Kynntust í lagadeildinni og eru nú hjón

Lögfræðingarnir Unnur Elfa og Jóhann Skúli giftu sig í rómantísku sveitabrúðkaupi í Vallanesi í ágúst í fyrra. Boðið var upp á lífrænt fæði og frábæra skemmtun í huggulegu umhverfi þar sem allir skemmtu sér vel. 

Unnur Elfa Hallsteinsdóttir, lögfræðingur hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, giftist eiginmanni sínum, Jóhanni Skúla Jónssyni, lögfræðingi hjá Hugverkastofunni, þann 7. ágúst í fyrra.

Þótt þau séu bæði fædd og uppalin í Reykjavík, völdu þau að halda brúðkaupið í Vallanesi á Fljótsdalshéraði.

Veðrið lék við bæði brúðhjónin og gestina, og allir skemmtu sér konunglega, enda var ekkert til sparað þegar kom að brúðkaupinu.

„Við vildum gifta okkur í ágúst og þá rétt eftir verslunarmannahelgina, þar sem þá er farið að dimma en samt enn þá heitt í veðri,“ segir brúðguminn sem margir hafa vafalaust heyrt spá í áhugamál sitt, í hlaðvarpinu Draumaliðið og Svona var suamrið, sem fjallar um flest það sem viðkemur íslenskri nútímaknattspyrnu.

Kynntust í lagadeild Háskóla Íslands

Hjónin kynntust þó ekki á fótboltaleik heldur í tíma í lagadeild Háskóla Íslands.

„Við kynntumst árið 2015 og svo leið tíminn og nú eigum við tvö yndisleg börn saman. Verandi lögfræðingar vildum við innsigla ástina með hjónabandi,“ segja þau og bæta við að þeim hafi ekki síður þótt mikilvægt að halda veislu og hóa til sem flestra úr fjölskyldunni og vinahópunum.

„Það var reyndar ekki svo auðvelt því á þessum tíma voru fjöldatakmarkanir vegna kórónuveirunnar sem við þurftum að fara eftir. Við náðum þó að hóa saman 150 manns og að gera sem mest úr því sem sveitin hafði upp á að bjóða á þessum árstíma,“ segir Unnur Elfa og heldur áfram að útskýra af hverju sveitabrúðkaup varð fyrir valinu. „Við vildum halda sveitabrúðkaup hinum megin á landinu, en það er systir mín, hún Eygló Björk Ólafsdóttir, og maðurinn hennar, Eymundur Magnússon, sem reka býlið Vallanes, þar sem finna má lífræna ræktun í sveitinni, veitingahús og fleira. Við ákváðum að halda veisluna hjá þeim, en þau giftu sig á staðnum fyrir rúmum tíu árum, sem var svo dásamlegt að við vildum gera eitthvað svipað.

Á staðnum er kirkja sem er rómantísk og falleg og þar sem við vorum mikið í sveitinni árið áður vegna kórónuveirunnar og takmarkana á ferðalögum til útlanda, þá ákváðum við að slá til og halda brúðkaupið hjá þeim.“

Brúðguminn er einnig með fallega tengingu við svæðið, en hann er af Skógagerðisættinni á Egilsstöðum.

„Svo staðurinn hentaði okkur báðum. Afi hans ólst upp í fallegu húsi rétt fyrir utan Egilsstaði sem er leigt út og sló fjölskyldan hans til og ákvað að gista þar,“ segir hún.

„Hann vildi ekki að ég gifti mig í samfestingi“

Eins og ljósmyndirnar úr brúðkaupinu sýna voru brúðhjónin í einstaklega fallegum klæðnaði.

„Malen Dögg Þorsteinsdóttir frá Eðalklæðum saumaði kjólinn minn. Ég var með þá hugmynd að vera í rómantískum kjól, með blúndu, en við Malen ákváðum að hafa síðar ermar á kjólnum. Það var mjög áhugavert ferli að vinna kjólinn með henni. Malen er mikill fagmaður á sínu sviði og úr varð hinn fallegi silkikjóll með blúndu yfir sem keypt var í New York. Ég lærði mikið af þessu öllu saman. Ég var líka í samfestingi frá Rime Arodaky, en maðurinn minn vildi ekki að ég gifti mig í honum, svo ég skipti um fatnað þegar partýið byrjaði.

