Amal Rún er látin

Amal Rún Qase.
Amal Rún Qase.

Baráttukonan Amal Rún Qase er látin. Hún féll frá laugardaginn 23. janúar og hefur útförin farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu. Þetta kemur fram á andlátsvef mbl.is. 

Hún var mikil baráttukona og setti svip sinn á mannlífið í Reykjavík en hún var fædd í Sómalíu. Hún barðist fyrir réttindum innflytjenda og einstæðra mæðra og reyndi að komast inn í borgarstjórn í kosningunum 1994 fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. 

„Í síðasta mánuði stóðu samtökin „Auður í krafti kvenna“ fyrir sérstöku átaki þriðja árið í röð, að því er virðist í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins, að leyfa 9-15 ára dætrum útivinnandi foreldra að verja einum degi á vinnustöðum foreldra sinna. Þetta stóð drengjum ekki til boða. Með þessu er verið að mismuna börnum eftir kynferði. Þá er stutt í að farið verði að mismuna þeim á annan hátt. Mér finnst þetta rangt. Karlar eru yfirleitt með hærri laun en konur en við bætum ekki fyrir það með öðru óréttlæti. Á sínum tíma hefði það ekki dugað gegn þrælahaldi svartra manna að hneppa hvíta menn í þrældóm. Það þarf að ala börnin upp við jafnrétti en ekki forréttindi. Ganga þau ekki saman í skóla? Búa þau ekki saman á heimili? Ég þekki það af eigin raun að búa við kúgun kvenna. En aldrei dytti mér í hug að úr því yrði bætt með því að innleiða kúgun karla,“ ritar Amal Rún í bréfi til blaðsins sem birtist 2002 og tekur fram að hún sé móðir níu ára drengs. Bréfið birtist í Morgunblaðinu 14. apríl 2002.

Amal Rún lætur eftir sig einn son sem fæddur er 1993.

mbl.is