Króli lenti á botninum í kjölfar frægðar

Kristinn Óli Haraldsson eða Króli opnar sig í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn …
Kristinn Óli Haraldsson eða Króli opnar sig í hlaðvarpsþættinum Snæbjörn talar við fólk.

Þótt hann sé aðeins tuttugu og eins árs gamall hefur Kristinn Óli Haraldsson sett mark sitt á íslenskt tónlistarlíf. Króli, eins og hann er betur þekktur, hefur ásamt samstarfsmanni sínum JóaPé átt söluhæstu plötu ársins tvö ár í röð en allir Íslendingar kannast við lagið þeirra B.O.B.A. sem skaut þeim félögum upp á stjörnuhimininn árið 2017. Auk þess á Kristinn að baki leikferil sem hófst þegar hann var einungis tíu ára. En þrátt fyrir öll þessi afrek á Kristinn erfitt með að lýsa sjálfum sér sem hæfileikaríkum og kallar sig frekar mislyndan geðhnoðra. Þessi snögga landsfrægð hafði einnig slæm áhrif á geðheilsu Kristins. Snæbjörn Ragnarsson ræðir við Króla í hlaðvarpsþætti sínum Snæbjörn talar við fólk. Króli fer yfir ferilinn, frægðina, depurðina í þættinum. Hann fann fyrir sjálfsskaðahugsunum og segir frá hvernig hann viðheldur geðheilbrigði sínu dags daglega meðfram öllum ævintýrunum.

Þrátt fyrir ungan aldur náði Króli að koma fram á tónleikum á NASA áður en staðurinn lokaði dyrum sínum árið 2012. Kristinn kom fram á útgáfutónleikum Erps Eyvindarsonar árið 2010, en hann beatboxaði í laginu Kópacabana sem finna má á samnefndri plötu BlazRoca. Kristinn segist lítið muna eftir þessu þar sem hann var 11 ára í fylgd foreldra sinna og fór beint heim að sofa eftir tónleika til að mæta í skólann daginn eftir. Króli ber Erpi góða söguna og segir hann hafa reynst sér mjög vel.

Króli fer mjög fögrum orðum um móður sína.

„Móðir mín er ofurhetja og hún er svo ógeðslega töff. [...] Það er svo margt sem ég dýrka við hana. Það er svo margt sem ég tek frá henni sem mér finnst svo ógeðslega geggjað. Það er bara hvernig hún hugsar um hlutina, hvernig hún talar um annað fólk, hvernig hún hugsar um sjálfa sig [...] hún gerir bara hluti vel en hún gerir líka hluti sem að henni finnst skemmtilegir.“ Króli býr enn í bílskúrnum hjá foreldrum sínum á Völlunum í Hafnarfirði og hefur undanfarið eytt miklum tíma á Akureyri og heima hjá tengdaforeldrum sínum.

Króli lýsir sjálfum sér sem ofsalega mislyndum einstaklingi og lenti andlega á botninum árið 2019 í kjölfar skjótrar frægðar. Á tímabili tók lífið og framinn yfir og hann hætti að geta séð um sjálfan sig sem skyldi, gekk í gegnums sambandsslit sem hann gerði ekki upp andlega og fann sig í kjölfarið á botninum. Kristinn segir ekki ólíklegt að hann hefði gert tilraun til að taka eigið líf ef hann hefði byrjað að drekka eða neyta nokkurra eiturlyfja, en hann hefur aldrei drukkið eða notað nokkur hugarbreytandi lyf og segist aldrei hafa langað til að prófa það.

Kristinn var greindur kvíðasjúklingur, með ADHD, Tourette's og áráttu- og þráhyggjuröskun, en mikil fylgni er á milli þessara raskana.

Á einhverjum tímapunkti hafði Króli ákveðið dagsetninguna þar sem hann ætlaði að enda líf sitt og minnist þess að höfuðið hafi ekki verið heilbrigt á þeim tíma. Hugsunin hafi verið skekkt og samskipti við aðra óeðlileg. Þann dag sem hann hafði ákveðið vildi svo vel til að Jói vinur Kristins var mikið með honum og gafst því aldrei svigrúm til að láta verða af því. Í staðinn gafst Kristni tími til að hugsa og daginn eftir lét hann móður sína vita að hann væri hjálpar þurfi og komst að lokum í úrræði sem hjálpuðu honum.

Kristinn hefur átt erfitt með geðheilsu og hefur átt kappi að etja við lágt sjálfsmat og loddaralíðan (e. impostor syndrome.)

