Hafa ekki fengið krónu frá Eddu Falak

Davíð Goði Þor­varðar­son, Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir störfuðu saman …
Davíð Goði Þor­varðar­son, Edda Falak og Fjóla Sigurðardóttir störfuðu saman í hlaðvarpsþættinum Eigin konur. Samsett mynd

Fjóla Sigurðardóttir, fyrrverandi þáttastjórnandi í Eigin konum, greinir frá því á Twitter í dag að hún og Davíð Goði Þor­varðar­son, fyrrverandi framleiðandi þáttanna, hafi ekki fengið krónu fyrir gerð þáttanna sem þau framleiddu með Eddu Falak. Davíð Goði staðfestir að þau eigi inni peninga fyrir vinnuna.

„Eina sem ég get sagt á þessari stundu er að þetta var mjög erfitt ár og þetta var töluvert erfiðara fyrir Fjólu en fyrir mig,“ segir Davíð og á þar við árið sem þau unnu að hlaðvarpsþættinum Eigin konum með Eddu Falak. Hann segist standa með Fjólu og þeirri ákvörðun þeirra að hætta í þáttunum.

Biðja um að fá borgað

„Á þeim tíma sem við Fjóla vorum að ljúka samstarfinu þá biðjum við um að okkur sé borgað út úr samstarfinu og við fáum þær tekjur sem búið var að afla. Það sem gerist er að okkur er hent út af öllum aðgöngum, tölvupóstum, Youtube- og Spotify-aðgöngum, Patreon – þar sem allar tekjurnar eru og Edda yfirgefur hópsamtalið okkar þar sem við áttum í samskiptum. Hún sagði við okkur bæði að hún ætlaði að græja Patreon-tekjurnar í vikunni en það hefur aldrei gerst,“ segir Davíð. 

Davíð vill ekki fara ofan í smáatriði. Hann segir þau bæði hafa viljað hætta. Peningarnir hafa hins vegar ekki skilað sér. „Hún er bæði með reikningsnúmer hjá mér og Fjólu,“ segir Davíð.

Opnaði sig á Twitter

Fjóla sagðist ekki vera tilbúin að tjá sig frekar um málið að svo stöddu þegar blaðamaður náði í hana.

„Mars 2021 var fyrsti Eigin konu þátturinn - blóð, sviti og tár voru sett í þessa vinnu, frá okkur öllum ásamt framleiðslustjóranum okkar @davidgodith - áskriftir og sponsar - við Davíð höfum ekki séð krónu fyrir okkar vinnu,“ tísti Fjóla í dag. 

Edda sagði í viðtali við DV í dag að um engan ágreining væri að ræða um að Fjóla og Davíð ættu inni peninga hjá henni. Hún hélt því þó fram að þau hefðu ekki verið í sambandi við hana. Edda heldur því einnig fram að samstarfinu hafi lokið með ósætti. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál