónunum hér heima og utan. 

Andlát kraftlyftingamannsins Jóns Páls Sigmarssonar hafði mikil áhrif á Magnús. „Árið eftir er árið sem Jón Páll fellur frá […] níutíu og þrjú, og hausinn á mér er bara ekki „in the game“ eins og maður segir. […] Við vorum að æfa og ég labba akkúrat inn í æfingastöðina, er að fara á æfingu, og það er verið að hnoða kallinn og blása í hann. Það var mikill missir af þessum manni, þetta hefði ekki þurft að fara svona ef það hefði verið gripið fyrr inn í, kólesteról hjá honum og svona, það reyndist hafa verið allt of hátt. […] og hann vissi það […] Ef hann hefði verið settur á lyfjagjöf og eitthvað held ég að hann væri ennþá með okkur en hann ætlaði að gera þetta sjálfur með mataræðinu og svoleiðis.“

Magnús og Snæbjörn ræddu einnig um hnefaleikabardaga kraftlyftingamannsins Hafþórs Júlíus Björnssonar við Eddie Hall sem fer fram á laugardag. 

„Það sem gerði Hafþór að stjörnu var Game of Thrones […] Og hann er að gera mjög vel. Gengur vel hjá honum. Ég meina, hann á að fá milljón dollara fyrir þennan boxbardaga. Fer inn í þennan hring og lætur lemja sig í klessu. […] Mér finnst eins og að hann sé bara að labba í gin ljónsins.“

Hægt er að nálgast þáttinn á öllum helstu hlaðvarpsveitum og á hlaðvarpsvef mbl.is

Magnús Ver.
Magnús Ver. Ljósmynd/Snæbjörn Ragnarsson
mbl.is