„Þetta er svona nagandi sjálfshatur, sko. Bara svona nagandi sjálfshatur. [...] Þú þarft að hata sjálfan þig til að vilja drepa þig. [...] Þú þarft að hata sjálfan þig alveg nógu mikið, sko. Og ég held að það hafi aldrei farið svona almennilega, sko. Það hefur minnkað alveg drullumikið en – en ég held að það muni aldrei fara almennilega. Ég held ég hati sjálfan mig ennþá bara drullumikið en guð minn almáttugur ekki nærri því jafn mikið og ég gerði, sko.“

„Á hverju einasta tímabili í lífi mínu hef ég hugsað bara hvort þetta sé bara svona risa Tekinn! þáttur í kringum mig. Bara af hverju í fjandanum ég er að fá öll þessi tækifæri, út af því ég hef oft verið bara eitthvað „er þetta bara sjúkasti Truman-show í heiminum?“ [...] Hvaða sick djók er það að hleypa einhverjum fokking skrítnum rauðhaus sem kann ekki að syngja á bara bilað platform? A) Af hverju í andskotanum á ég það skilið? B) Hver í fjandanum nennir mér? C) Hvað í fokkanum? [...] Af hverju ég að fá öll þessi biluðu forréttindatækifæri?“

Króli byrjaði að vinna með JóaPé eftir að hafa sent Jóa skilaboð til að spyrja hvort hann vildi vinna með sér. Hann lýsir fyrstu plötu þeirra sem algjöru prumpi og drasli, en þeir taka hana ekki út af streymisveitum því þeim þykir vænt um hana sem hluta af ferðalagi sínu. Fyrsta platan þeirra kom fram á sjónarsviðið tveimur mánuðum eftir að þeir vinirnir kynnast og einungis hálfu ári síðar í september 2017 kom út næsta plata þeirra GerviGlingur sem skaut þeim efst á íslenska stjörnuhimininn með laginu B.O.B.A. Síðan þá hafa þeir lítið andrými fengið til að horfast í augu við það að þeir séu þjóðþekktir einstaklingar og var það loksins í COVID sem þeim gafst tími til að anda á milli verkefna.

Króli segist í dag vera hættur að gera tónlist, en hann hafi ekki gert neina tónlist í eitt og hálft ár. Hann lýsir sér sem dragbíti á samstarfsmanni sínum JóaPé og finnst sjálfum framlag sitt til tónlistarinnar vera lítið og ómerkilegt í samanburði við forvinnuna sem farið hefur í grunnana sem hann semur vanalega ofan á.

Kristinn væri mjög til í að vera leikari og ætlar sér að nýta stöðuna sína í dag til að þreyfa fyrir sér í leiklist en nýverið fór Króli með hlutverk Tóta tannálfs í uppsetningu Menningarfélags Akureyrar á leikritinu Benedikt búálfur. Hann lék fyrst í hlutverki unga Georgs Bjarnfreðarsonar í kvikmyndinni Bjarnfreðarson sem kom út árið 2009 og var síðan oft í Stundinni okkar og Þjóðleikhúsinu sem ungur maður. Hann fór í prufu fyrir hlutverk Georgs og inn í Sönglist söng- og leiklistarskóla Þjóðleikhússins.

Árið 2018 gerðu Króli og JóiPé. plötu á einni nóttu og gáfu hana út yfir nóttu, án þess að láta nokkurn vita. Lögin eru nefnd eftir tímanum þegar þau voru keyrð út úr hljóðvinnsluforritinu og platan eftir tímanum sem hún var samin á: 22:40-08:16. Sjálfur segir Króli plötuna skrítna og að heyra megi að þeir hafi verið orðnir þreyttir, en þrátt fyrir að hafa engum sagt frá útgáfunni var platan komin í mikla spilun strax daginn eftir að hún fór í loftið.

Hann er samt með smá B-plan ef listamannalífið gengur ekki upp sem skyldi.

„Ég var allt í einu bara orðinn svona – núna er ég búin að leika í aðeins fleiri söngleikjum heldur en ég hafði vonað. Það er geggjað, ég dýrka það, ég væri alveg til í að halda því áfram. En ekkert er eilíft og ég er mjög meðvitaður um það, sko. Ég held að það sé líka svolítið málið, það sem maður verður að vera með á bakvið eyrað alltaf þegar þú ert í svona stöðu [...] Síðan kannski nennirðu þessu ekki sjálfur eða bara þú ert ekki lengur vinsæll og þá bara verðurðu að gera eitthvað!“

Á tímabili fékk Króli þráhyggju fyrir húðflúrum og segist sjálfur vera búinn að klára mikinn hluta líkamans, þó aðallega magann. Húðflúrin segist hann hafa notað sem form af sjálfsskaða, að valda sjálfum sér sársauka vegna þrálátra niðrandi hugsana um sjálfan sig. Í dag er Króli með u.þ.b. 65-70 húðflúr og segist ekki sjá eftir neinum þeirra, en þar sem honum líði betur í dag finnist honum það mikið sársaukafyllra að fá sér húðflúr.

Hljómsveitin JÓIPÉ X KRÓLI er að leggja af stað á túrinn ÚTUMALT um Ísland í dag, 24. júní. Ferðalagið hefst í Keflavík 24. júní og lýkur í Hafnarfirði 10. júlí. Miða er að finna á tix.is. 

Hægt er að hlusta á Snæbjörn talar við fólk á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is