Kvenfélagið Geirmundur endurgerði ferminguna sína

Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir býr í Danmörku.
Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir býr í Danmörku.

Flest munum við nokkuð vel eftir fermingardeginum okkar, sama hversu langt er liðið frá honum. Jóhanna Guðrún Jóhannesdóttir fermdist frá Sauðárkrókskirkju árið 2001 og á hún grátbroslegar minningar frá sínum fermingardegi og undirbúningi hans. Ekki nóg með það, heldur hittist æskuvinkvennahópur hennar síðastliðið sumar og endurgerði ferminguna. 

Jóhanna Guðrún hefur verið búsett í Kaupmannahöfn síðstliðin tólf ár, en þar býr hún ásamt manni sínum og tveimur dætrum. Jóhanna Guðrún, sem alltaf er kölluð Lilla, er viðskipta- og markaðsfræðingur að mennt og rekur sína eigin markaðsstofu auk annarra verkefna.

Lilla tilheyrir stórskemmtilegum vinkvennahópi sem samanstendur af 18 æskuvinkonum frá Sauðárkróki sem gengur að sjálfsögðu undir nafninu Kvenfélagið Geirmundur. Ár hvert heldur hópurinn í óvissuferð sem þær skiptast á að skipuleggja og að þessu sinni var komið að Lillu ásamt einni annarri. „Ferðin er alltaf á sama tíma ársins og er alveg heilög, klárlega það skemmtilegasta sem ég geri. Það er alltaf eitthvert þema og hefur það til dæmis verið Hillbilly, gamalmenni, víkingar, stríðsárin og Disney. Í fyrra var þemað ferming. Við létum prenta boðskort og ekkert annað kom til greina en að við skipuleggjendurnir yrðum klæddar sem prestar,“ segir Lilla, en undirbúningurinn tók marga mánuði og endurspeglaðist í allri dagskránni.

Lilla segir að flestar hafi þær sótt innblástur í sína eigin fermingu, aðrar frá eldri kynslóðum og tvær klæddust sínum eigin fermingarfötum frá 2001. „Það var ótrúlega fyndið að heyra í þeim þegar þær sáu hver aðra, mikið hlegið og nostalgían bankaði hressilega upp á,“ segir Lilla en hópurinn var leiddur í tvöfaldri röð inn í Langholtskirkju þar sem presurinn sem fermdi þær á sínum tíma, séra Guðbjörg Jóhannesdóttir, sem nú er prestur í Langholtskirkju, tók á móti þeim.

Hér er Kvenfélagið Geirmundur að endurgera ferminguna sína. Lilla er …
Hér er Kvenfélagið Geirmundur að endurgera ferminguna sína. Lilla er fremst á myndinni.

„Okkur var öllum svo minnisstætt hvernig Guðbjörg nálgaðist fermingarfræðsluna í gamla daga, hún byggði hana að mestu upp á spjalli um lífið og tilveruna, náungann, tengsl og fleira sem var okkur virkilega gott veganesti út í lífið. Við báðum hana að taka eina slíka og úr varð fallegt, gott og einlægt spjall um vinskap, gildi, lífið og tilveruna,“ segir Lilla en hópurinn skellti sér svo á kóræfingu og að sjálfsögðu var svo fermingarveisla í safnaðarheimilinu. „Við hentum í kransaköku, reyndar brunnu nokkrir hringir þannig að segja má að hún hafi verið svolítið „freestyle“, og að sjálfsögðu var einnig marensterta, heitir réttir og allt það sem okkur þótti ómissandi á okkar eigin fermingarborðum.

Ekki var við annað komandi en að hópurinn færi í fermingarmyndatöku þar sem allar helstu pósurnar voru teknar, hönd undir kinn og hausinn á ská, passíusálmar í hendi og uppstilling við heimatilbúnu borðskreytinguna og fermingarkerti,“ segir Lilla en dagurinn endaði svo á fermingarferð þar sem jeppi á vegum Amazing Tours sótti hópinn og flutti á Nesjavelli og Hvalfjörð. „Við stoppuðum nokkrum sinnum á leiðinni til að skoða okkur um, fórum í leiki, skelltum okkur í pottinn og sjóinn á Bjarteyjarsandi og enduðum svo ferðina á Lopapeysunni á Akranesi. Við Skagfirðingarnir erum náttúrlega með meistaragráðu í sveitaböllum og fengum aldeilis að viðra hana,“ segir Lilla.

Pleðurjakkinn hrikalegi dreginn fram

Aðspurð hvernig fermingarundirbúningi hennar hafi verið háttað á sínum tíma segist Lilla ekki hafa passað inn í hið hefðbundna „stelpubox“ þegar kom að því að velja fermingarfötin. „Ég upplifði fermingarfatnað hálfvæminn og steríótýpískan á þessum tíma. Mig hryllti við tilhugsuninni að fara í kjól og hvað þá húrra mér í hvítan og bleikan blúndukjól, ég fann mig bara ekki í því án þess að þykja það ljótt. Auk þess var ég mjög lítil miðað við aldur og passaði aldrei í tískuföt, fannst ekki töff að versla í barnabúðum og mátti almennt ekki vera að því að skipta úr íþróttagallanum. Það lá því í augum uppi að verkefnið að landa flottu fermingardressi óx mér í augum og ég hef eflaust sjaldan verið jafn lítið peppuð yfir nokkru. Einhverjum vikum fyrir ferminguna var ég í Reykjavík með foreldrum mínum og við mamma fórum í Kringluna, en við skulum segja að það hafi ekkert lekið af mér spennan,“ segir Lilla en fyrir valinu varð svartur Stussy-kjóll og dökkfjólublá rúllukragaskyrta úr Smash.

