„Þú verður að skilja hvernig þú lætur ekki gyrða niðrum þig“

Bjarni Benediktsson.
Bjarni Benediktsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bjarni Benediktsson er sjálfstæðismaður. Alveg grjótharður sjálfstæðismaður. Hann er fjármálaráðherra, formaður Sjálfstæðisflokksins og andar stjórnmálum allan daginn. Bjarni er lögfræðingur að mennt og starfaði sem slíkur framan af. Á ferli sínum hefur hann komið við í forsætisráðherrastólnum og komið sér kirfilega fyrir milli tannanna á fólki. Hann er umdeildur, elskaður og hataður. Bjarni kemur afskaplega skemmtilega fyrir sig orði en var þó afar ragur við ræðuhöld á yngri árum. Hann er stoltur af því að hafa komið Íslandi í gegnum erfiða tíma, fylgist með fótbolta og ræktar blóm og matjurtir í gróðurhúsinu sínu. Nú er hann á leið til kosninga og það leynir sér ekki. Hann er gestur Snæbjörns Ragnarssonar í hlaðvarpsþættinum: Snæbjörn talar við fólk. 

Um pólitíska leikritið sem fer af stað. Hann talar um að Björt framtíð hafi komið mjög ákveðið inn með þá hugmyndafræði að taka ekki þátt í leikritinu. Ekkert málþóf, engin ónot í garð annarra, setja málefnin fremst og þar fram eftir götunum. „Mér fannst það á köflum vera mjög erfitt fyrir þau. Ég ætla að gefa Óttari Proppé það að hann missir sig aldrei. En ég meina ... Gummi Steingríms og Róbert Marshall, þeir eru með miklar tilfinningar í sér og hafa miklar skoðanir og maður fann stundum að þeir voru að bæla niðri í sér ... ég er ekki að segja að þeir hafi misst sig algerlega en ég sá bara að þetta var rosa erfitt og að þeim blöskraði eitthvað sem sagt var. Og ég hugsaði með mér: „Já, ég man hvað þið sögðuð. Þið verðið að halda áfram að halda haus.“ Alveg strögglandi. Langaði bara til að springa og öskra: „Hvaða þvæla er í gangi hér?““

Bjarni segir frá því að pabbi hans hafi verið í bæjarpólitíkinni í Garðabæ. Þá fer Bjarni sem smágutti að ganga í hús og selja happdrættismiða fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Garðabæ. Og bar út málgagnið, Garða, í Garðabæ. Mikil pólitík í kringum hann og í hans frændgarði. Pabbi hans tók hann með á fundi og hann er að fá áhuga á pólitíkinni strax þá, kannski 8 eða 10 ára gamall.

Menntaskólinn og hann farinn að hugsa um ræðumennsku. Hann átti mjög erfitt með að standa upp og halda ræðu á þessum árum, sem er mjög áhugavert þegar maður sér ræðumennskuna í dag. Langaði að geta gert það en átti erfitt með það. Fór á mörg ræðunámskeið og sigraðist á óttanum. Hafði sterkar skoðanir en átti erfitt með að koma þeim frá sér.

Fór í MR í eðlisfræði tvö. Mikið í íþróttum og fannst skólinn ekki skemmtilegur. Mikið í meðalmennsku og átti mjög erfitt með að klára þriðja árið. Naut skólagöngunnar ekki og sá þetta bara sem verkefni sem þyrfti að leysa. Varð stúdent og vissi ekkert hvað hann vildi gera. Vildi í háskólann og endaði í lögfræði – sennilega í fótspor föður síns.

Fór svo út til Þýskalands í nám, þá með konu og barn. Hann og Þóra komin með fyrsta barnið, mikil áskorun. Og síðan til Miami síðasta árið.

Kom heim og byrjaði að vinna hjá Eimskip í tjónadeildinni. Og strax orðinn þess týpa sem lætur til sín taka, hafði skoðanir og lét hlutina gerast. Fór fór síðan í lögmennsku til að gera stærri hluti og gat borgað sér betri laun sem eigandi.

Nokkrum árum síðan var „komið að máli við hann“ og hann beðinn að gefa kost á sér í stjórnmálunum. Þá hafði hann ekki verið með það á prjónunum, ekki með neitt plan um að vera í pólitík og þurfti aðeins að hugsa sig um.

Byrjaði inni á þingi þegar Davíð Oddsson réð ríkjum. Lærði mikið af honum og lærði að spila leikinn. Davíð sagði honum: „Leyfðu þeim bara að sprikla. Við erum með meirihluta atkvæða hérna og þetta skiptir engu máli.“ Hann var snillingur í að spila leikinn. Sem er mjög gott fyrir leiðtoga. „Þú verður að skilja hvernig þú lætur ekki gyrða niðrum þig.“

Þrátt fyrir sannfæringu um að hafa rétt fyrir sér vill hann ekki að Sjálfstæðisflokkurinn (eða nokkur annar) gæti starfað án stjórnarandstöðu. Lýðræðið er lykilatriði, lifandi samtal.