Margir héldu að ég væri enn þá í kjólnum, en samfestingurinn var lagaður til á mig svo hann rímaði mjög vel við kjólinn.

Jóhann var í jakkafötum frá Suitup eins og flestir karlmennirnir í veislunni enda reka vinir þeirra verslunina.

Ég var ekki með mjög sterkar skoðanir á því hvernig ég vildi hafa fatnaðinn hans, en vildi að Jóhann væri með aðeins sítt hár, sem kom mjög vel út. Sonur okkur var klæddur í stíl við pabba sinn, sem kom fallega út og svo var dóttir okkar í dásamlegum kjól frá Loforði.“

Tæmdu gróðurhúsið og gerðu að sínu

Vallarnesið var nýtt eins vel og brúðhjónin gátu, enda einstaklega mikil upplifun að fara þangað í veglegt brúðkaup svo ekki sé talað um lífræna ræktunina og allan matinn sem þar má finna beint úr náttúrunni.

„Við vildum hafa veisluna í gróðurhúsinu, þar sem var allt í drasli fyrir veisluna. Við tæmdum það og settum allt inn sem við þurftum. Við fengum sem dæmi borð að láni í Safnaðarheimilinu og stóla líka. Síðan skreyttum við gróðurhúsið sjálf. Sæmundur Kristjánsson sá um matinn. Við vildum hafa nóg af grænmeti, en einnig nautalund og hreindýrakjöt svo við buðum einnig upp á hreindýrabollur sem við fengum gefins að austan og nautakjöt sem við keyptum helgina fyrir veisluna. Allt grænmetið var ræktað í Vallanesi hjá systur minni svo flestir fundu eitthvað við sitt hæfi matarkyns í veislunni.“

Kerran og traktorinn bakgrunnur fyrir ljósmyndir

Brúðkaupskakan var gerð á Egilsstöðum og smakkaðist frábærlega að sögn brúðhjónanna.

„Við fundum síðuna Bryndísbakar á Instagram, þar sem stelpa á Egilsstöðum gerir fallegar hvítar brúðkaupskökur með blómum á. Kjötið fengum við frá Norðlenska og ýmislegt þurfti að finna út fyrir veisluna í sveitinni.

Það er aðeins meiri fyrirhöfn að skipuleggja veislu úti á landi, en allt gekk upp að lokum og veislan heppnaðist alveg einstaklega vel þó við segjum sjálf frá.“

Eins og ljósmyndir úr veislunni sýna þá var mikið lagt í litlu hlutina, sem gerði upplifunina í sveitinni skemmtilega.

„Við skreyttum sem dæmi gamla kerru með blómum og gerðum traktorinn einnig sætan með skrauti. Við vorum keyrð um sveitina á þessu fallega farartæki eftir athöfnina í Vallaneskirkju.

Traktorinn notuðum við sem fallegan ljósmyndabakgrunn svo gestirnir gátu tekið skemmtilegar myndir af sér fyrir framan hann í veislunni. Við mælum hiklaust með sveitabrúðkaupi en að skipuleggja dagskrá vel áður. Við vorum með kvöldvöku kvöldið fyrir brúðkaupið, spurningakeppni, skipulagða ferð í Baðhúsið Vök á Egilsstöðum. Eins vorum við með rútur fyrir fólk sem keyrðu frá Egilsstöðum á Vallanes sem er í tíu mínútna fjarlægð enda er lítið um leigubíla á þessu svæði og því mikilvægt að huga að þeim málum.

Við brúðhjónin gistum á 1001 nótt sem er hótel rétt hjá Vallarnesi og getum við klárlega mælt með því við alla. Við létum taka ljósmyndir af okkur þar sem var fallegt, en það var okkur mikilvægt að eiga ljósmynd frá mismunandi sjónarhorni yfir brúðkaupsdaginn,“ segja þau að lokum og mæla af heilum hug með Laimonas Dom Baranauskas sem tók ljósmyndir fyrir þau á brúðkaupsdaginn, en hann á og rekur fyrirtækið Sunday & White Studio.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál