6 ára gamall með ölvuðum föður sínum og fólk hló að þeim

Gunnar Smári Egilsson.
Gunnar Smári Egilsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gunnar Smári Egilsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. Gunnar Smári, sem er þrautreyndur blaðamaður, útgefandi og ritstjóri, er nú kominn á vettvang stjórnmálanna. Í þættinum lýsir Gunnar Smári því meðal annars hvað hann kom illa nestaður út úr æskunni:

„Ég er alinn upp við fátækt, en líka alkóhólisma föður míns og ég er meira brenndur af því en fátæktinni. Eins og mörg börn sem alast upp í fátækt áttar maður sig ekki á því hvað maður er fátækur. Ég man eftir skömm yfir því að eiga ekki ný föt og vera í bættum fötum af bræðrum mínum, í skóm með götum og að vera alltaf votur í fæturna. Ég kem út úr æskunni illa nestaður og með mikla skömm yfir bæði fátæktinni og sjúkdómi föður míns. En mér finnst það vera meira tengt alkóhólismanum, af því að ég var oft með föður mínum þegar hann var drukkinn og hefði þurft að fá aðstoð, en fékk bara hlátur og fleira þess háttar. Ég man eftir senum þar sem hann lá í jörðinni og fólk gekk bara yfir hann og hló og ég hef örugglega þróað með mér ótta við múginn út frá þessum atvikum. Hann sótti okkur edrú, en svo bara datt hann í það og ég man eftir furðulegum senum, í bíói, Viðeyjarferjunni og tjaldi á Laugarvatni. Ég held að ef fólk sæi 6-7 ára gamalt barn í þessum aðstæðum með foreldri sínu í dag myndi það koma og hjálpa. En á þessum tíma var þetta bara eins og heimilisofbeldi og fleira, þetta var bara einkamál.“

Í þættinum ræða Sölvi og Gunnar um feril Gunnars Smára, íslenska fjölmiðla í gegnum tíðina, samfélagsgerðina, fátækt á Íslandi og margt fleira.

Hægt er að hlusta á þáttinn í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is og horfa á hann á YouTube: 

mbl.is