„Þetta er ekki þannig að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið svo sterkur einhvern tímann að þess vegna verði hann alltaf sterkur. Þetta gerist ekki þannig. Það þarf að hafa fyrir þessu á hverjum dagi. Og þetta segi ég við þá sem segja við mig sem formann: „Bíddu, af hverju er fylgi Sjálfstæðisflokksins ekki 35% eða 38% eins og einu sinni var?“ Ja, núna er árið 2021 og það eina sem skiptir máli er að það eru kosningar og þetta er staðan. Af hverju? Það er bara svo margt sem hefur breyst. Ég meina, kannski hefur okkur ekki tekist jafn vel og við einu sinni gerðum að ná til þess fjölda fólks sem við þá gerðum en það er ekkert annað svar við því en að halda áfram að berjast.“

Hvernig gengur þér að sofa almennt, Bjarni? Hann segist hafa tekið þetta inn á sig til að byrja með, haft samband við fólk sem honum fannst beita hann ósanngirni og reyna að bregðast við en hætti því þegar hann sá að það þýddi ekki. Hvernig stendur á því að fólk er svona illa innrætt að gera svona?

„Það er dálítið auðmýkjandi að vera í stjórnmálum og standa í stafni fyrir stóran flokk. Þú lærir að það dugar lítið að vera drambsfullur og fullur af egói, þú þarft aðeins að vera auðmjúkur og vera sáttur við sjálfan þig. Og standa í báðar lappir, það er mjög auðvelt að koma fólki úr jafnvægi sem er viðkvæmt fyrir gagnrýni. En ég hef alveg farið í gegnum það að vera ekki sáttur við umræðuna og finnast ég vera beittur mikilli ósanngirni. [...] Til dæmis bara þegar ég er formaður í stjórnarandstöðunni og menn eru að slíta úr samhengi ýmislegt sem ég gerði þegar ég var formaður í fyrirtækjum, í stjórnum fyrirtækja og taka alls konar viðskiptagjörninga og færa á mínar herðar, ábyrgð á alls konar hlutum sem ég kom aldrei nálægt því að ákveða. Mér fannst það gríðarlega ósanngjarnt og ég reyndi alveg framan af að taka símtölin þegar þau hringdu og segja bara: „Heyrðu, ég ætla bara alltaf að svara og bara alltaf að bregðast við“ og svo færðu bara alltaf í andlitið stanslaust snúið út úr öllu, slitið úr samhengi og öllu snúið á rönguna og þá verður maður bara: „Heyrðu, guð minn góður, hvernig stendur á því að menn eru svona innrættir að gera svona?“ Og auðvitað hefur maður farið gegnum tímabil þar sem maður verður dapur og pirraður og spyr sig af hverju maður standi í þessu en svo bara man ég líka vel á móti að það koma augnablik þar sem maður ... það færðist bara yfir mig værð, og ég bara allt í einu fann fyrir miklu þakklæti til þessara manna sem voru stanslaust að reyna að fella mig og setja mig í slæmt ljós og það kom bara mikið þakklæti og ég hugsaði bara með mér: „Já, heyrðu. Ef ekki hefði verið fyrir þessar stanslausu árásir þá væri ég ekki búinn að fara svona vel í gegnum þetta og með svona grjótharða sannfæringu fyrir því hvað er rétt og satt og fyrir hvað ég stend. Og mikið er öflugt að vera með þessa grjóthörðu sannfæringu því núna þegar ég fer út og fer að tala mínu máli og berjast fyrir okkar stefnumálum þá eru þeir að fást við bara allt annan mann sko. Miklu harðari, miklu betur þjálfaðan, mann sem er búinn að hugsa þetta allt í þaula. Ég hefði bara ekki fengið þessa góðu æfingu nema þeir hefðu verið á hælunum á mér. Ég hefði ekki hlaupið svona hratt sko. Ég er kominn í toppform. Og bara þakklæti til þeirra.“

Það er einfalt að segja það núna að menn hafi verið kannski of skuldsettir í hruninu í þessum fyrirtækjakaupum sem hann fór í en hamfarirnar voru bara slíkar að Kauphöllin þurrkaðist út. Hann nennir ekki að hanga í fortíðinni og horfir fram á við.

„Ég skil vel að margir séu með þá ímynd af mér eftir þetta að þetta sé eitthvað allt saman gruggugt hjá mér. Ég get bara ekki farið að staldra við það, ég er bara að fara áfram – fólk verður bara að finna út úr því hvort það treystir mér eða ekki og hérna er það sem ég ætla að gera, það eru kosningar fram undan, þetta er mín sýn fyrir samfélagið, hérna eru baráttumálin okkar, þetta er það sem ég er að fara að gera með mínu fólki, mínum frambjóðendum, við stöndum fyrir þetta og bara – áfram gakk.“

Hægt er að hlusta á þáttinn í heildi sinni á hlaðvarpsvef mbl.is. 

mbl.is