„Þetta sló í gegn hjá okkur mömmu en starfsfólk búðarinnar sagði að þetta væri alls ekki hentugur fermingarfatnaður. Stuttu fyrir stóra daginn sýndi ég vinkonu minni fötin og ég veit ekki hvert hún ætlaði,“ segir Lilla og daginn fyrir ferminguna völdu þær mæðgur annað dress. „Ég gekk út með hvítar buxur með bleiku demantahjarta framan á, hvítan gegnsæjan kjól úr hálfgerðu blúnduefni og pastel-bleikan bol innanundir. Hvítir bandaskór fullkomnuðu dressið. Ég man enn hvað mér þótti þetta úr karakter við mig en fannst ég þurfa að fylgja straumnum. Það sem toppaði allt var að á sjálfan fermingardaginn dró mamma fram einn hrikalegasta pleðurjakka sem sögur fara af, liturinn er óskilgreindur fjóluvínrauður, en jakkann hafði ég átt í tvö ár og alltaf harðneitað að ganga í honum. Ég gaf eftir þennan eina dag og veit vel að þegar mamma les þetta mun hún hugsa með sér; en ji, hann sem var svo flottur – henni væri trúandi til þess að eiga hann enn í geymslunni fyrir barnabörnin,“ segir Lilla og hlær.

Hefði viljað vera óhræddari við að fara eigin leiðir

Upprifjun Lillu á fermingardeginum sjálum er skondin.

„Ég átti góðan dag með vinum og fjölskyldu þó svo eitt og annað í umgjörðinni hafi ekki endilega verið í takt við mig eða mínar skoðanir. Ég byrjaði daginn á því að fara í greiðslu þar sem hárið var sett upp í voða krúsídúllur og bleik steinabönd þrædd inn í herlegheitin og auðvitað var veglegur lokkur látinn hanga niður meðfram andlitinu. Mér fannst þetta flott greiðsla en kannski ekki alveg í mínum anda, enda vön að hafa hárið slétt og frjálslegt. Eftir greiðsluna tók fermingarförðunin við, nokkuð sem mikið var rætt á meðal okkar stelpnanna fyrir ferminguna, en ég tengdi þó alls ekki við. Systir mín var að læra förðunarfræði á þessum tíma og ætlaði að mála mig. Ég hafði aldrei nokkurn tímann spáð í að setja svo mikið sem maskara á mig, en ég taldi þetta bara eitt af þessum boxum sem eðlilegast væri að haka í.

Ég endaði með fulla förðun og brá þegar ég leit í spegil en það var enginn tími til að spá í því þar sem komið var að myndatökunni og svo athöfninni sjálfri. Þar var ég í fremstu línu með allt of stóra blúnduhanska og vínrauða Passíusálmabók í hendi. Ég gekk inn með bestu vinkonu minni sem hafði náð fullri hæð fyrir fermingu auk þess að vera í smá hælum í þokkabót, svolítið eins og hún hefði tekið litlu systur sína með. Athöfnin gekk nú bara áfallalaust fyrir sig, veislan var vel heppnuð og frábær hópur fjölskyldu og vina naut dagsins með mér. Gleðin yfirgnæfði algerlega ónotin sem ég upplifði við að hafa farið svo langt út fyrir minn karakter og þægindaramma hvað útlit og stíl varðaði. Þegar ég lít til baka hefði ég þó viljað vera óhræddari við að fara mínar eigin leiðir, þora að vera öðruvísi og ekki láta umhverfið stjórna mér. Það er nokkuð sem ég lærði síðar á lífsleiðinni og hefur verið mjög annt um og vil miðla áfram til minna barna og annarra. Að nota röddina og segja þína skoðun.

Fylgja „magatilfinningunni“ sem lýgur aldrei og segja já við því sem þig langar og nei við því sem þú vilt ekki. Mín upplifun er sú að allt sem tengist fermingunni sé töluvert frjálsara og fjölbreyttara nú en það var. Þegar ég sé fermingarmyndir í dag hugsa ég oft hvað þessir krakkar eru töff og þora að vera þau sjálf, eins og þeirra rödd vegi þyngra og meira mark tekið á þeim. Auðvitað á það að vera þannig, börn og ungmenni hafa svo ótrúlega margt fram að færa, við getum svo sannarlega lært af þeim eins og þau af okkur. Við eigum að gefa þeim pláss og bera virðingu fyrir skoðunum þeirra,“ segir Lilla.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál