Einar í Hatara og Sólbjört trúlofuð

Sólbjört Sigurðardóttir og Einar Hrafn Stefánsson.
Sólbjört Sigurðardóttir og Einar Hrafn Stefánsson. mbl.is/Stella Andrea

Einar Stefánsson, trommari hljómsveitarinnar Hatara og gítarleikari hljómsveitarinnar Vök, bað barnsmóður sína, dansarann Sólbjörtu Sigurðardóttur að trúlofast sér á Valentínusardaginn. 

Parið birti sameiginlega færslu á Instagram í gær þar sem þau sögðu frá gleðifréttunum, með mynd af Sólbjörtu með hring á baugfingri vinstri handar. Settu þau lyndistákn af rós og hring undir myndina. 

Einar og Sólbjört hafa verið saman um nokkurra ára skeið en þau eiga saman dótturina Ylfu Björk. Hafa þau unnið saman í hljómsveitinni Hatara þar sem Sólbjört er bakraddasöngkona og dansari. 

Saman fóru þau út með hljómsveitinni í Eurovision söngvakeppnina í Ísrael árið 2019. Auk þess að spila með Vök og Hatara er Einar einnig markaðsstjóri Íslenska dansflokksins. Sólbjört er menntaður dansari frá Listaháskóla Íslands og hefur verið sjálfstætt starfandi undanfarin ár. Leið hennar liggur þó aftur í Listaháskólann í haust þegar hún hefur nám á leikarabraut.

Smartland óskar þeim innilega til hamingju!

mbl.is