Fluttur til Íslands en mun alltaf sakna New York

Snorri Sturluson bjó í 16 ár í New York.
Snorri Sturluson bjó í 16 ár í New York.

Snorri Sturluson, ljósmyndari, auglýsingamaður, kvikmyndagerðarmaður og heimspekingur, bjó í New York í 16 ár. Hann var því orðinn New Yorkari áður en hann flutti aftur til Íslands. Snorri heldur nú sýna fyrstu einkasýningu á Íslandi sem stendur yfir til 19. febrúar í Gallery Port undir nafninu American Dreams. Snorri hefur sent frá sér eina ljósmyndabók, Laundromat 2013, og haldið einkasýningar í New York og Los Angeles.

„Þetta er mín persónulega upplifun af New York, myndir sem ég tók á árunum 2001 til 2017. Fólki finnst það áhugavert, sjá mína sýn á mína New York. Þar sem ég er að mynda hluta borgarinnar sem ferðamenn sjá yfirleitt ekki. Fólk verður oft hissa á því að allar myndirnar séu teknar í New York. Ég var fyrst búinn að setja sýninguna saman eins og ég var ánægður með hana. Þannig var hún klár í talsvert langan tíma. Svo kíkti ég betur á myndir sem ég hafði áður hafnað og sá að með fjarlægðinni þá var ansi margt þar áhugavert. Ég fékk því annan ljósmyndara til að skoða þetta með mér og þá komu ansi margar myndir aftur inn á sýninguna í stað mynda sem ég hafði þegar valið. Sýningin varð persónulegri, ég hafði verið að velja myndir meira út frá því hvernig fólk þekkir borgina. Sýningin endaði meira eins og mitt líf var og hvað ég hafði áhuga á við borgina. Líf sem fólk finnur ekki nema búa í borginni,“ segir Snorri. 

Þessi mynd er eftir Snorra og er ein af þeim …
Þessi mynd er eftir Snorra og er ein af þeim sem prýðir sýninguna. Ljósmynd/Snorri Sturluson

Borgin skilur eftir stór merki á sálinni

„Ég mun alltaf sakna New York. Borgin er sterk og skilur eftir stór merki á sálinni. Ég efast um að ég muni búa þar aftur en tengingin er sterk og mun alltaf vera. Það er ekki hægt að slitna frá New York ef maður hefur eitt sinn búið þar. Þessi sýning er allt í senn óður til borgarinnar og fólksins sem byggir hana sem og rannsókn á félagslegum, pólitískum og sálrænum veruleika bandarísks samfélags eins og það birtist í New York. En fyrst og fremst er hún upplifun og sýn mín á mitt daglega líf í borginni sem aldrei sefur.“

Ljósmynd/Snorri Sturluson
mbl.is